Hvalrekinn

5. nóvember 2020

Big picture

Enn að breyttu skólastarfi ...

Ágætu foreldrar,


Þá er fyrsta vikan að baki í hertum sóttvarnaraðgerðum. Það var handagangur í öskjunni hér síðasta mánudag. Þegar kennarar voru á þönum við að undirbúa kennslu komandi viku og vikna, púsla saman dögum, skipta með sér verkum, skipuleggja og horfa fram á veginn eins og hægt er. Annað starfsfólk sá um að taka til grímur, fylla á spritt- og sápubrúsa. Allt hafðist þetta, enda ekki von á öðru með eins einvalalið og er hér í Hvaleyrarskóla.


Ég held að við getum öll verið sammála um að vikan gekk heilt yfir vel fyrir sig. Auðvitað koma hnökrar í upphafi þegar eins harðar aðgerðir fara í gang eins og um síðustu helgi og allir hefðu viljað hafa lengri tíma til undirbúnings. Þessa hnökra sem upp komu höfum við náð að laga þegar leið á vikuna. Strax lögðum við upp með að brjóta skóladaga nemenda upp með íþróttum, hreyfingu og annarri útiveru.


Afmælisár að baki

Síðasta skólaár var 30. starfsár Hvaleyrarskóla og síðasta vor ætluðum við að hafa þemadaga í byrjun apríl og fagna þessum stóra áfanga. Því miður náðist það ekki vegna ástæðna sem allir þekkja. Þá var ákveðið að tengja afmælið við lok vinavikunnar sem búin er að vera undanfarna daga en ... nóg um það. Við ætlum samt að gleðjast.


Lengi hefur okkur í Hvaleyrarskóla vantað skólasöng og oft hefur það borið á góma hvort ekki væri hægt að finna einhvern til að semja söng fyrir Hvaleyrarskóla. Í vor tók hún Guðrún Árný tónmenntakennari sig til og samdi fyrir okkur skólasöng. Hún fékk hann Palla (Pál S. Sigurðsson) skóla- og frístundaliða með sér í lið þegar kom að textagerðinni. Palli var líka einu sinni nemandi við Hvaleyrarskóla fyrir þau ykkar sem ekki vissu. Þau luku þessu verkefni á vordögum. Söngurinn hefur síðan verið sunginn af Sönglist Hvaleyrarskóla og einnig hafa nemendur á samverunum bæði í vor og núna í haust verið að syngja skólasönginn. Alltaf vantaði tilefni til að frumflytja sönginn fyrir sem flesta. Nú getum við bara ekki beðið lengur.

Guðrún Árný bjó núna í haust til myndband við sönginn og það eru nemendur í Sönglistarvali Hvaleyrarskóla sem flytja við undirleik Guðrúnar Árnýjar.


Til hamingju öll með frábæran skóla og fallegan skólasöng. Þá er að smella á myndbandið hér fyrir neðan og njóta flutningsins.


Eigið góða helgi sem er framundan og munum að hlúa hvort að öðru.


Kristinn Guðlaugsson, skólastjóri

Hvaleyrarskóli 30 ára

Skólasöngur Hvaleyrarskóla

Munum öll - að þakka fyrir það.

sem okkur er gefið, sama hvað,

Með jákvæðni og æðruleysi.

Það sem bætir lífið okkar er kurteisi.


- Viðlag -

Við í Hvaleyrarskóla stöndum hönd í hönd

Ekkert mun slíta okkar vinabönd.

saman skínum skært sem kertaljós

því skólinn minn er mitt leiðarljós


-BRÚ -

Við hjálpumst alltaf að

nefndu stund og stað,

þá kem ég með

og stend með þér.


Umhverfið - pössum við vel

Og pössum hvort annað, líka jafn vel.

Erum vafin vinatryggð.

Það sem bætir lífið okkar er ábyrgð


- VIÐLAG -


Bjóðum hjálp, ef eitthvað er að

og tökum vel eftir, hugsum um það

Í amstri dagsins er mörgu að sinna

Það sem bætir lífið okkar er, samvinna.


