Flataskólafréttir

Skólaárið 2022-2023 - 11. ágúst 2022

Kæra skólasamfélag!

Nú er undirbúningur nýs skólaárs kominn í fullan gang hér í skólanum og við gerum fastlega ráð fyrir að nemendur okkar séu orðnir spenntir að taka að nýju til starfa með okkur!

Hér er því komið fyrsta fréttabréf skólaársins en það hefur að venju að geyma ýmsar hagnýtar upplýsingar.

Við erum bjartsýn á komandi skólaár og vonumst til að nú náum við heilu skólaári án sóttvarnartakmarkana og svoleiðis leiðinda. Það eru um 390 nemendur skráðir í skólann í vetur, það er svipað og áætlanir gerðu ráð fyrir en nokkur fækkun frá fyrra skólaári.


Með bestu kveðjum úr skólanum og von um árangursríkt og skemmtilegt skólaár!


Stjórnendur og starfsfólk Flataskóla

Skólasetning

Skólasetning verður þriðjudaginn 23. ágúst. Nemendur mæta í hátíðarsal skólans á eftirfarandi tímum:


 • Kl. 9:00 - 2.-4. bekkur
 • Kl. 10:00 - 5.-7. bekkur


Skólasetningin tekur um 40 mínútur og fara nemendur heim að henni lokinni.
Við biðjum forráðamenn nýrra nemenda í 2.-7. bekk um að fylgja þeim á skólasetninguna og fá stutt samtal við umsjónarkennara og kynningu á skólanum að henni lokinni.


Frístundaheimilið Krakkakot er lokað á skólasetningardaginn.


Forráðamenn nemenda í 1. bekk fá tölvupóst og verða ásamt börnum sínum boðaðir til samtals við umsjónarkennara á skólasetningardaginn.


Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 24. ágúst og þá opnar frístundaheimilið Krakkakot.

Frístundaheimilið Krakkakot

Nemendum í 1.-4. bekk býðst dvöl í frístundaheimilinu Krakkakoti að lokinni kennslu og til kl. 17:00 dag hvern. Forstöðumaður Krakkakots er Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson - gudmundurtho@gardabaer.is

Símanúmer Krakkakots eru 513-3522 og 820-8557


Skráning í dvöl í Krakkakoti fer fram í Þjónustugátt Garðabæjar og mjög mikilvægt er að þeir sem óska eftir dvöl fyrir börn sín í vetur gangi frá umsókn þar sem allra fyrst, þ.e. þeir sem ekki eru búnir að því nú þegar. Einnig er hægt að sækja um beint í gegnum vefinn www.vala.is


Krakkakot opnar fyrsta kennsludag, 24. ágúst, en dagana 15.-22. ágúst er þar sumardvöl fyrir nemendur sem eru að hefja nám í 1. bekk og voru skráðir í sumardvölina. Foreldrar þeirra hafa nú þegar fengið póst með upplýsingum varðandi þá dvöl.

Skólatími nemenda í 1.-7. bekk

Skólinn opnar kl. 7:45 á morgnana og kl. 8:00 er opnað inn í kennslustofur. Skólaliðar og stuðningsfulltrúar eru þá á svæðunum og eru með nemendum þangað til kennsla hefst kl. 8:30. Kennslutími nemenda er sem hér segir

 • 1.-4. bekkur kl. 8:30-13:30
 • 5.-6. bekkur kl. 8:30-14:10
 • 7. bekkur kl. 8:30-14:10/14:50 á mánud-fimmtud. og 13:30 á föstudögum

Breyting á þjónustuaðila í mötuneyti

Garðabær hefur gert samning við fyrirtækið Matartímann sem sér um framleiðslu og framreiðslu á heitum mat fyrir nemendur í hádeginu. Matartíminn er í eigu Sölufélags garðyrkjumanna og sérhæfir sig í þjónustu við mötuneyti, með sérstakri áherslu á leik- og grunnskóla. Á heimasíðu Matartímans, matartiminn.is er gott aðgengi að matseðlum https://matartiminn.is/matsedlar/ ásamt ítarlegum upplýsingum um innihald máltíða, ofnæmisvalda og næringargildi. Þar er einnig að finna ýmsan annan áhugaverðan fróðleik.

Skráning í mat
Opnað verður fyrir skráningu að áskrift 19. ágúst 2022 kl. 13:00 á heimasíðunni matartiminn.is. Gjald fyrir hverja máltíð er 535 krónur eins og var á síðustu önn.

ATH! Skráning fyrir september líkur 25 ágúst.
Ef einhverjar spurningar vakna þá vinsamlega sendið tölvupóst á matartiminn@matartiminn.is

Áskriftarskilmálar
Fyrsta áskriftartímabil er frá upphafi skólaárs út september, eftir það er hvert áskriftartímabil almanaksmánuðurinn að undanskildu síðasta áskriftartímabili sem nær frá 1. maí til loka skólaárs.
Áskriftarsamningurinn er á ábyrgð forráðamanna barnsins og framlengist sjálfkrafa óbreyttur milli mánaða nema tilkynningar berist um annað.
Eftir að barn er komið í mataráskrift þurfa allar óskir um breytingar að berast með tölvupósti á netfangið matartiminn@matartiminn.is fyrir 20. dag mánaðar á undan svo þær taki gildi fyrir komandi mánuð.
Gjalddagi er 1. dagur hvers áskriftarmánaðar og eindagi 5 dögum síðar.
Reikningar teljast samþykktir ef ekki berst athugasemd innan 5 daga frá gjalddaga.
Berist greiðsla ekki innan umsamins greiðslufrest er heimilt að hætta afgreiðslu máltíða.
Mataráskriftin ásamt 390 kr. seðilgjaldi greiðist með greiðsluseðli í heimabanka eða með greiðslukorti.
Heimilt er að hefja áskrift eftir að skólaárið hefst og ef skráning berst fyrir 20. dags mánaðar hefst áskrift 1. næsta mánaðar á eftir.

