Fréttabréf Garðaskóla

Ágúst 2017 - 41. árgangur - 1. tölublað

Framþróun í skólastarfinu

Kæru nemendur og forráðamenn


Velkomin til samstarfs á nýju skólaári. Í þessu fyrsta fréttabréfi ársins segjum við stuttar fréttir af mikilvægum þáttum í starfi Garðaskóla. Það er von okkar að sem flestir líti yfir þessar greinar til að læra um og rifja upp verkferla í skólanum.


Nemendur komu jákvæðir til starfs í fyrstu skólaviku og hið sama má segja um kennara sem komu til starfa rúmri viku fyrr. Margir kennarar nýttu gott veðurfar fyrstu dagana og færðu kennsluna út á skólalóð og nágrenni skólans. Innan veggja skólans standa enn yfir framkvæmdir við byggingu upplýsingavers. Afar spennandi verður að flytja starfsemi bókasafns og tölvuvera þangað inn í september. Upplýsingaverið mun gegna lykil hlutverki í að efla lestrarmenningu skólans. Einnig verður það miðstöð fyrir gróskumikið starf skólans á sviði upplýsingatækni þar sem sérstök áhersla er lögð á að mennta unglinga til ábyrgrar hegðunar á netinu.


Í fyrstu skólavikunni komu því miður upp þjófnaðarmál innan skólans. Slík mál eru litin mjög alvarlegum augum enda um verulegan trúnaðarbrest að ræða þegar nemandi tekur eigur skólafélaga ófrjálsri hendi. Alvarleg afbrot eru tilkynnt lögreglu og/eða barnaverndarnefnd. Við bendum öllum nemendum á að gæta vel að eigum sínum á skólatíma, t.d. með því að geyma verðmæti heima eða í læsta skápnum sínum í skólanum.


Í sumar var samningi skólans við Námfús sagt upp og í staðinn tekið upp samstarf við Advania um að nýta Innu sem samskiptakerfi heimila og skóla. Inna byggir á traustum grunni en hún hefur um árabil verið nýtt í flestum framhaldsskólum landsins. Advania tryggir örugga vistun þeirra viðkvæmu upplýsinga sem námsumsjónarkerfi geymir.


Starf skólans verður áfram í mikilli þróun. Nýtt og kraftmikið starfsfólk hefur bæst í hópinn, nemendum hefur fjölgað verulega frá síðasta ári, og mikilvæg þróunarverkefni verða í gangi í vetur. Með aukinni áherslu á leiðbeinandi námsmat er ekki lengur ástæða til að skipta skólaárinu í annir. Nemendur munu fá upplýsingar um stöðu sína í náminu jafnóðum og þeir ljúka verkþáttum í hverri námsgrein. Ekki er lengur ástæða til að halda sérstaka prófadaga í desember því mat á námsframvindu fer fram allt skólaárið.


Það er von okkar, starfsmanna Garðaskóla, að nemendur og forráðamenn finni fyrir jákvæðri framþróun í starfi skólans og taki virkan þátt í að gera góðan skóla enn betri.


Með samstarfskveðju,

Brynhildur Sigurðardóttir, skólastjóri Garðaskóla

Big image

Námskynningar Garðaskóla 6. september

Miðvikudaginn 6. september munu kennarar Garðaskóla taka á móti forráðamönnum á sal skólans á námskynningu:

  • 8. bekkur: Forráðamenn mæta á sal kl. 8.10 og hafa rúman tíma til að hitta kennara skólans.
  • 9. bekkur: Forráðamenn mæta í umsjónarstofur kl. 8.10 og hitta síðan aðra kennara á sal.
  • 10. bekkur: Forráðamenn mæta í umsjónarstofur kl. 8.30 og hitta síðan aðra kennara á sal.


Boðið verður upp á kynningar á skyldunámsgreinum, námsefni sýnt og hægt að skoða námsáætlanir skólaársins 2017-2018. Einnig geta gestir skoðað vinnuaðstöðu nemenda í list- og verknámi. Áhersla er lögð á skyldunámsgreinar en valgreinar verða nánar kynntar eftir áramótin.


Námsáætlanir verða aðgengilegar á Innu og heimasíðu Garðaskóla snemma í september. Áætlanirnar gefa upplýsingar um verkefni, vinnulotur, leiðsögn og námsmat sem nemendum er gefið í námsgreininni. Námsáætlanir eru alltaf birtar með fyrirvara um breytingar, enda er starfið mótað í samráði kennara og nemenda.

Samskipti og skólaandi

Kjarninn í skólabrag Garðaskóla birtist í gildum skólans sem eru: Frelsi - Ábyrgð - Vellíðan - Árangur.

Jafnvægi milli frelsis og ábyrgðar er forsenda þess að nemendum líði vel og nái góðum árangri í námi og öðru starfi skólans.