- VIÐLAG Í KEÐJU


lag : Guðrún Árný texti : Palli ( Páll S. Sigurðsson) og Guðrún Árný

Hvaleyrarskóli er hnetulaus skóli

Þar sem nemandi skólans er með bráðaofnæmi fyrir hnetum er Hvaleyrarskóli hnetulaus skóli og biðjum við foreldra jafnt sem starfsfólk að virða það. Nemendur og starfsfólk mega því ekki koma með hnetur í skólann.

Mikilvægi læsis og móðurmáls.

Hér er hægt að nálgast bæklinga á ýmsum tungumálum um mikilvægi móðurmálsins. Að hafa gott vald á móðurmálinu hjálpar börnum að læra íslensku, þar sem tungumál vinna saman, en er ekki síður mikilvægt til að þroska með einstaklingum öryggi og sterka sjálfsmynd.

https://www.ryerson.ca/mylanguage/brochures/


Hér er bæklingur frá Bókasafni Hafnarfjarðar um mikilvægi lesturs og að skapa notalegar lestrarstundir foreldra og barna. Þessi bæklingur er bæði á íslensku, ensku og pólsku.

https://www.hafnarfjordur.is/media/auglysingar/laesisbaeklingur-isl.pdf

https://www.hafnarfjordur.is/media/fraedsluthjonusta/laesisbaeklingur-ens.pdf

https://www.hafnarfjordur.is/media/fraedsluthjonusta/laesisbaeklingur-pol.pdf

Orð í glugga

Hér kemur frábær hugmynd frá talmeinafræðingi sem heldur úti vefsíðunni Blaðrað á biðstofum. Í vor settu börn bangsa út í glugga en nú er hugmyndin að fólk skrifi orð á blað og setji út í glugga hjá sér. Þá geta fjölskyldur gengið um hverfið og farið í orðaleit rétt eins og farið var í bangsaleit í vor. Þeir sem tala íslensku sem annað mál geta sett orð á sínu tungumáli og jafnvel tekið fram hvaða mál það er, þannig getum við lært hvert af öðru í okkar fjölbreytta samfélagi.


Því langar okkur í Hvaleyrarskóla að hvetja alla til að taka þátt, finna gott orð til að setja út í glugga, passa að skrifa með stóru letri þannig að hægt sé að lesa úr fjarlægð. Í næstu viku munum við hér í skólanum fara í útverunni okkar í leit að orðum til að vinna með. Spennandi verkefni sem við vonum svo sannarlega að sem flestir taki þátt í.

Hér er slóð á verkefnið ef þið viljið skoða það betur:

Skipulagsdagur föstudaginn 13. nóvember


Til foreldra í grunnskólum Hafnarfjarðar.

Það eru sóttvarnaaðgerðir í gangi til 17. nóvember og óljóst hvað tekur við í framhaldinu. Föstudaginn 13. nóvember, eða rétt fyrir lok núverandi sóttvarnaaðgerða, er sameiginlegur starfs-/skipulagsdagur í leik- og grunnskólum Hafnarfjarðar og því ekkert skólastarf hjá nemendum. Fræðsluráð Hafnarfjarðar ákvað á 453. fundi sínum þann 4. nóvember að frístundaheimilin í grunnskólunum yrðu sömuleiðis lokuð þennan dag svo þau taka ekki á móti neinum nemendum þennan dag. Það er gert í þeim tilgangi svo starfsfólk frístundaheimilanna fái næði til samráðs í að undirbúa sig undir frekari breytingar á starfsemi sinni við þessar síbreytilegu aðstæður.

Skrifstofa mennta- og lýðheilsusviðs.

Foreldrafélag Hvaleyrarskóla

Foreldrafélag hefur verið starfandi í Hvaleyrarskóla frá árinu 2003. Aðalfundur foreldrafélagsins er haldinn að hausti. Þar er kosin stjórn félagsins ásamt því að fulltrúar eru kosnir til setu í skólaráði. Á kynningarfundum að hausti eru bekkjartenglar skipaðir fyrir hvern bekk. Bekkjartenglar halda utan um bekkjarskemmtanir í hverjum árgangi. Stjórn foreldrafélagsins stendur fyrir jólaföndri, fræðslufyrirlestrum og vorhátíð. Skólastjóri fundar með stjórn foreldrafélagsins eins oft og þurfa þykir.

Hlutverk foreldrafélags er að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla. Foreldrafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð.


