Tíðindi frá Hólabrekkuskóla

31. mars 2023

Á döfinni

Páskafrí

Páskafrí er í skólanum dagana 3. - 10. apríl. Kennsla hefst aftur samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 11. apríl.


Barnamenningarhátíð 18. - 23. apríl

Nemendur skólans munu sækja ýmsa viðburði á Barnamenningarhátíð þessa daga. Ýmist í Hörpu eða á öðrum stöðum. Nánar má lesa um hátíðina hér.

Fréttir af húsnæðismálum

Eftir mikið samstarf við Reykjavíkurborg eru komin drög að aðgerðaáætlun varðandi framkvæmdir í skólanum okkar.


Við erum með fjögur hús sem byggð voru á mismunandi tímum og ákveðið hefur verið eftir úttektir á vegum borgarinnar að fara í framkvæmdir á öllum húsunum en ekki öllum í einu.


Skipulagið í dag:


  • Hús 1 – Unglingadeild og 6. og 7. bekkur
  • Hús 2 – Skrifstofur, matsalur, Álfheimar o.fl.
  • Hús 3 – 5. bekkur, myndmennt, smíðastofa, Snillismiðja o.fl.
  • Hús 4 – 1. - 4. bekkur


Ákveðið hefur verið að byrja á framkvæmdum í húsi 3 og 4 í sumar þar sem 1. – 5. bekkur er til húsa og vegna þess mun 1. – 5. bekkur færast yfir í hús 1 þar sem 6. - 10. bekkur er núna. Áætlað er að þessar framkvæmdir verði allan næsta vetur.


Við erum búin að fá húsnæði Korpuskóla í Grafarvogi undir skólastarfið hjá okkur á meðan á framkvæmdum stendur. Næsta vetur mun 6. – 10. bekkur færast yfir í Korpuskóla og fara nemendur þangað í rútum frá Hólabrekkuskóla á morgnana og aftur til baka í lok dags.


Mótvægisaðgerðir hafa verið í gangi í þeim húsum sem ekki fara strax í framkvæmd s.s. í húsi 2 þar sem Álfheimar eru og í húsi 1 í rýmum hjá 6. og 7. bekk. Þær framkvæmdir ganga vel og eru á áætlun. Í sumar verður lokið við framkvæmdir í Álfheimum en á meðan á þeim framkvæmdum stendur verða börnin í húsi 1.


Frekari upplýsingar koma til ykkar eftir páska þegar búið verður að fastsetja ýmsa þætti sem lúta að þessum breytingum. Margt þarf að skoða og útfæra til að allt gangi sem best fyrir sig.


Við í Hólabrekkuskóla horfum á komandi tíma með opnum hug og sjáum marga möguleika og ný tækifæri í þessum breytingum. Mikilvægast er að börnin upplifi breytingarnar á jákvæðan hátt – sem spennandi tækifæri. Eldri börnin eru að fara í nýlegan og vel útbúinn skóla á meðan á framkvæmdum stendur, sem er kostur. Og það besta er að Hólabrekkuskóli verður eins og nýr eftir allar framkvæmdirnar.

Innritun í skólahljómsveitir 2023 - 2024

Tekið er á móti umsóknum í skólahljómsveitirnar fjórar í Reykjavík frá og með föstudeginum
31. mars, kl.09.00.


Nánari upplýsingar má finna hér

Skólatengsl

Skólatengslaverkefnið var þróað af lausnateymi Burrillville High School í Burrillville í Rhode Island ríki í Bandaríkjunum sem heildstæð skimun fyrir félags- og tilfinningavanda meðal nemenda. Upplýsingum um tengsl nemenda innbyrðis og við kennara og annað starfsfólk skólans er safnað til að meta stöðu og líðan nemenda og til að finna þá nemendur sem eru í áhættuhópi m.a. hvað varðar námsástundun, félagstengsl og líðan. Góð tengsl eru talin forsenda námsárangurs á efri stigum og grundvöllur að styðjandi og jákvæðum skólabrag. Í apríl verður lögð fyrir skimun í 6. og 8. bekk.

Myndir frá þemaviku

Við viljum þakka ykkur foreldrum kærlega fyrir komuna til okkar í Hólabrekkuskóla í gær. Einstaklega gaman að sjá hve margir sáu sér fært um að koma og við vonum að þið hafið verið glöð með það sem þið sáuð. Hér má sjá myndir úr heimsókninni og af þemadögunum.

Hólabrekkuskóli

Tíðindi frá Hólabrekkuskóla,

tekin saman af stjórnendum skólans


Lovísa Guðrún Ólafsdóttir, skólastjóri

Arnór Heiðarsson, aðstoðarskólastjóri

Heiða Berta Guðmundsdóttir, deildarstjóri eldra stigs

Hjördís Þórðardóttir, deildarstjóri yngra stigs