Á grunni þessara gilda byggjum við þau viðhorf og vinnubrögð sem einkenna daglegt starf í skólanum. Áhersla er lögð á jákvæð og uppbyggileg samskipti. Við horfumst í augu við að öll erum við mannleg og getum gert mistök. Þegar það gerist er mikilvægt að hver einstaklingur beri ábyrgð á athöfnum sínum og fái tækifæri til að leiðrétta mistökin.


Á vefnum Samskipti og skólaandi má finna skólareglur, upplýsingar um Uppbyggingarstefnuna og fleira sem tengist þeim viðhorfum og vinnubrögðum sem lögð eru til grundvallar skólabrag í Garðaskóla. Nemendur og foreldrar eru hvattir til að skoða þessar síður vel.

Big image

Inna

Garðaskóli hefur fært sig yfir í námsumsjónarkerfið Innu (www.inna.is) en þar geta forráðamenn og nemendur m.a. nálgast upplýsingar um daglegt skólastarf, verkefni og próf og samskipti við kennara. Að hluta til er um nýtt kerfi að ræða og biðjum við nemendur og forráðamenn að beina öllum athugasemdum til umsjónarkennara, sem koma þeim áfram til umsjónarmanns kerfisins.


Nemendur munu í flestum tilvikum að skrá sig inn á Innu með lykilorði en aðstandendur geta skráð sig inn með Íslykli eða rafrænum skilríkjum. Þó er einnig hægt að óska eftir lykilorði og sendist það þá á skráð netfang viðkomandi í Innu. Ef lykilorð hefur af einhverjum ástæðum ekki borist skal hafa samband við Hildi Rudolfdóttur, kennsluráðgjafa (hildurr@gardaskoli.is) með upplýsingum um fullt nafn og netfang (sem og nafn og bekk nemanda, ef um aðstandanda er að ræða).


Við minnum á að mikilvægt er að fara yfir tengiliðaupplýsingar í Innu, svo sem símanúmer, heimilisfang og netföng aðstandenda. Skráðir aðstandendur geta breytt og bætt við upplýsingum með því að fara í „stillingar“.

Ástundun og skólasókn - lykill að góðum árangri

Góð skólasókn er forsenda þess að nemendum líði vel í skóla og nái að stunda námið eftir bestu getu. Reglur skólans um skólasókn og ástundun hefur verið breytt til að auka áhersluna á viðveru nemenda og skerpa á vinnubrögðum þegar út af bregður varðandi mætingu. Ekki eru gefnir punktar sem draga niður mætingaeinkunn. Fagkennarar fylgjast með og skrá viðveru og ástundun í hverri kennslustund. Öll fjarvera frá skóla lækkar viðveruhlutfall (%) nemenda. Ef lögmætar skýringar liggja að baki fjarverunni þá telst hún ekki til lækkunar á skólasóknareinkunn að vori.


Gengið er út frá því að nemendur mæti stundvíslega í allar kennslustundir. Forráðamenn bera ábyrgð á að tilkynna skóla um veikindi og aðra óhjákvæmilega fjarveru með því að skrá beint í Innu eða hafa samband við skrifstofu skólans. Leyfi ber alltaf að sækja um fyrirfram. Leyfi sem nemur 1-2 dögum eru afgreidd á skrifstofu skólans en lengri leyfi þarf að sækja um til aðstoðarskólastjóra á eyðublaði á vef skólans.


Nánari upplýsingar um vinnuferla skólans má lesa á vefnum.

Lestur er mikilvægur alla ævi

Yndislestur er daglega í stundatöflu allra nemenda, kl. 10.25-10.45. Áhersla er lögð á að allir nemendur lesi bækur sér til ánægju því það eykur orðaforða og eflir lesskilning - sem síðan skilar sér í betri námstækni í öllum bóklegum greinum.


Við hvetjum forráðamenn til að vera góðar fyrirmyndir og lesa heima. Fylgist með því hvað unglingurinn ykkar er að lesa og spjallið um það sem lesið er.

Nemendur þurfa að huga vel að eigum sínum

Allir nemendur Garðaskóla hafa læstan skáp til afnota sem nýttur er undir yfirhafnir, skó og önnur verðmæti. Skólinn getur ekki ábyrgst verðmæti sem hverfa af göngum skólans og því er mikilvægt að hver nemandi gæti vel að eigum sínum. Í íþróttahúsinu í Ásgarði eru læsanleg hólf þar sem geyma má veski og síma og hvetjum við nemendur til að nýta þá.


Starfsmenn skólans aðstoða nemendur við leit að týndum munum eins og kostur er. Nemendur geta leitað til skólaliða og ritara til að nálgast óskilamuni. Skólastjóri kannar mál í eftirlitskerfi skólans þegar ástæða er til.

