Fréttabréf Engidalsskóla okt. 2022

Ábyrgð - Virðing - Vellíðan

Fréttabréf Engidalsskóla

Kæru foreldrar/forsjáraðilar,


Skólastarf í Engidalsskóla er allt komið í fastar skorður og þó okkur finnist skólaárið rétt að byrja segir dagatalið að komið sé fram í lok október og vetrarfrí handan við hornið.


Við fögnum því að ágætlega hafi gengið að manna í þær stöður frístundaheimilisins sem upp á vantaði og verðum vonandi fullmönnuð mjög fljótlega. Alltaf er þó hreyfing á fólki og vitum við um tvo aðila sem fara fljótlega í fæðingarorlof og þau skörð þarf að fylla.


Skólar og skólastarf hafa fengið töluvert pláss í umræðunni í samfélaginu, í fjölmiðlum, á kaffistofum og heimilum fólks. Við fögnum því að fá umræðu um starfið í skólum og sér í lagi um líðan nemenda. Fréttir af hryllilegu einelti slær auðvitað alla og mikilvægt að allt samfélagið taki sig saman og fari yfir það með börnum hvað er í lagi og hvað ekki. Við höfum rætt þessi mál hér í skólanum eins og hæfir aldri og þroska barna, 7. bekk var sýndur hluti úr Kastljós þætti í síðustu viku en í yngri bekkjum eru bekkjarfundir og umræður um samskipti. Við nýtum bekkjarsáttmálana til að rifja upp og leiðbeina hvernig hegðun er æskileg. Mikilvægast af öllu er að börnin hugsi hvernig manneskja þau vilja vera og hvernig þau vilja láta muna eftir sér. Í þessari umræðu hafa samfélagsmiðlar töluvert komið við sögu og það væri dásamlegt ef engin börn undir 13 ára aldri væru á þeim, þá myndum við saman ná töluverðum árangri. Spurning hvort við getum sameinumst um að engin börn í Engidalsskóla séu á samskiptamiðlum, þessu ráða foreldrar og með góðri samstöðu er allt hægt.


Læsi og leshraði hefur líka verið mikið í umræðunni og það er líka mjög mikilvægt umræðuefni þegar kemur að námi barna. Í lestrarnámi barna þarf að huga að mörgum þáttum, framsögn, skilning og umskráningu sem dæmi og eru lesfimiprófin einmitt notuð til að fylgjast með hversu góða tækni nemandi hefur tileinkað sér í umskráningu. Í grein Rannveigar Oddsdóttur á Skólaþráðum er farið vel yfir það hversu hratt er nógu hratt þegar kemur að leshraða, hægt er að nálgast greinina hér. Við í Engidalnum erum svo heppin að eiga mikið af efnilegu íþrótta- og tónlistarfólki sem skilur vel samlíkingu Rannveigar í niðurlagi greinarinnar: ,,Líkja má lestrarhraða við þol fótboltamanns. Góðir fótboltamenn hafa gott þol og að einhverju marki fylgist það að að því betri sem fótboltamaðurinn er því betra er þolið. Mat á þoli dugir hins vegar ekki eitt og sér til að skera úr um það hvort einstaklingur er góður fótboltamaður og einhliða þolæfingar eru ekki skilvirkasta leiðin til að þjálfa upp góða fótboltamenn. Það sama á við um læsi. Góður lestrarhraði er ein af undirstöðum læsis en það þarf fleira til að tryggja gott læsi." Við munum halda áfram að setja áherslu á lestur í allri sinni mynd, æfa þarf hraða heima en foreldrar þurfa líka að spyrja út úr þeim texta sem börnin eru að lesa. Yngri börnin læra og skrifa ný orð sem þau lesa því öll æfing skapar meistara.


Mikilvægar dagsetningar framundan:


Vetrarfrí er dagana 24.- og 25. október.

Foreldrasamráð verður miðvikudaginn 2. nóvember.

Skipulagsdagur er 14. nóvember.


Þá viljum við vekja athygli á viðburðinum Sterkari út í lífið sem haldin verður í Bæjarbíó þriðjudaginn 25. október kl: 20:00 - 22:00


Með bestu kveðju stjórnendur Engidalsskóla.

Kosið í nemendaráð Engidalsskóla

Nemendur í miðdeild nýttu kosningarétt sinn við val á fulltrúum í nemenda- og skólaráð. Fjölmargir nemendur gáfu kost á sér og mjótt var á munum. Við fögnum glæsilegum fulltrúum og erum viss um að þau slá ekki slöku við heldur láta verkin tala.


Þeir sem skipa nemendaráð eru:


7. bekkur

Arnór Jökulsson

Ingvar Orri Þormar

Karítas Ýr Ingimundardóttir

Ragnheiður Rós Benediktsdóttir6. bekkur

Freyja Rún Pálmadóttir

Hrafn Sævarsson5. bekkur

Björn Hlynur Brynleifsson

Sóley HjaltadóttirÞeir sem skipa skólaráð eru:


Rakel Traustadóttir

Stefnir Hugason

Læsi - Niðurstöður lesfimiprófa í september

Árangur nemenda á lesfimiprófum í september var mismunandi eftir árgöngum. Þrír árgangar vorum yfir landsmeðaltali, einn á landsmeðaltali og þrír örlítið undir landsmeðaltali eins og sjá má á myndum hér fyrir neðan.

Við höldum áfram að leggja áherslu á þætti tengda læsi og lestrarþjálfun. Eins og fram kom í síðasta fréttabréfi þá leggjum við áherslu á lesskilning og hefur sú vinna jafnframt áhrif á leshraða.

Umhverfisráð nemenda.

Hér má sjá fulltrúa nemenda í Grænfánaráði. Þau ræddu um umhverfismál í Engidalsskóla og vilja byrja á því að bæta útlit skólalóðar. Þau nefndu að stundum væru glerbrot á skólalóðinni og annað tilfallandi rusl. Þau ætla að leggja til þess að bekkir fari út að tína rusl á skólalóðinni og nefndu að það væri gott að fá ruslafötu á skólalóðina. Þannig væri hægt að henda rusli á kvöldin í tunnuna. Þau sögðu að allir væru byrjaðir að passa upp á að minnka umbúðanotkun og henda ekki umbúðum í skólanum heldur taka aftur með heim. Einnig kom sú hugmynd upp að efla til keppni milli árganga til að sporna við matarsóun.

Perluferð 6. bekkjar

6. bekkur lagði leið sína í Perluna í byrjun október þar sem nemendur fræddust um líf í fersku vatni og um líffræðilega fjölbreytni.

Uppeldi til ábyrgðar - skýr mörk

Innleiðing á Uppeldi til ábyrgðar heldur áfram í Engidalsskóla og höfum við reynt að upplýsa ykkur reglulega um gang mála. Í skólanum eru ekki eigninlegar skólareglur heldur höfum við skýr mörk og ef farið er yfir þau hringir skólastjórnandi í foreldra og í framhaldi er fundað með foreldrum og barni og fundin lausn á því hvað má betur fara.

Listaverk eftir nemendur

Big picture

Holt og gott nesti fyrir hrausta og kraftmikla krakka

Big picture