Skólastarfið í september

Vinátta - Samvinna - Ábyrgð

Mikil tilhlökkun fyrir nýju skólaári

Í vetur munu allir nemendur skólans nema og starfa í aðalbyggingu skólans og lausar kennslustofur sem áður voru nýttar fyrir unglingadeild hafa fengið nýtt hlutverk. Leikvellir eru aftur komnir undir leikskólastarf og Fléttuvellir hafa verið innréttaðir fyrir Fjölgreinadeild skólans sem færist frá Gamla Lækjarskóla hingað á Vellina. Er það mikill kostur að fá deildina hingað til okkar því með nálægðinni skapast tækifæri til að efla og styðja við starfið á einfaldari máta en áður.


Spennandi tímar eru líka framundan í unglingadeild við að þróa og skipuleggja nútímalegt skólastarf á opnum svæðum. Lögð verður áhersla á samþættingu námsgreina gegnum verkefni sem við köllum Hraunflæði og innleiddar verða vinnustundir þar sem sjálfstæði, val og ábyrgð nemenda eru höfð að leiðarljósi.


Hraunvallaskóli er fjölmenningarlegur skóli. Undanfarin ár hefur Íslendingum af erlendu bergi fjölgað í skólanum og er núna um fjórðungur skólans. Í skólanum eru töluð 21 tungumál auk íslensku og kennarar og starfsmenn sem koma að ÍSAT kennslu fjölgar að sama skapi. Við hér í Hraunvallaskóla fögnum þessari þróun því þegar börn nema við fjölmenningarlegar aðstæður læra þau að hafa jákvæða afstöðu gagnvart fjölbreytileika og tileinka sér umburðarlyndi gagnvart ólíkum hugmyndum og hefðum.


Megum við öll eiga ánægjulegt skólaár fram undan, þar sem allir eru staðráðnir í að gera sitt besta í sátt og samlyndi.


Hlý kveðja, Lars Jóhann Imsland, skólastjóri

Nýtt skólamerki

Nú hefur skólinn látið uppfæra skólamerkið og erum við afar ánægð með "nýja" merkið. Það hefur sömu merkingu og áður en er orðið nútímalegra. Í framhaldi af því vonumst við til þess að skólinn verði merktur utanfrá.


Svona til að rifja upp hvað merki skólans þýðir þá er fleyið lýsandi fyrir grunngildi skólans: Hvert segl táknar eitt gildi og seglin þrjú standa því fyrir vináttu, samvinnu og ábyrgð sem eru gullnar reglur sem gilda í öllum samskiptum. Fleyið er eins og bros í laginu og er táknrænt fyrir farartæki sem gefur okkur frelsi og jákvæðni til að koma okkur þangað sem við þurfum að fara í lífinu. Með gildin þrjú innanborðs verður ferðalagið okkur farsælt og ánægjulegt. Gyllti liturinn í merki skólans stendur fyrir visku, verðmæti og sól en sá dökkgræni fyrir grósku, vöxt og blíðu.

Ólympíuhlaup ÍSÍ

Hið árlega Ólympíuhlaup ÍSÍ verður miðvikudaginn 7. sept. Nemendur hlaupa mismarga hringi í hverfinu allt eftir vilja og aldri hvers og eins. Í yngstu hópunum fer starfsfólk með nemendum hringinn þannig að allir viti nú hvert á að fara. Á leiðinni starfsfólk með stuttu millibili og hvetur nemendur áfram. Við ætlum að tónlist á víð og dreif í hringnum til að skemmta okkur ennþá meira. Við viljum hvetja foreldra/forsjáraðila til að koma og hlaupa með eða hvetja nemendur áfram.
Hlaupið byrjar á eftirtöldum tímum eftir árgöngunum:

kl. 09:20 1.-4. bekkur

kl. 09:40 5.-10. bekkur

Skipulagsdagur

Föstudagurinn 9. september er skipulagsdagur hér í Hraunvallaskóla. Þá gefst kennurum tækifæri til skipulagningar á skólastarfinu ásamt endurmenntun. Kennarar í yngri deild ætla að fara á byrjendalæsisráðstefnu og koma til baka fullir af nýjum hugmyndum.


