Fréttabréf Brekkuskóla

Nóvember - desember 2019

Ágætu foreldrar og forráðamenn

Desember er að ganga í garð og allt sem honum fylgir. Í skólanum höldum við okkar striki en vissulega hefur þessi tími sín einkenni. Það er t.d. skemmtileg tilbreyting þegar mandarínurnar mæta á svæðið:-) Svo er talið niður fram að jólum og jólasöngvar æfðir enda alltaf tekið vel undir á Litlu - jólunum sem verða hjá okkur 20. desember.

Föstudaginn 13. desember ætlum við að hafa „jólafatadag“ þá mæta þeir sem vilja í einhverju jólalegu og dagurinn verður fyrir vikið enn skemmtilegri.

Í janúar verða lögð fyrir lesfimipróf í öllum árgöngum og því um að gera að vera dugleg að lesa, nóg er nú um bækurnar sem koma út fyrir þessi jól.

Með von um ánægjulega aðventu!

Litlu - jól 20. desember

Nemendur í 2., 4., 7. og 10. bekk mæta klukkan 08:00 í heimastofur. Klukkan 09:00 koma þeir á sal skólans, þar sem verður dansað í kringum jólatré. Skóladegi lýkur milli klukkan 9:30 og 10:00 og Frístund opnar fyrir nemendur sem þar eru skráðir.

Nemendur í 3., 8. og 5. bekk mæta klukkan 09:00 í heimastofur. Klukkan 10:00 koma þeir á sal skólans, þar sem dansað verður í kringum jólatré. Skóladegi lýkur milli klukkan 10:30 og 11:00 og Frístund verður opin frá kl. 8 fyrir nemendur sem þar eru skráðir.

Nemendur í 1., 6. og 9. bekk mæta klukkan 10:00 í heimastofur. Klukkan 11:00 koma þau á sal skólans, þar sem dansað verður í kringum jólatré. Skóladegi lýkur milli klukkan 11:30 og 12:00.


Frístund verður opin frá kl. 8 fyrir nemendur sem þar eru skráðir.


Fimmtudaginn 2. janúar er frídagur.

Kennsla hefst á nýju ári samkvæmt stundaskrá föstudaginn 3. janúar 2020.

Bókatíðindi

Þessa dagana eru nýjar bækur að detta inn á bókasafnið okkar.

Við erum svo heppin að hafa fengið aftur veglega peningagöf frá Foreldrafélaginu til bókakaupa.


Við erum að undirbúa bókakynningar þar sem eldri nemendur lesa upp úr nýjum bókum og kynna þær fyrir yngri nemendum. Þetta er hluti af námi eldri barnanna í íslensku. Við fáum einnig nokkra rithöfunda í heimsókn í skólann og vonum að með þessu takist að vekja athygli og aukinn áhuga nemenda á bókum, bóklestri og jafnvel ritstörfum:-)

Símafrí í grunnskólum Akureyrar

Við í Brekkuskóla ætlum að taka okkur frí frá snjallsímum vikuna 9. - 13. desember, það ætla líka aðrir grunnskólar á Akureyri að gera.

Markmiðið er að njóta samskipta og samveru án snjallsíma í skólanum.

Nú er tími bókarinnar og okkur langar líka til að ýta undir aðra þætti í afþreyingu, við ætlum að bjóða nemendum spil, að skoða nýjar bækur sem eru að koma út núna fyrir jólin, einnig ætlum við að finna til tímarit og skapa aðstöðu fyrir teikningu og föndur.

Skólinn mun útvega tölvur og snjalltæki eftir þörfum í kennslustundum.


Hvað þýðir símafrí?

Að nemendur taki ekki síma upp í skólanum eða á skólalóð á skólatíma, noti aðra afþreyingu í frímínútum, spjalli, spili, lesi og fari jafnvel út í frímínútum.