Flataskólafréttir

Skólaárið 2020-2021 - 1. febrúar 2021

Kæra skólasamfélag!

Sólin potast örlítið hærra upp á himininn með hverjum deginum sem líður og fyrr en varir verður orðið bjart að nýju þegar skólinn hefst að morgni. Við erum líka allt í einu komin á síðari hluta skólaársins og nú er um að gera að halda vel á spöðunum þannig að við getum litið stolt um öxl í vor.

Eins og allir vita hafa verið miklar umræður um samskiptamál í grunnskólum bæjarins í vetur. Hér í Flataskóla eru þau að sjálfsögðu líka í brennidepli enda er margt sem gerist á "stóru heimili" og það er jú alltaf stór hluti af hvers kyns uppeldisstarfi að vinna með og leiðbeina um samskipti. Það koma alltaf nokkur mál upp á hverju skólaári þar sem grípa þarf inn í samskiptamynstur og fá aðstoð foreldra við það. Svo er einnig nú en við erum reyndar nokkuð hugsi yfir ákveðinni hörku sem virðist vera í samskiptum nemenda, sérstaklega á miðstigi skólans. Alltof oft einkennast þau af dómhörku, niðrandi og óvægnu orðbragði og ákveðnum skorti á umburðarlyndi og samhygð. Hugsanlega er þetta hluti af einhverri stemmingu í samfélaginu þessi misserin eins og sjá má af fjölmiðlaumfjöllun þessa dagana, en engu að síður er þetta óásættanlegt og við eigum að geta breytt þessu í sameiningu. Í skólanum erum við að gera átak í að nýta bekkjafundi til að þjálfa nemendur í að lýsa skoðunum sínum og tilfinningum, hlusta á aðra og setja sig í spor annarra. Þá munum við á næstu dögum fá Bjarna Fritzson til að ræða við nemendur á miðstiginu, við erum að fá Vöndu Sigurgeirsdóttur til ráðgjafar í ákveðnum málum og leitum að sjálfsögðu aðstoðar foreldra þar sem það á við og leitum lausna í öllum þeim málum sem upp koma. Það er hins vegar málefni alls samfélagsins að breyta umræðunni og bæta samskiptin heilt yfir. Af þessu tilefni vil ég vísa á myndbandið sem er að finna hér að neðan. Það hefur áður verið auglýst á heimasíðu skólans og í fréttabréfi en mig langar að biðja foreldra um að taka þær 20 mínútur sem þarf til að horfa á það enda er um góðan og mikilvægan boðskap að ræða.


Bestu kveðjur!

Ágúst skólastjóri

Log into Facebook

Áframhaldandi takmarkanir á heimsóknum í skólann

Við minnum á tilmæli frá almannavörnum um að til að draga úr smithættu, þá komi foreldrar, (eða aðrir fullorðnir) ekki inn í skóla barna sinna nema þeir séu boðaðir þangað sérstaklega og þá sé smitgát viðhöfð.

Helstu viðburðir framundan

Við minnum á vetrarfríið sem verður í síðustu viku febrúar. Leikskóladeild og Krakkakot eru opin í vetrarfríinu. Skráning í Krakkakot verður auglýst með tölvupósti frá Sögu umsjónarmanni á allra næstu dögum.

  • 1. feb. - Samtalsdagur - viðtöl við umsjónarkennara
  • 17. feb - Öskudagur - uppbrotsdagur - nánar auglýst síðar
  • 22.-25. feb - Vetrarfrí
  • 26. feb - Skipulagsdagur í leik- og grunnskólum Garðabæjar
  • 26. mars - Síðasti kennsludagur fyrir páskafrí

Fjölvalið hófst að nýju í janúar

Eitt af því sem við erum stolt af í Flataskóla er fjölval nemenda. Það eru kennslustundir þar sem nemendur starfa í aldursblönduðum hópum og vinna að verkefnum sem þeir velja sér eftir því sem áhugi þeirra stendur til. Þau fara tvisvar sinnum á hverja stöð og það er sannarlega ýmislegt í boði. Má þar nefna dans, tæknivinnu af ýmsum toga, útileiki, matreiðslu, slökun, golf og tónlist svo eitthvað sé nefnt en listinn er reyndar mun lengri og tekur einnig breytingum yfir veturinn. Vegna sóttvarnaraðgerða þurftum við að gera hlé á fjölvalstímunum okkar í október en nú höfum við tekið þráðinn upp að nýju. Myndin sem fylgir fréttinni er af dæmi um afurð fjölvalsstöðvar á yngra stigi, en þar eru föndraðar köngulær af mikilli list.