Stjórn skólaárið 2020-2021

Formaður er Guðrún Björg Gunnarsdóttir gudrunbjorggunn@gmail.com. Íris Erlingsdóttir, varaformaður - iriserlings@gmail.com, Guðvarður Ólafsson, ritari - gudvardur@gmail.com, Inga Sigrún Kristinsdóttir, gjaldkeri - ingakrist@simnet.is, Arnar Þór Ásgrímsson, meðstjórnandi - arnarasgrims@gmail.com, Guðni Páll Sigurðarson, meðstjórnandi - gudnipsi@gmail.com, Dagný Rós Stefánsdóttir, meðstjórnandi - dagnyros@gmail.com

Hér má sjá glærur frá aðalfundinum.

Skólaráð Hvaleyrarskóla

Samkvæmt grunnskólalögum starfar skólaráð við hvern grunnskóla. Skólaráð er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Í því sitja fulltrúar kennara, fulltrúi annarra starfsmanna, fulltrúar foreldra og nemenda og fulltrúi grenndarsamfélags. Skólastjóri stýrir starfi ráðsins og boðar til funda. Meðal þess sem skólaráð fjallar um eru skólanámskrá og starfsáætlun skóla, skóladagatal, innra mat skólans, forvarnaráætlun, aðbúnað nemenda og starfsmanna og viðhald húsnæðis svo nokkuð sé nefnt. Skólaráð fundar að jafnaði sex sinnum á skólaárinu og eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólastjóra eða aðra skólaráðsfulltrúa óski þeir eftir að tiltekin málefni verði tekin til umfjöllunar í skólaráði. Fundaáætlun og fundagerðir ráðsins er að finna á heimasíðu skólans.

Fulltrúar í skólaráði Hvaleyrarskóla skólaárið 2020 – 2021:

 • Kristinn Guðlausson, skólastjóri
 • Arnar Þór Ásgrímsson, fulltrúi foreldra
 • Guðvarður Ólafsson, fulltrúi foreldra
 • Markús Már Hilmarsson, fulltrúi nemenda
 • Dröfn Pétursdóttir, fulltrúi nemenda
 • Hulda Sólveig Jóhannsdóttir, fulltrúi kennara
 • Wendy Richards, fulltrúi kennara
 • Agnes Ægisdóttir, fulltrúi annarra starfsmanna
 • Magnús Gunnarsson, fulltrúi grenndarsamfélags

 • Sigrún Einarsdóttir aðstoðarskólastjóri, situr fundi ráðsins og ritar fundargerðir þess.

Hrekkavaka í Verinu

Föstudagskvöldið 30. október var haldið hrekkjavökukvöld í félagsmiðstöðinni Verinu. Nemendaráð sá um að gera draughús í enda skólans. Ekki er hægt að segja annað en mikill metnaður hafi verið lagður í draugahúsið. Hægt er að fara ferð í gegnum draugahúsið í myndbandinu hér fyrir neðan, ekki láta þig bregða.

Diskótek var einnig um kvöldið þar sem hinar ýmsu verður voru á kreiki.

Draugahús Versins 2020

Samkomutakmarkanir og börn - þrengjum tengslanetið

Skólar og íþróttafélög skipuleggja sitt fyrirkomulag til að fara eftir fyrirmælum yfirvalda um takmarkanir á skólastarfi og samkomum, þ.m.t. fjöldatakmörkunum, rýmum og grímunotkun. Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi á sama tíma úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn þessum ráðstöfunum.


Gott er að hafa eftirfarandi í huga:


 • Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla.
 • Hafi börnin þroska til að fara eftir leiðbeiningum sem snúa að minni snertingu við vini er ekki útilokað að þau geti hist í leikjum. Leikirnir mega ekki fela í sér beina snertingu, notkun á sameiginlegum leikföngum eða búnaði sem snertur er með berum höndum.
 • Börn og ungmenni ættu ávallt að þvo sér vel um hendur bæði áður en þau hitta félaga sína og eftir að þau koma heim.
 • Fjölskyldur ættu að hafa í huga að ef börnin umgangast mikið vini eða frændsystkini úr öðrum skólum eða skólahópum þá verður til tenging milli hópa sem annars væru aðskildir. Slíkt ætti að forðast eins og kostur er.
 • Fjölskyldur eru hvattar til að nýta sér tæknina til að halda góðum tengslum við ástvini sem eru í áhættuhópum vegna COVID-19 sýkinga, eldra fólk og fólk með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma.
 • Einnig væri hægt að nota tækifærið að kenna börnunum að skrifa sendibréf og æfa í leiðinni skrift, stafsetningu, virkja ímyndunaraflið og hugsa í lausnum þegar kemur að samskiptum við ástvini okkar.


