Fréttabréf Kópavogsskóla

febrúar 2020

Öskudagur

Nú styttist í öskudaginn og undirbúningur í fullum gangi hjá börnum og foreldrum, heimilum og skóla. Skipulag öskudagsins hefur verið sett upp með stjórn foreldrafélagsins undanfarin ár og er komið í nokkuð fast form. Skóladagur barnanna hefst kl. 08:00 í stofum umsjónarkennara þar sem ýmislegt skemmtilegt er á dagskrá og í lok dagsins er marserað um skólann og ball í samkomusalnum um kl. 10:30. Klukkan 11:00 er matur hjá þeim sem eru skráðir í mat og eftir það fara nemendur heim (eða í frístund) til að undirbúa sig fyrir heimsóknir í fyrirtæki og í heimahús seinna um daginn.


Auglýsing Öskudagsnefndar foreldrafélagsins er svohljóðandi:


,,Kæru nágrannar.


Nú líður að Öskudegi og okkur í Foreldrafélagi Kópavogsskóla langar að leyfa yngstu krökkunum í skólanum að ganga í hús, syngja og fá eitthvað í staðinn, t.d. popp, nammi, smákökur eða hvað eina. Hugmyndin er að setja þetta blað [sem verður sent inn á öll heimili í hverfinu] á áberandi stað út í glugga sem sést frá götu, ef þið viljið taka á móti þeim, frá klukkan 16 30 til kl 18 30 á Öskudaginn 26. febrúar. Taka svo bara blaðið niður ef allt er búið. Þetta er gert eftir dægradvalatíma í skólanum .

Með fyrirfram þökk, og von um samstarf.


Kær kveðja

Foreldrafélag Kópavogsskóla og Öskudagsnefnd."

Viðburðir í skólastarfinu

Í upphafi hvers skólaárs eru ýmsir viðburðir skólaársins skráðir í viðburðadagatal sem er til hægri á heimsíðu Kópavogsskóla. Nýir viðburðir bætast reglulega við og aðdragandi þeirra er mismikill. Þeir eru skráðir í viðburðadagatalið þegar skipulag þeirra hefur verið ákveðið og því um að gera að skoða viðburðadagatalið reglulega.

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn

Á hverju ári er einn dagur helgaður netöryggi, ,,Alþjóðlegi netöryggisdagurinn". Margir aðilar á Íslandi vinna að netöryggi og til eru regnhlífarsamtök, Saft, sem standa fyrir vakningarátaki um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun. Mikilvægi netöryggis er mikið og fyrir ungmenni í dag eru leiðbeiningar nauðsynlegar og mikilvægt að heimili og skóli vinni að því saman. Á spjaldtölvuvef Kópavogsbæjar er mikið af upplýsingum og þar vekjum við sérstaka áherslu á því sem kallast ,,Stafræn borgaravitun" og fjallar um mikilvægi þess að fylgja ákveðnum grunnreglum á netmiðlum.


Flest börn og unglingar eru í dag með sjallsíma sem eru mjög öflugar tölvur. Það er mikilvægt að kenna þeim að fara með þau tæki því mynd eða hljóð/myndupptaka sem er gerð er stundum sett á netið án umhugsunar og það hefur haft veruleg óþægindi í för með sér. Því biðjum við ykkur foreldrar góðir að ræða reglulega við börn ykkar um notkun miðlanna, hvað má og má ekki, og það er ekki síður mikilvægt en að kenna þeim það en að kenna þeim að fara yfir götu á gangbraut. Setjið börnunum reglur um myndatökur á símana sína og kennið þeim að virða það ef einhverjir vilji ekki láta taka myndir af sér.


Á vefnum heilsuvera.is eru frábærar leiðbeingar um ýmislegt er varðar netnotkun og hvað þarf að hafa í huga. Bendi sérstaklega á það sem heitir ,,Skjarinn og börnin" og veggspjöldin sem þar er vísað til. Set beina tengla á veggspjöldin hér fyrir neðan til hægðarauka:Þar er líka að finna upplýsingar um ,,Tölvuleikjaröskun" sem gott er að kynna sér og ræða við börnin.

Samræmd próf - framtíðarstefna

Í byrjun mánaðarins skilaði starfshópur á vegum menntamálaráðuneytisins tillögum að Framtíðarstefnu um samræmt námsmat. Starfshópurinn leggur til ýmsar breytingar frá því fyrirkomulagi sem nú er og þær helstu eru:


  1. Matsferill Þróað verði heildstætt safn matstækja í mörgum námsgreinum undir yfirheitinu matsferill sem komi í stað samræmdra könnunarprófa eins og þau eru í núverandi mynd. Áhersla verði á fjölbreytt, stutt, hnitmiðuð, rafræn próf og verkefni og valfrelsi skóla til að nýta sér þau, með þeim takmörkunum þó að skólum beri skylda til að leggja fyrir tiltekin próf í íslensku og stærðfræði. Námsmat verði leiðbeinandi og komi sem best til móts við fjölbreytta kennsluhætti þar sem áhersla er lögð á einstaklingsmiðað nám og leiðsagnarmat með markvissar umbætur að leiðarljósi.
  2. Samráðshópur Myndaður verði samráðshópur um framkvæmd og fyrirkomulag nýs matsferils og hafi hópurinn einkum það hlutverk að rýna og koma með athugasemdir eða tillögur til breytinga á þróun, ferli og fyrirkomulagi allra prófa og verkefna í matsferlinum.
  3. Prófagluggi Gefinn verði kostur á sveigjanlegri fyrirlögn prófa í matsferlinum. Hugtakið opinn prófagluggi hefur verið notað í því samhengi. Slíkur sveigjanleiki er til þess fallinn að dreifa og draga úr álagi, bæði á matsstofnun og skólastarfið sjálft.
  4. Starfsþróun kennara Til að tryggja sem best umbætur í kjölfar mats verði áhersla lögð á ráðgjöf og leiðsögn. Í því sambandi verði veittur öflugur stuðningur við starfsþróun kennara og stjórnenda sem auki hæfni þeirra til að nýta niðurstöður námsmats.
  5. Birting niðurstaðna Birting niðurstaðna úr matsferlinum taki fyrst og fremst mið af þörfum nemenda. Aðgangur að niðurstöðum verði vel skilgreindur og miðað við að hann nýtist í umbótaskyni. Hver skóli hafi fullan aðgang að eigin niðurstöðum, hvert sveitarfélag að niðurstöðum sinna skóla og ráðuneyti að þeim niðurstöðum sem það telur sig þurfa um skólakerfið í heild.
  6. Námsmatsrammi Skilgreindur verði námsmatsrammi sem veiti ítarlegar upplýsingar um markmið og hlutverk alls skipulagðs námsmats á mismunandi skólastigum. Með því móti deili allir sömu sýn á tilgang námsmats og tímasetningar þess, birtingu niðurstaðna og í hvaða röð ólíkir námsþættir eru kannaðir.


Næsta skref er að tillögur hópsins verða rædda í ráðuneytinu og endanleg ákvörðun tekin um framhaldið.

Mentor - handbók foreldra

Ný útgáfa af handbók foreldra fyrir mentor er komin út og er hægt að nálgast á heimasíðu mentor. Þar eru helstu atriði kerfisins útskýrð og við hvetjum ykkur til að kynna ykkur handbókina. Þar eru m.a. leiðbeiningar um notkun á mentor appinu, stillingar með tilliti til persónuverndar, tilkynningar og ýmsa möguleika í ,,Minn mentor" svo nokkur atriði séu nefnd.

Traðarreitur eystri

Í lok janúar var kynningarfundur á vegum skipulagsyfirvalda vegna fyrirhugaðra framkvæmda á svokölluðum Traðarreit - austur (smellið á tengilinn til að sjá hugmyndirnar) en hann er á milli Kópavogsskóla og MK. Þar er gert ráð fyrir 180 íbúða fjölbýlishúsi með bílakjallara og inn/útkeyrsla í kjallarann á samkvæmt þeim áætlunum að vera á Skólatröð. Samkvæmt áætlununum er gert ráð fyrir um 1.100 ferðum á dag um Skólatröð sem hefur að mati skólayfirvalda gríðarlega slysahættu í för með sér. Skólaráð Kópavogsskóla og foreldrafélag skólans hefur sent inn athugasemdir vegna þessara fyrirætlana og samkvæmt verkferlum á eftir að vinna úr þeim athugasemdum áður en lengra er haldið.
Big picture

Vetrarleyfi skólaárið 2020-2021

Skóladagatal skólaársins 2020-2021 er frágengið af hendi Kópavogsskóla og búið að senda það til menntaráðs Kópavogs til staðfestingar. Um leið og það hefur fengið umfjöllun þar og samþykki verður send út tilkynning og skóladagatalið birt á heimasíðu Kópavogsskóla. Gert er ráð fyrir að vetrarleyfi skólaársins 2020-2021 verði:


  • mánudaginn 26. og þriðjudaginn 27. október 2020
  • fimmtudaginn 18. og föstudaginn 19. febrúar 2021

Tannvernd

Gríðarleg jákvæðar breytingar hafa orðið á tannheilsu barna og ungmenna undanfarin ár og það er ekki síst að þakka aukinni áherslu á hollan og góðan mat og minkandi drykkju sykraðra drykkja. Á vef Embættis landlæknis er mikinn fróðleik að finna en í febrúar ár hvert er lögð sérstök áhersla á að minna fólk á mikilvægi tannverndar. Margir orkudrykkir eru skaðlegir tönnum og því um að gera að kynna sér ráðleggingar embættisins. Kópavogsskóli leggur áherslu á að nemendur komi með hollt og gott nesti að heiman og ekki er heimilt að koma með sykraða drykki og sætabrauð nema á sérstökum dögum með heimild kennara. Við biðjum foreldra að aðstoða okkur við að framfylgja þeirri reglu og velja hollt og gott nesti fyrir börnin.