Þakkardagur vinaliða

Í Flataskóla starfa vinaliðar en hlutverk þeirra er að stýra uppbyggilegri afþreyingu á skólalóðinni í frímínútum. Vinaliðar eru valdir úr hópi nemenda á miðstigi og sinna hlutverkinu í tiltekinn tíma og uppskera að því loknu laun erfiðisins þegar þakkardagar eru haldnir. Slíkur dagur var einmitt föstudaginn 29. janúar og þá gerðu vinaliðar sér glaðan dag ásamt verkefnisstjórum. Að þessu sinni skellti hópurinn sér í Smárabíó og sá myndina Wonder Woman 1984 og gæddi sér á gómsætum pizzum ásamt því að leika lausum hala í leiktækjum Smárabíós. Nú tekur svo nýr hópur vinaliða við keflinu, þau fara á námskeið þann 8. febrúar til að undirbúa sig undir hlutverkið og taka svo til óspilltra málanna.

Til forráðamanna vegna nýrrar birtingarmyndar kynferðisbrota

Barnaverndaryfirvöld vilja vekja athygli forráðamanna á nýrri birtingarmynd kynferðisbrota gegn börnum og unglingum sem vert er að vera vakandi fyrir. Komið hafa upp nokkur tilvik á landinu á síðustu vikum þar sem fullorðnir aðilar hafa verið að greiða ungmennum á grunnskólaaldri peninga fyrir kynferðislegar ljósmyndir. Leið þeirra að samskiptum við ungmennin er í flestum tilvikum í gegnum spjall á netinu og þá helst Snapchat og Instagram auk þess sem Tik tok og appið Telegram hafa verið nefnd. Börnum eru boðnar á bilinu 5.000- 10.000 krónur fyrir myndina og fer upphæðin eftir því hvað sést á myndinni og hversu skýr hún er. Greiðslur hafa farið fram í gegnum öpp eins og Aur og Kass. Sjá nánar um þetta hér:

http://flataskoli.is/forsida/frettir/frett/2021/01/27/Til-forradamanna-vegna-nyrrar-birtingarmyndar-kynferdisbrota/

Foreldrakannanir Skólapúlsins

Núna í febrúar munu fara fram foreldrakannanir Skólapúlsins. Könnun er lögð fyrir foreldra allra barna á leikskólastiginu en á grunnskólastiginu er hún send á úrtak úr foreldrahópnum. i. Í þeim tilvikum þar sem netföng tveggja foreldra eru skráð er hending látin ráða hvor aðilinn fær könnunina senda fyrst. Ef svör berast ekki frá þeim aðila sem fyrst fær könnunina senda, er könnunin send á netfang næsta foreldris. Niðurstöður kannana af þessu tagi gefa okkur mikilvægar vísbendingar um skólastarfið og því er mikilvægt að sem allra flestir taki þátt. Ef einhverjir vilja hins vegar ekki eiga möguleika á að svara könnuninni er hægt að hafa samband við skrifstofu skólans.

Hér má finna nánari upplýsingar vegna könnunar meðal foreldra leikskólabarna.

Hér má finna nánari upplýsingar vegna könnunar meðal foreldra grunnskólabarna.

Kennaraskipti í 4. bekk

Nú um miðjan mánuðinn fer Andri Freyr umsjónarkennari í 4. bekk í fæðingarorlof og verður í því til vors. Við búum svo vel að einn stuðningsfulltrúinn okkar, Auður Jónsdóttir, er reyndur kennari og hún mun hlaupa í skarðið fyrir Andra.

Ný forvarnarstefna Garðabæjar í vinnslu


Nú stendur yfir vinna við gerð nýrrar forvarnastefnu Garðabæjar.