Kæru foreldrar og forráðamenn

Enn er að hefjast nýtt skólaár, og foreldrafélagið hlakkar til að takast á við verkefni vetrarins með ykkur. Við höfum reynt að leggja áherslu á að styðja við og hvetja til samstarfs og samvinnu milli foreldra, enda sýna rannsóknir fram á að virkni foreldra í samstarfi við skólann og aðra foreldra hefur forvarnargildi og stuðlar að góðum námsárangri barnanna. Og það er ekki nóg með að virkni foreldra hafi áhrif á þeirra eigin börn, heldur aukast jákvæð áhrif á alla nemendur eftir því sem fleiri eru virkir í foreldrastarfi. Það er því til mikils að vinna að byggja upp öflugt foreldrasamfélag.


Stjórn foreldrafélagsins vinnur að nokkrum föstum verkefnum yfir veturinn, og er sá verkefnalisti smátt og smátt að byggjast upp. Við tökum öllum nýjum hugmyndum fagnandi og viljum gjarnan fá sem flesta til liðs við okkur. Börnin stoppa stutt við í skólanum, og eins og gefur að skilja gildir yfirleitt það sama um foreldra í stjórn félagsins. Það er því sérstaklega mikilvægt fyrir okkur að fá foreldra úr 8. bekk inn í stjórnina, en foreldrar úr öðrum árgöngum eru líka alltaf velkomnir í hópinn. Seta í stjórn foreldrafélagsins er mjög skemmtileg, gefandi og fræðandi leið til að vera virkir þátttakendur í nærumhverfi barnanna.


Aðalfundur félagsins verður haldinn í Garðaskóla þriðjudaginn 19. september klukkan 20:30. Þar gefst tækifæri til að taka þátt í starfinu, fræðast meira um starfsemina, og hitta aðra foreldra. Lára G. Sigurðardóttir, læknir, doktor í lýðheilsuvísindum og foreldri í skólanum, kemur á fundinn og spjallar við okkur um þær nýju áskoranir sem mæta okkur við að ala upp hrausta unglinga og takast á við kvíða og svefnleysi, sem eru þekkt vandamál hjá unglingum. Við hvetjum því alla til að koma og velta þessum mikilvægu málum fyrir sér með okkur.


Að lokum minnum við á facebook síðuna, Foreldrafélag Garðaskóla - https://www.facebook.com/foreldrafelag.gardaskola. Smellið endilega á “like” á síðunni til að fá fréttir af því sem er að gerast í félaginu.


Kær kveðja frá stjórn Foreldrafélags Garðaskóla

Garðalundur


Garðalundur heldur uppi félagslífi nemenda í Garðaskóla og samstarf er á milli skólans og félagsmiðstöðvarinnar. Dagskrá félagsmiðstöðvarinnar hefst í september og er auglýst á Snapchat (gardalundarsnap) og vefsíðu Garðalundar. Skipulag dagskrár er í höndum starfsmanna Garðalundar í samráði við nemendur og er boðið upp á fjölbreytt hópastarf. Félagsmiðstöðin er opin öllum nemendum skólans.


Beinn sími félagsmiðstöðvarinnar er 590-2575.

Netfangið er gardalundur@gardalundur.is


Forstöðumenn Garðalundar eru:

Gunnar Richardson gunnar@gardalundur.is

Arnar Hólm Einarsson addi@gardalundur.is

S: 590-2570

Náms- og starfsráðgjöf í Garðaskóla

Í náms- og starfsráðgjöf Garðaskóla er m.a. unnið að velferð nemenda. Nemendur, forráðamenn og kennarar geta leitað til námsráðgjafa bæði vegna námslegra og persónulegra mála nemenda. Námsráðgjafar vinna í nánu samstarfi við starfsfólk skólans og aðra fagaðila utan hans. Fræðsla og ráðgjöf námsráðgjafa varðar framtíðaráform nemenda varðandi nám og störf.


Garðaskóli tekur þátt í verkefninu „Gegn einelti í Garðabæ” sem er samstarfsverkefni grunnskóla bæjarins. Markmið verkefnisins er að koma á samræmdum vinnubrögðum til að fyrirbyggja og bregðast við einelti, bæta líðan og öryggi nemenda og skólabraginn í heild. Ef grunur vaknar um einelti gagnvart þínu barni eða öðrum er mikilvægt að vitneskja um það berist til skólans sem fyrst. Einelti ber að tilkynna með formlegum hætti og með því að fylla út þar til gert eyðublað. Farið er eftir ákveðnu vinnuferli í meðferð eineltismála og er samvinna milli heimilis og skóla lykilatriði í vinnu við samskipta- og eineltismál.


Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um náms- og starfsráðgjöf Garðaskóla á heimasíðunni.


Námsráðgjafar í Garðaskóla eru Ásta Gunnarsdóttir og Auður Sigurðardóttir.

Upplýsingar um viðtalstíma námsráðgjafa eru veittar á skrifstofu skólans í sími 590 2500.

Þróunarstarf í skólanum 2017-2018

Garðaskóli

Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:30-15:00 mán-fim

Kl. 7:30-14:30 fös


Starfsmenn skrifstofu:

Anna María Bjarnadóttir, ritari

Óskar Björnsson, skrifstofustjóri