Fréttabréf Naustaskóla

3.tbl 14. árgangur 2021

Kæra skólasamfélag

Eins og sjá má á í fréttabréfinu er nóg um að vera hjá okkur í skólanum í mars. Stóra upplestrarkeppnin er 10. mars þar sem tveir fulltrúar Naustaskóla keppa við aðra nemendur í grunnskólum Akureyrar. Við stefnum að útivistardegi í Hlíðarfjalli 15. mars. Fram undan eru síðan þrotlausar æfingar fyrir árshátíðina sem er í lok mars. Það gleður okkur mikið að geta boðið foreldrum á sýningarnar en þó verður skipulag árshátíðarinnar með öðru sniði þetta árið vegna gildandi sóttvarnareglna. Við skiptum sýningunum á tvo daga og bjóðum foreldrum að koma á ákveðnar sýningar til að tryggja hámarksfjölda áhorfenda á hverri sýningu. Skipulag sýninganna verður nánar auglýst þegar nær dregur með bréfi til foreldra og á heimasíðu skólans. Úr skólanum er annars allt gott að frétta og við hlökkum mikið til að geta haldið góða árshátíð og haft gaman saman.

Við sendum bestu kveðjur úr skólanum

Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri

Á döfinni í mars

1. mars - Starfsdagur

2. mars - Stóra upplestrakeppnin 7. bekk ( Naustaskóla)

10. mars - Stóra upplestrakeppnin 7. bekk í Menntaskólanum á Akureyri

9. mars - samræmd próf íslenska 9.bekkur

10. mars - samræmd próf stærðfræði 9.bekkur

15. mars - Útivistardagur

25. mars - Árshátíð ( skipulag kemur síðar )

26. mars - Árshátíð

29. mars - 5. Páskafrí, skóli hefst 6. apríl.

Skóladagatal 2021-2022

Nú er skóladagatal næsta árs að byrja að taka á sig mynd. Ljóst er að skóli verður settur þann 23. ágúst og haust/vetrarfrí verða væntanlega 18.-19. október og 3.-4. mars. Gott að vita fyrir þá sem vilja skipuleggja sig lengra fram í tímann.

Innritun fyrir næsta ár

Þeir sem enn eiga eftir að innrita börn í 1. bekk fyrir næsta vetur, eða hyggja á skólaskipti fyrir börn sín þurfa að drífa í skráningum. Það er afar mikilvægt fyrir skóla bæjarins við skipulagningu næsta skólaárs að nemendatölur séu eins áreiðanlegar og framast er kostur. Skrá skal á heimasíðu skóladeildar www.skoladeild.akureyri.is

Útivistardagur 15. mars

Áformaður útivistardagur í Hlíðarfjalli 15. mars 2021


Mánudaginn 15. mars er áformaður útivistardagur í Naustaskóla (ef veður leyfir) þar sem okkur býðst að fara í Hlíðarfjall. Þeim nemendum sem ekki geta farið í fjallið af heilsufars- eða öðrum ástæðum verður boðið upp á aðra afþreyingu sem verður send út seinna.


Nemendur í 4.-10. bekk geta fengið lánaðan búnað endurgjaldslaust (láta vita síðasta lagi á fimmtudaginn 12. mars). Það verður einungis hægt að fá lánuð 40 skíði (eða bretti) og viljum þess vegna biðja fólk um að vera duglegt að fá lánað annars staðar en hjá skíðaleigunni. Nemendur í 1.-3. bekk geta því miður ekki fengið lánaðan búnað en er velkomið að hafa með sinn eigin búnað eða snjóþotur og sleða. Unnið er að því að kanna þörf fyrir búnað fyrir nemendur og þurfum við að ljúka við þá skráningu á mánudaginn. Hægt verður að fara á svigskíði, bretti, gönguskíði eða jafnvel fara í gönguferð.


Það munu allir fara heim með rútunni þegar þeirra tíma lýkur.


Tímasetningar:

1.-3. bekkur: Mæting í skóla kl. 8:10

- Brottför frá skóla kl. 9:00

- Heimferð úr Hlíðarfjalli kl. 11:20

- Skóladegi lýkur kl. 13:00


4.-7. bekkur: Mæting í skóla kl. 8:10

- Brottför frá skóla kl. 8:40

- Heimferð úr Hlíðarfjalli kl. 12:00

- Skóladegi lýkur kl. 13:00


8.-10. bekkur Mæting í skóla kl. 8:10

- Brottför frá skóla kl. 8:25

- Heimferð úr Hlíðarfjalli kl. 12:20

- Skóladegi lýkur ca. kl. 13:00


Útbúnaður:

  • Skíði, bretti, snjóþotur, þoturassar, svartir plastpokar og sleðar eru leyfðir til fararinnar.
  • Hjálmar eru nauðsynlegir! (Bent er á að hægt er að nota reiðhjólahjálma)
  • Mikilvægt er að nemendur séu vel klæddir og í vel merktum fatnaði.
  • Ekki gleyma snjóbuxunum, vettlingunum og húfunni.



  • Nesti: nemendur komi sjálfir með hollt og gott nesti. Sjoppa er ekki opin.

Árshátíð 25. og 26. mars

Nú er undirbúningsvinna hafin fyrir árshátíð Naustaskóla. Árshátíðarnefndin er á fullu að búa til skipulag þannig að allir foreldrar geti komið og horft á börnin sín leika listir sínar á frábærum árshátíðardegi. Við sendum ykkur nánari upplýsingar þegar nær dregur.

Stóra upplestrarkeppnin

Úrslit Stóru upplestrarkeppninnar verða í Kvos Menntaskólans á Akureyri miðvikudaginn 10. mars kl. 16:30. Þar munu fulltrúar Naustaskóla keppa en tveir aðalfulltrúar voru valdir í undankeppni skólans auk eins varafulltrúa. Fulltrúar Naustaskóla í ár eru Jóhann Valur Björnsson, Birta Gísladóttir og Frosti Orrason til vara. Óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.