Varðandi heimili með börn þar sem sumir eru í sóttkví en aðrir ekki:


 • Ef börnin hafa ekki þroska eða getu til að virða þær ráðstafanir sem eru forsenda þess að hluti heimilisfólks geti verið í sóttkví, þarf allt heimilið að fara í sóttkví eða þeir sem ekki eru í sóttkví að fara annað um leið og sóttkví kemur til. Mögulega gæti annað foreldrið verið í sóttkví með barni en hitt foreldrið haldið fjarlægð. Foreldri með barni í sóttkví þarf ekki að vera skráð í sóttkví og þarf ekki að fara í skimun til að stytta sóttkví í 7 daga úr 14 dögum. Það er nóg að barnið sé skráð í sóttkví og fari í sýnatöku. Þetta á t.d. við leikskólabörn í sóttkví.
 • Börn sem hafa þroska og getu til að sinna eigin hreinlæti (t.d. sér salerni) og halda viðeigandi fjarlægð við foreldra (eða aðra) sem eru í sóttkví og eins við skólafélaga geta áfram sinnt námi í skóla. T.d. ef foreldri er í sóttkví gæti leikskólabarn þurft að vera líka í sóttkví en eldra systkini ekki.
 • Foreldrar stálpaðra barna í sóttkví eftir útsetningu í skóla eða tómstundum sem geta haldið viðeigandi fjarlægð frá börnunum meðan á sóttkví stendur geta sinnt áfram vinnu á vinnustað ef fjarvinna er ekki möguleg.

Skáknetmót fyrir nemendur í Hafnafirði

Hafnarfjarðarbær vill bjóða öllum grunnskólabörnum á netskákmót alla laugardaga klukkan 11:00. Við hvetjum ykkur til að benda börnum ykkar á að taka þátt á skákmótunum.

Hér eru skrefin sem þarf að fara í gegnum til þess að taka þátt (mjög einfalt):


 1. Búa til aðgang á www.chess.com (frítt)
 2. Gerast meðlimur í hópnum “Hafnarfjörður-skólar”: https://www.chess.com/club/hafnarfjordur-skolar
 3. Skrá sig á mótin sem hægt er að gera allt að 60 mínútum áður en þau hefjast.
  Mótin verða einnig auglýst á forsíðu hópsins inná chess.com.


Alla laugardaga 11:00-12:00

https://www.chess.com/live#r=529359 (Tengill gildir fyrir mótið þann 17.október, síðan verða tenglar uppfærðir inná á forsíðu Hafnarfjörður-skólar á chess.com vikulega.)


Við mælum með að þið notið borðtölvu/fartölvu, því Chess.com appið virkar ekki á mótum.

Mennta- og lýðheilsusvið Hafnarfjarðarbæjar

Reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar

Við minnum á samræmdar reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar en kynning á þeim er í kynningarglærum árganganna. Reglur og viðbragðsáætlun eru samræmdar þannig að ekki sé mismunun milli skóla bæjarins.


Starfsfólk skólanna í Hafnarfirði hefur áhyggjur af minnkandi skólasókn og fjölgun nemenda sem teljast falla undir skilgreiningar um skólaforðun. Í reynd eru allar fjarvistir frá skóla óheppilegar af ýmsum ástæðum og því er ekki gerður greinarmunur á fjarvistardögum þótt greinarmunur sé gerður á tilefni fjarvista. Eftir því sem skólasókn fer minnkandi taka við aukin viðbrögð af hálfu skóla til að koma sem lengst í veg fyrir að námsárangur nemenda versni vegna slakrar skólasóknar og vanlíðan aukist.