Nemendur eru í fríi þennan dag í skólanum en Hraunsel er opið fyrir alla nemendur í 1.-4. bekk. Skráning er í Hraunsel fyrir þá sem eru með daglega vistun þar og er búið að opna fyrir skráningar í gegnum „Völu“. Þeir nemendur sem ekki eru með daglega vistun í Hraunseli geta sent tölvupóst á sarap@hraunvallaskoli.is og óskað eftir vistun á þessum degi. Sá vistunartími er frá kl. 08:00-13:20. Lokað verður fyrir skráningar á miðnætti mánudagskvöldið 5. sept.

Skólakynningar

Sú yndislega staðreynd er sú að við getum verið með skólakynningar í árgöngum hér í skólanum fyrir ykkur forsjáraðila. Þær verða nú í september á eftirtöldum dagsetningum:


13. sept. Skólakynning í 8. bekk

14. sept. Skólakynning í 2. bekk

15. sept. Skólakynning í 5. bekk

15. sept. Skólafærninámskeið í 1. bekk

16. sept. Skólakynning í 7. bekk

19. sept. Skólakynning í 4. bekk

20. sept. Skólakynning í 9. bekk

21. sept. Skólakynning í 6. bekk

22. sept. Skólakynning í 10. bekk

23. sept. Skólakynning í 3. bekk


Kynningarnar í 2.-7. bekk hefjast kl. 08:15 en hjá 8.-10. bekk kl. 08:30. Kynningarnar fara fram á heimasvæðum árganganna.
Skólafærninámskeið 1. bekkjar er seinnipartinn eða kl. 17:30, nánari upplýsingar verða sendar á forsjáraðila þegar nær dregur.


Mæting í skólann á skólakynningardaginn
Nemendur í 1.-4. bekk mæta á sínum venjulega tíma í skólann og fá önnur verkefni á meðan á kynningunni stendur. Nemendur í 5.-10. bekk mæta í skólann kl. 09:15 og 8.-10. bekkur kl. 09:35.

Reykir fyrir nemendur í 7. bekk

Hin árlega ferð 7. bekkjar á Reyki í Hrútafirði verður 26.-30. september. Það er vafalaust mikil tilhlökkun í nemendahópnum enda koma nemendur endurnærðir og sælir heim úr svona ferð. Upplýsingar og skráning fer út á hóp forsjáraðila 7. bekkjar næstu daga.

Viðburðarskóladagatal

Á hverju skólaári setjum við upp viðburðarskóladagatal um helstu viðburði sem eiga sér stað hér í skólanum. Hér er það og mælum við með því að þið forsjáraðilar hafi það á góðum stað því þannig getið þið séð tímanlega hvað er framundan.

Hjólareglur

Nú er tilvalið að rifja upp hjólareglur skólans þar sem nemendur eru duglegir að koma á hjólum, hlaupahjólum, rafmagshlaupahjólum eða vespum í skólann. Við viljum biðja ykkur um að rifja þessar reglur upp með börnunum ykkar svo allir séu á sömu blaðsíðunni. Við viljum sérstaklega benda á reglurnar um léttu bifhjólin þar sem það er stranglega bannað að vera á þeim á skólalóðinni.


Reglur:


 • Samkvæmt lögum er öllum undir 16 ára aldri, á hjólum, hlaupahjólum, línuskautum og léttum bifhjólum, skylt að nota öryggishjálma og viðeigandi öryggisbúnað. Endurskinsmerki skal nota í skammdeginu og hjólin þurfa að vera með ljósum og glitaugum og öðrum þeim öryggisbúnaði sem gerir þau lögleg.
 • Hjól skulu vera læst á skólatíma og bera nemendur ábyrgð á hjólum sínum.
 • Hjólreiðar til og frá skóla eru alfarið á ábyrgð foreldra.
 • Nemendur sem velja að koma á hlaupahjólum í skólann gera það á eigin ábyrgð og læsa skal hlaupahjólum rétt eins og reiðhjólum fyrir utan skólann.
 • Hjólin má ekki nota á skólatíma (frímínútur falla undir skólatíma) en heimilt er að fara stystu leið út af og inn á skólalóð ef farið er á hjóli í Ásvallalaug eða á Ásvelli. Þó er heimilt er að nota hlaupahjól og hjólabretti á hjólabrettavelli á skólatíma.
 • Samkvæmt 44 grein umferðarlaga má barn yngra en 7 ára ekki hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti einstaklings sem náð hefur 15 ára aldri. Því óskum við þess að nemendur í 1. bekk komi ekki á hjólum í skólann nema undir eftirliti fullorðinna.
 • Nemendur í 2.–4 bekk mega koma á hjólum í skólann fari þeir að settum umferðarlögum, með hjálma og læsi hjólum sínum við hjólagrindur eða aðra viðurkennda staði (grindverk) á skólalóðinni. Nemendum í 2.–3. bekk er ekki heimilt að hjóla til og frá Ásvallalaug.
 • Nemendum í 4.–10. bekk er heimilt að koma á hjólum í skólann fari þeir að settum umferðalögum með hjálma og læsi hjólum sínum við hjólagrindur eða aðra viðurkennda staði (grindverk) á skólalóðinni. Nemendum í 4.–10. bekk er heimilt að hjóla til og frá Ásvallalaug og að Ásvöllum og skal þá farið stystu leið út af og inn á skólalóð.Létt bifhjól

