
Fréttabréf Borgaskóla
3. tbl. 3. árg.
Glænýtt fréttabréf er komið út
Starfsfólk Borgaskóla vonar að lestur fréttabréfsins verði ánægjulegur og hvetur lesendur til að deila því með öðrum áhugasömum.
Vorhátíð
Vorhátíð foreldrafélags Borgaskóla, Borgaskóla, Hvergilands og Vígyn verður haldin seinnipartinn 23. maí 2023. Vinsamlegast takið daginn frá.
Borgaskóli varð í 3. sæti í Lífshlaupinu
Borgaskóli hreppti 3. sætið í grunnskólakeppni Lífshlaupsins sem fram fór dagana 1.-14. febrúar. Hreyfing nemenda var skráð og kennarar og foreldar voru duglegir að hvetja nemendur áfram til hreyfingar. Grunnskólar í Grafarvogi voru í þremur efstu sætunum í flokki skóla þar sem nemendafjöldi er á bilinu 90-299 og við óskum Engjaskóla og Húsaskóla til hamingju með frábæran árangur.
Leikjaval
Í síðustu lotu var boðið upp á leikjaval í vali fyrir 6. – 7. bekk. Þar fengu 15 nemendur tækifæri til að fara í leiki saman og skipuleggja leiki fyrir aðra nemendur í frímínútum. Í byrjun fórum við í samvinnuleiki með það að markmiði að þjappa hópinn saman. Þegar góð liðsheild var komin, tók við kennsla í að skipuleggja leiki fyrir nemendur skólans. Nemendur í leikjavali fengu því bæði þjálfun í viðburðastjórnun ásamt því að stýra viðburði úti á skólalóð. Það sem nemendur ákváðu var hvaða leikur yrði, hvar á skólalóðinni, hvað þurfti til (t.d. bolta, snú-snú band, krítar eða annað) og fyrir hvaða aldur leikurinn var. Leikjastórnendur völdu sér einn dag í hverri viku þar sem þeir sáu um leiki úti í frímínútum og fengu gul vesti til að klæðast svo að aðrir nemendur vissu hverjir væru að stýra leikjum þann daginn. Þetta val stóð yfir í 5 vikur og því stýrðu nemendur leikjum úti 5 sinnum á tímabilinu. Þetta val heppnaðist með eindæmum vel og voru bæði nemendur í valinu ásamt þeim sem nutu þess að fara í leikina ánægðir með fyrirkomulagið. Mikil eftirspurn er eftir leikjavali og því verður það aftur í boði fyrir hressa krakka sem vilja bera ábyrgð og vera jafnframt góðar fyrirmyndir.
Hæfniviðmið sem unnið var með í valinu:
að nemendur hafi á virkan hátt áhrif á skólasamfélag sitt með þátttöku í leik og starfi
að nemendur geti unnið með öðrum og lagt sitt af mörkum í samstarfi sem tengist námi og félagsstarfi innan skólans.
Sjónlistadagurinn
Sjónlistadagurinn var haldin þann 15. mars síðastliðinn. Til sjónlista teljast, myndlist, kvikmyndagerð, ljósmyndun, byggingarlist og nytjalist
Verkefnið er samnorrænt og er markmiðið að dagurinn verði haldin hátíðlegur í öllum löndunum um miðjan mars, í skólum, söfnum og stofnunum.
Í ár var verkefnið: Teiknum auga. Hvað sérð þú í þínu auga?
Nemendur tóku verkefninu fagnandi og óhætt er að segja að fjölmargir hæfileikaríkir teiknarar séu hér á ferð. Afraksturinn má finna á gula veggnum við matsalinn.
Fréttir frá textíl
Forskólinn í tónmennt og íþróttum
Í mars komu forskólabörnin frá Hulduheimum og Hömrum í heimsókn í tónmennt til Svans og sungu þar nokkur lög með þriðja bekk sem var þá í tónmennt. Krakkarnir fengu að prófa að spila á hristuegg við eitt laganna og fannst það mjög gaman.
Einnig komu þau í íþróttir til Sigga sem einnig var að kenna þriðja bekk á þeim tíma. Krakkarnir fóru í skemmtilega hreyfileiki og skemmtu sér vel.
Evrópuvika gegn rasisma
Nemendur og starfsfólk tóku höndum saman, í orðsins fyllstu merkingu, þriðjudaginn 21. mars kl. 11:00 á alþjóðlegum baráttudegi gegn rasisma.