Meginefni reglanna er:


1. AÐ VIRÐING SÉ BORIN FYRIR SKÓLASÓKN

Allt skólasamfélagið (forsjáraðilar, nemendur, starfsfólk skóla) verður að bera virðingu fyrir mikilvægi skólasóknar alla 180 skóladaga nemenda í grunnskóla á hverju skólaári.


2. AÐ SKÓLA BERI ENGIN SKYLDA TIL SÉRSTUÐNINGS VEGNA LEYFA

Starfsfólk skóla ber ekki skylda til að þjónusta einstaka nemendur sérstaklega vegna fjarvista frá skóla, hverju nafni sem þær nefnast, og skulu forsjáraðilar ekki óska eftir slíkri þjónustu (t.d. að kennarar gefi út sérstaka heimavinnu eða skilaboð þegar um er að ræða persónuleg leyfi fjölskyldna).


3. AÐ SKRÁÐ SÉ RAUNSKÓLAMÆTING Í LOK SKÓLAÁRS Á VITNISBURÐARBLAÐ NEMANDA

Allar fjarvistir, hverju nafni sem þær nefnast, búa til eina raunmætingareinkunn sem gefin er á vitnisburðarskírteini nemenda í lok skólaárs, sem prósentuhlutfall af skólasókn yfir skólaárið.


4. AÐ GEFIN SÉ ÁRLEG LOKAEINKUNN (A-D) VEGNA SKÓLASÓKNAR Á VITNISBURÐARBLAÐ

Ástundun sem snýr að fjarvistum, seinkomum og brottrekstri úr kennslustundum mynda á einu skólaári skólasóknareinkunn sem hver nemandi fær á matskvarðanum A, B+, B, C+, C og D í samræmi við kvarða (sjá fylgiskjal póstsins).


5. AÐ VIÐBRÖGÐ SKÓLA OG BARNAVERNDAR VIÐ MINNKANDI SKÓLASÓKN SÉU SAMHÆFÐ

Þótt forsjáraðilar hafi víðtækar heimildir til að tilkynna veikindi og leyfi frá skóla munu skólar bregðast við öllu slíku sem „fjarvistum“ óháð tilefni, í samræmi við reglur. Allar fjarvistir frá skóla eru óheppilegar og miklar fjarvistir (umfram 10% kennslutímans eða 18 skóladaga á skólaári) geta hamlað námsárangri barna. Það er skylda nemenda að mæta í skóla nema að löggild forföll hamli. Umræddar reglur gilda um alla grunnskóla Hafnarfjarðar jafnt og færast með nemendum flytji þeir á milli skóla innan Hafnarfjarðar á skólaárinu.

Bekkjartenglar geta sótt um styrk fyrir viðburðum

Foreldrafélag Hvaleyraskóla hefur ákveðið að styrkja bekkjatengla fyrsta til fimmta bekkjar um hámark 5.000 kr. á önn til þess að gera eitthvað skemmtilegt með bekkjunum. Fyrirkomulagið er þannig kvittanir fyrir útlögðum kostnaði auk samantektar á heildarkostnaði er send á póstfang foreldrafélagsins (foreldrafelag@hvaleyrarskoli.is). Þar sem koma þarf fram nafn bekkjar og tilefni (hvað var gert með bekkjunum) og nafn, kennitala og bankaupplýsingar bekkjatengils. Gefum okkur um viku til að endurgreiða útlagðan kostnað.

Foreldrarölt

Foreldraröltið fer þannig fram að foreldrar mæta við Hvaleyrarskóla kl. 21:45 á föstudagskvöldi.


Rölt er um hverfi Hvaleyrarskóla og fylgst með hópamyndun barna og unglinga. Bekkjarfulltrúar sjá síðan um að senda línu um hvernig röltið gekk á netfangið foreldrafelag@hvaleyrarskoli.is. Ef þörf er á, röltum við líka á laugardögum í samráði við forvarnarfulltrúa og lögreglu en það tilkynnist þá sérstaklega.


Hér má sjá skipulag foreldrarölts veturinn 2020-2021.

KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA

Hvalrekinn


Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim

Kl. 7:45 - 14:00 fösFréttabréf Hvaleyrarskóla. Sent á foreldra nemenda skólans og skólasamfélagið.

Skólasöngur Hvaleyrarskóla

aæflksa æfslajk