Nemendum sem eru orðnir 13 ára er heimilt að koma á léttu bifhjóli í flokki 1 í skólann svo fremi sem farið er að reglum sem gilda um notkun slíkra hjóla. Létt bifhjól eru aldrei leyfð á skólalóð. Þeim skal lagt á skilgreint svæði sem sérstaklega er ætlað léttum bifhjólum. Nánar um létt bifhjól má lesa hér: https://eplica.samgongustofa.is/media/umferd/Lett-bifhjol-i-flokki-I.2017.3.pdf.


Reglur um létt bifhjól


 • Ég nota ávallt hjálm
 • Ég tek aldrei farþega
 • Ég tek tillit til gangandi vegfaranda og gæti að mér í umferðinni.
 • Ég legg hjólinu á réttan stað
 • Ég fer stystu leið inn á og út af skólalóð
 • Ég keyri aldrei á léttu bifhjóli á skólalóð

Frístundabíllinn

Frístundabílinn hefur göngu sína á ný og er öllum börnum í 1.–4. bekk boðið upp á akstur á æfingar sem hefjast klukkan 15:00 og 16:00. Aksturinn, sem hefst mánudaginn 30. ágúst, verður kl. 14:20 frá skólanum á æfingar sem byrja kl. 15:00 og kl. 15:20 á æfingar sem byrja kl. 16:00.


Ekið verður alla virka daga fram að jólafríi utan þess að aksturinn fellur niður í vetrarfríi. Ekið er á fjölmarga staði eins og til Listdansskólans, tónlistarskólans, Bjarkarinnar, FH, Hauka og SH, Badmintonfélags Hafnarfjarðar, Golfklúbbsins Keilis eða allt eftir því hvar börn í 1.–4. bekk eru skráð til æfinga í Hafnarfirði.


Æfingatöflur liggja nú fyrir hjá flestum íþróttafélögum og eru fjölmargir foreldrar byrjaðir að skrá börnin sín þar. Verkefnið er unnið í samvinnu Hafnarfjarðarbæjar við íþróttafélögin og Hópbíla sem sjá um aksturinn.


Skráning í frístundaakstur
Gott er að skrá börn fyrst á æfingar og síðan í aksturinn en allir munu komast að í aksturinn. Skráning í aksturinn fer fram í gegnum https://fristund.vala.is/umsokn/#/leisurebus.

Aksturinn er foreldrum að kostnaðarlausu. Starfsmaður frá Hraunseli verður með í hverri ferð og tryggir öryggi krakkanna í rútunni og að þeir skili sér í rétt félag. Börn sem ekki eru skráð í frístundaheimili í 1.–4. bekk geta einnig nýtt sér aksturinn en það er á ábyrgð foreldra að skrá þau og tryggja að þau séu mætt á réttum tíma á upphafstað frístundaakstursins. Forráðamenn sækja börnin þegar æfingu er lokið.


Það er á ábyrgð foreldra/forráðamanna að breyta umsókn ef breytingar verða á æfingum eða æfingatíma og vakin er athygli á því að skráningar og breytingar taka gildi eftir sólarhring. Ferlið er það sama og ef um nýja umsókn er að ræða. Ekki er hægt að gera breytingar í tölvupósti eða í síma.

Tómstundamiðstöð skólans

Hér er dagskrá Hraunsels og Mosans fyrir SEPTEMBER. Endilega hvetjið nemendur til að taka þátt, þetta er svo skemmtilegt.