21. mars hefur verið útnefndur sem alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna valdi þessa dagsetningu til að minnast 69 mótmælenda sem myrtir voru 21. mars árið 1960 er þeir tóku þátt í mótmælum gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku. Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti hverfist um alþjóðadag gegn kynþáttamisrétti og miðar að því að uppræta þröngsýni, fordóma og þjóðernishyggju í Evrópu. Markmiðið er að byggja Evrópusamfélag víðsýni og samkenndar þar sem allir eru jafnir, óháð útliti og uppruna. Grunnskólum á landinu er boðið að taka þátt, þar sem nemendum og starfsfólki gefst tækifæri til að taka þátt með því að taka hönd í hönd í kringum skólabyggingar sínar til að sýna samstöðu með margbreytileika.
Forskólinn heimsótti heimilsfræðistofuna
Í febrúar komu forskólahóparnir frá Hulduheimum og Hömrum í heimsókn í heimilisfræðistofuna til Áshildar. Þar fengu krakkarnir að kynnast ýmsum umgengnisreglum og umhverfinu í stofunni. Þau þvoðu sér um hendur, fengu gerdeigsklump sem þau hnoðuðu, bjuggu til þessar líka fínu bollur og skreyttu pokann sinn á meðan þau fylgdust með bollunum bakast í ofninum. Í lokin fengu þau að taka bolluna með sér heim í pokanum sínum.
Nemendaþing
Nemendaþing Borgaskóla var haldið mánudaginn 27. mars. Undirbúningur þingsins var í höndum réttindaráðs Borgaskóla og umræðuefnið var réttindi barna og forréttindi. Borgaskóli stefnir að því að verða Réttindaskóli Unicef á næsta skólaári og því er umræða á borð við þessa mikilvægur liður í að Barnasáttmálinn verði samofinn starfinu okkar. Nemendum var skipt í hópa þvert á árganga, elstu nemendur voru hópstjórar og stýrðu umræðum með aðstoð kennara. Hópstjórar fengu sérstaka þjálfun áður en þeir tókust á við hlutverkið og stóðu sig með mikilli prýði.
Borgaskólaleikar
Á öskudag voru Borgaskólaleikar haldnir í fyrsta sinn. Öllum nemendum var skipt í lið þvert á árganga þar sem elstu nemendur voru hópstjórar. Hóparnir söfnuðu stigum með því að leysa þrautir sem reyndu á fjölbreytta hæfni. Má þar t.d. nefna hreystigreip, kappát, pönnukökukeppni, stafsetningarkeppni, naglaboðhlaup og sipp. Það var ánægjulegt að fylgjast með kynjaverum af öllum stærðum og gerðum hjálpast að við að safna stigum og fá hópstjórar sérstakt hrós fyrir að skila hlutverki sínu mjög vel. Verðlaunaafhending var haldin á sal 1. mars þar sem tvö lið voru jöfn að stigum og skiptu með sér 1. sætinu. Fengu þau afhenda verðlaunapeninga sem skornir voru út í laserskeranum okkar. Liðin í 2. og 3. sæti fengu viðurkenningu. Á myndinni má sjá liðin sem voru í 1. sæti.
Upplestrarkeppnin
Lokahátíð Upplestrarkeppninnar í Reykjavík fór fram í Grafarvogskirkju mánud. 20. mars sl. Tveir nemendur í 7. bekk frá sjö skólum tóku þátt og voru sannarlega allir sigurvegarar í keppninni. Við getum verið stolt af fulltrúum Borgaskóla þeim Guðrúnu Tinnu og Kristjáni sem stóðu sig með prýði. Keppendur lásu valinn texta úr sögunni Víti í Vestmannaeyjum eftir Gunnar Helgason, valin ljóð eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson og að lokum ljóð að eigin vali. Það var ánægjulegt að koma saman í kirkjunni og hlusta á góðan upplestur og tónlistaratriði sem voru í flutningi nemenda úr Tónlistarskóla Grafarvogs. Í dómnefnd sátu Einar Aron Fjalarsson, María Sif Snævarsdóttir og Védís Huldudóttir. Vinningshafar að þessu sinni voru fulltrúar frá Rimaskóla, Húsaskóla og Hamraskóla. Við óskum þeim til hamingju með góðan árangur.
Tölum um klám við börn
3. bekkur fór í Húsdýragarðinn
Á dögunum brá 3. bekkur sér í heimsókn í Húsdýragarðinn í Laugardal. Í garðinum fengum við góðar móttökur og áhugaverða fræðslu um íslensku húsdýrin frá starfsfólki garðsins. Heimsóknin tókst vel í alla staði og vakti refurinn mikla athygli enda bekkurinn nýlega búin að fræðast um hann hér í skólanum. Hér fyrir neðan fylgja nokkrar myndir úr ferðinni.