Umsjónarkennarar skólaársins

Umsjónarkennarar í Flataskóla skólaárið 2022-2023 eru eftirfarandi:


1. bekkur: Sif Bachmann og Svanhvít Guðbjartsdóttir

2. bekkur: Bryndís Stefánsdóttir og Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir

3. bekkur: Andrea Stefánsdóttir, Auður Gunnarsdóttir og Þórdís Þórðardóttir

4. bekkur: Anna Lind Þórðardóttir, Erna Þorleifsdóttir og Rakel Svansdóttir

5. bekkur: Elísabet Blöndal, Hanna Björg Liljudóttir og Margrét Tómasdóttir

6. bekkur: Auður Skúladóttir, Elín Ása Þorsteinsdóttir Erla Björg Káradóttir og Hanna Lóa Friðjónsdóttir

7. bekkur: Andri Marteinsson, Halla Rósenkranz Guðmundsdóttir, Kristín Þorleifsdóttir og Ragna Gunnarsdóttir


Deildarstjórar í 4-5 ára deild eru þær Herdís Jónsdóttir og Kristín Sigurðardóttir.

Gögn fyrir skólann

Nemendur fá öll námsgögn í skólanum, ritföng þar með talin.


Sundkennsla byrjar strax skv. stundaskrá og nemendur þurfa því að eiga sundföt. Fyrstu vikurnar fer íþróttakennsla fram utandyra og því þurfa allir að vera klæddir eftir veðri og þannig að auðvelt sé um hreyfingu.


Ákveðnar reglur gilda um nestismál nemenda í anda lýðheilsu. Mikilvægt er að nemendur borði staðgóðan morgunmat áður en þeir koma í skólann. Í Flataskóla er lögð áhersla á hollt matarræði. Því hafa verið sett fram þau viðmið að börnin hafi ávallt með sér hollt og gott nesti og eru foreldrar beðnir að virða það og senda börnin ekki með annað í skólann. Í morgunhressingu sem er um kl. 10:00 er í boði að koma með ávexti, grænmeti og brauðsneið og með því er drukkið vatn.

Söfnun Unicef í vor

Nemendur okkar og fjölskyldur þeirra stóðu sig sannarlega vel í söfnuninni síðastliðið vor en það söfnuðust 245.963 krónur!

Framlögin munu nýtast UNICEF víðsvegar um heiminn og má sem dæmi nefna að fyrir þessa upphæð er meðal annars hægt að kaupa skóla í kassa sem er bráðabirgðaskóli með námsgögnum fyrir 40 börn. Hann er fullur af stílabókum, blýöntum, skærum, litum og öðru. Þessu gæti líka fylgt leikjakassi sem nýtist á barnvænum svæðum UNICEF um allan heim. Slík svæði eru meðal annars sett upp þar sem átök ríkja og í flóttamannabúðum. Þar geta börn fundið öryggi og gleði á erfiðum tímum, haldið menntun sinni áfram, leikið sér og fengið sálrænan stuðning til að vinna úr áföllum sínum. Fótboltar, sippubönd, sögubækur og önnur leikföng sem nýtast allt að 90 börnum á barnvænum svæðum.


En það er ekki allt, ofan á þetta er hægt að bæta við 1000 skömmtum af bóluefnum gegn mislingum og 1000 skömmtum af bóluefni gegn mænusótt.

Við tökum vatni og næringu sem sjálfgefnum hlut en út í heimi er fólk ekki jafn heppið. 50.000 vatnshreinsitöflur geta hjálpað við að hreinsa 250.000 lítra af vatni og 1250 skammtar af vítamínbættu jarðhnetumauki gera kraftaverk fyrir vannærð börn.

Bestu þakkir frá Unicef fyrir stuðninginn!

Opnunartími skrifstofu

Skrifstofa skólans er opin kl. 7:45-15:00 alla daga vikunnar nema á föstudögum til kl. 14:30

Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is


Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.

Helstu viðburðir framundan:

 • 15. ágúst - sumardvöl verðandi 1. bekkinga í Krakkakoti hefst
 • 15. ágúst - viðtöl við nýnema í leikskóladeild
 • 16. ágúst - aðlögun hefst í leikskóladeild
 • 23. ágúst - skólasetning: 2-4.b kl. 9:00 / 5.-7.b kl. 10:00 / viðtöl hjá 1.b
 • 24. ágúst - kennsla hefst
 • 13.-20. sept - haustfundir árganga - nánar auglýst síðar
 • 27.-30. október - langt helgarfrí hjá nemendum vegna skipulagsdaga - sjá skóladagatal

Heimasíða - starfsáætlun - ársskýrslur

Við minnum á að á heimasíðu skólans er að finna helstu upplýsingar um skólastarfið og bendum við nýjum foreldrum sérstaklega á kynna sér hana: http://flataskoli.is/


Einnig er rétt að geta þess að í starfsáætlun hvers árs eru dregnar fram helstu upplýsingar um skólastarfið. Starfsáætlun 2022-2023 er í vinnslu en plagg síðasta árs stendur enn fyrir sínu varðandi helstu upplýsingar og má nálgast það á slóðinni http://flataskoli.is/skolinn/starfsaaetlun-flataskola/


Loks má minna á að á hverju vori gefur skólinn út ársskýrslu sem hefur að geyma helstu upplýsingar um skólastarfið á liðnu skólaári. Skýrslu síðasta árs má finna á slóðinni:

http://flataskoli.is/skolinn/aaetlanir/arsskyrsla/