Drög að stefnunni liggja fyrir og íbúar Garðabæjar geta hér skoðað drögin og sent inn ábendingar eða athugasemdir um stefnuna.

Stefnan ásamt ábendingum/athugasemdum verður tekin til umfjöllunar í íþrótta- og tómstundaráði Garðabæjar í febrúar. Stefnan verður einnig send til umsagnar í nefndum Garðabæjar áður en hún verður lögð fyrir bæjarstjórn Garðabæjar til samþykktar.

Áhersluþættir í nýju forvarnastefnunni koma fram í undirköflunum upplýst-, öruggt-, öflugt-, hvetjandi-, ábyrgt-, og heilsueflandi samfélag. Hver áhersluþáttur tengist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem birtist með táknmyndum þeirra kafla sem tengingin á við og bæjarstjórn Garðabæjar hefur samþykkt að stefna að.

Styrkur til íþrótta- og tómstundastarfs

Vakin er athygli á íþrótta- og tómstundastyrkjum fyrir grunnskólabörn sem búa á heimilum þar sem heildartekjur framfærenda, einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks, voru lægri en 740.000 kr. að meðaltali á mánuði á tímabilinu mars – júlí árið 2020. Um er að ræða sérstakt verkefni félags- og barnamálaráðherra í kjölfar Covid-19 faraldursins. Styrkurinn er veittur vegna barna sem fædd eru á árunum 2005-2014 og er að hámarki 45.000 krónur fyrir hvert barn sem stundar skipulagt tómstunda- og/eða íþróttastarf undir leiðsögn þjálfara eða leiðbeinanda. Athugið að hægt er að koma með kvittanir fyrir íþrótta- og tómstundastarfi sem greitt var fyrir í upphafi árs, eða frá hausti 2020. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar og kanna rétt sinn til styrksins með því að skrá sig inn á island.is og einnig er nánari upplýsingar að finna hér: https://island.is/styrkur-til-ithrotta-og-tomstundastarfs

Bílastæði - varúð!

Á morgnana verður oft töluverður umferðarþungi við bílastæði skólans og mikillar varúðar þörf. Við hvetjum að sjálfsögðu til þess að sem flestir nemendur gangi eða hjóli í skólann og biðjum forráðamenn að skoða hvort þeir séu kannski að aka börnum sínum að óþörfu og taka þannig af þeim bráðholla hreyfingu!

Hina sem af ýmsum ástæðum þurfa að aka börnum sínum biðjum við um að sýna varúð og tillitssemi.

  • Aka mjög hægt og varlega inn á og um aðkomusvæði skólans
  • Skipuleggja kveðjur og hafa töskur tilbúnar þannig að viðvera á aðkomusvæði geti verið sem allra styst - Stoppa - kyssa - keyra
  • Leggja í stæði ef þörf er á að staldra við og fylgja börnunum að dyrum en nota annars sleppistæðin
Skólamatur - áskrift

Við minnum á að breytingar á mataráskrift þarf að tilkynna fyrir 25. dag hvers mánaðar ef þeirra er óskað. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan má nálgast skráningarsíðu og áskriftarskilmála.

Opnunartími skrifstofu - skráningar fjarvista

Skrifstofa skólans er opin:
Mánudaga – fimmtudaga frá kl: 7:45 – 15:00.
Föstudaga frá kl. 7:45-14:30


Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti á netfangið flataskoli@flataskoli.is eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.

ATH - ef nemendur þurfa að fara í sóttkví biðjum við nemendur um að tilkynna það með tölvupósti á flataskoli@flataskoli.is


Leyfisbeiðnir fyrir nemendur

Nemendum er veitt leyfi til að sinna nauðsynlegum erindum. Mælst er til að leyfisbeiðnum sé haldið í lágmarki og jafnframt eru foreldrar/forráðamenn beðnir um að fara fram á þær með góðum fyrirvara sé þess nokkur kostur. Foreldrar eru beðnir um að sækja um leyfi hjá skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra ef óskað er eftir leyfi meira en tvo daga, (umsókn um leyfi) annars nægir að fá leyfi hjá umsjónarkennara.