Menntastefnufréttir

- október 2019

menntastefna.is - Hagnýtur vefur til að vinna að grundvallarþáttum menntastefnunnar

Nú í september fór í loftið vefurinn menntastefna.is sem hefur það að markmiði að styðja við innleiðingu nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar. Vefurinn er hugsaður sem verkfærakista fyrir allt starfsfólk í skóla- og frístundastarfi hjá Reykjavíkurborg þar sem finna má hugmyndir að verkefnum undir fimm áhersluþáttum menntastefnunnar; félagsfærni, heilbrigði, læsi, sköpun og sjálfseflingu.


Einnig eru á vefnum upplýsingar um þróunarsjóð sem hefur að markmiði að styðja við verkefni er falla undir áhersluþætti stefnunnar og gátlistar (sjá nánari í frétt hér neðar) til að greina hvernig innleiðing stefnunnar gengur á hverjum vinnustað.


Menntastefnuvefurinn er hugsaður sem gagnvirkt verkfæri fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi. Þar á að vera hægt er að sækja verkfæri í fagstarfið en einnig miðla góðum hugmyndum eða aðferðum sem gagnast hafa vel. Starfsfólk er þannig hvatt til að senda inn sín „verkfæri“ undir völdum áhersluþáttum í menntastefnunni og láta fylgja með kennsluleiðbeiningar eða ítarefni ef þurfa þykir.

Verkfærakista með um 200 verkfæri

Værkfærakistuna má finna neðst á forsíðu menntastefnuvefsins. Í henni eru nú þegar um 200 verkefni og hugmyndir sem hægt er að nota í skóla- og frístundastarfi. Hún er sett upp með síu þannig að hægt er að velja hvaða grundvallarþáttum stefnunnar verkfærið á að tengjast, hvaða gerð efnis er leitað að (t.d. kveikjur, myndbönd, verkefni) og hver markhópurinn er (t.d. aldursbil barnahópsins). Smellið á myndina hér fyrir neðan til að skoða verkfærakistuna nánar.

Gátlistar sem styðja við grundvallarþætti stefnunnar

Gátlistar eru verkfæri fyrir starfsfólk SFS til að meta að hvaða grundvallarþáttum menntastefnu Reykjavíkurborgar er nú þegar unnið að í skóla- og frístundastarfinu og hvaða þætti þarf að innleiða á næstu árum.


Á menntavefssíðunni er nú hægt að nálgast gátlista í rafrænu fromi með því að setja inn notandanafn og lykilorð sem starfsstaðir fá úthlutað. Starfsstaðir geta notað gátlistana til að meta hvernig þeim gengur að efla grundvallarþættiin fimm þ.e. félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði. Að auki eru á síðunni gátlistar um innra mat og mannauð.Einnig er hægt að nálgast gátlistana á prenthæfu formi á síðunni.


Vinnuumhverfi gátlistanna ætti að vera mörgum kunnugt því þeir eru settir upp í vefkerfinu heilsueflandi.is í góðu samstarfi við Embætti landlæknis sem veitti skóla- og frístundasviði góðfúslegt leyfi til að nota kerfið sem embættið hefur þróað um árabil. Leiðbeiningar um notkun kerfisins verða sendar stjórnendum á næstunni og eins verður boðið upp á vinnustofur fyrir þá sem kjósa að kynnast kerfinu undir handleiðslu.

Starfsþróun - fræðsla á starfsstaði o.fl.

Undir liðnum Starfsþróun á vef menntastefnunnar er hægt að finna fjölmörg tilboð um fræðslu og ráðgjöf sem hægt er að fá inn á starfsstaði á starfsdögum, starfsmannafundum og námskeiðsdögum. Einnig er hægt að óska eftir ráðgjöf í daglegum viðfangsefnum og í tengslum við þróunar- og nýsköpunarverkefni vegna innleiðingar menntastefnu. Þá er boðið upp á námskeið sem haldin eru fyrir ákveðna markhópa í eitt eða fleiri skipti. Einnig eru á Starfsþróunarsíðunni tenglar inn á fjölmörg önnur símenntunartilboð.

Uppspretta - tilboð um fræðslu og vettvangsferðir

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur og Menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkur standa að vefnum Uppspretta. Þarna eru á einum stað aðgengilegar upplýsingar um þau fræðslutilboð sem standa til boða fyrir börn og starfsfólk á starfstíma skóla- og frístundastarfs.

Markmiðið með vefnum er að auðvelda starfsfólki í leikskólum, grunnskólum, frístundamiðstöðvum og skólahljómsveitum að finna upplýsingar um allt það sem þeim stendur til boða fyrir börnin tengt menntun þeirra.Vefurinn Uppspretta, uppspretta.reykjavik.is er í þróun og fleiri stofnanir munu setja inn sín tilboð á næstunni.