Snjalltækni í leikskólastarfi

Kynning á Þróunarverkefni - SnjallsmiÐja

Gaman saman, lærum saman

Sameiginlegur skipulagsdagur leikskóla Akureyrarbæjar í Naustaskóla á Akureyri. 27. október 2017 frá kl. 8:15-11:45

Dagskrá

10:15-10:45
Nýsköpun og snjalltækni - að koma til móts við nýja kynslóð. Kynning á þróunarverkefni sem miðar að því að nýta snjalltækni í skapandi starfi og málrækt með börnum.

11:00-11:30
Snjallsmiðja - Í smiðjunni verður boðið upp á kynningu á helstu öppum/forritum sem kennarar nota í skapandi starfi og málrækt með börnunum.

Nýsköpun og snjalltækni - að koma til móts viÐ nýja kynslóÐ

Málstofa 10:15-10:45
Umsjón: Íris Hrönn Kristinsdóttir og Jórunn E. Jóhannesdóttir


Verkefnið Nýsköpun og snjalltækni – að koma til móts við nýja kynslóð byggir á þeim grunni sem unninn var skólaárið 2015-2016 þegar fyrstu snjalltækin voru innleidd á Krógabóli. Það er styrkt af Sprotasjóði og nýtur stuðnings frá MSHA.

Verkefnið miðar að því að auka færni kennara í notkun snjalltækja í skólastarfi og fjölbreytilegum kennsluháttum. Innleiðing hefur gengið vel og við höfum lært að nýta snjalltækin á skapandi hátt í starfinu bæði í þágu barna og kennara.


Leiðarljós í þróunarverkefninu:

  • Við lítum á snjalltækni sem verkfæri og nýja leið til að læra
  • Við tengjum snjalltækni við málrækt og sköpun
  • Við setjum skýr markmið
  • Við tengjum verkefnin við námskrána okkar
  • Við byggjum nám á leik, áhugahvöt og sköpunargleði
  • Við leggjum áherslu á að vinna út frá hugmyndum barna og kennara

SögugerÐ í Puppet Pals

Smiðja

Umsjón: Björk Vilhelmsdóttir


Frábært app í skapandi vinnu og málrækt. Puppet Pals var eitt af fyrstu öppunum sem við notuðum á Krógabóli til að búa til myndbönd með börnunum og er það orðinn fastur liður á elstu deildunum.


Í Puppet Pals geta börnin búið til sögur og leikrit. Þau velja eða búa til persónur og bakgrunna, búa til söguþráð og segja sögu í máli og myndum. Hægt er að taka söguna upp og skoða aftur seinna eða deila henni með öðrum. Í Puppet Pals HD er hægt að taka ljósmyndir eða myndir af vefnum og bæta inn í sögurnar. Þetta gefur möguleika á fjölbreyttri sköpun og undirbúningsvinnu, t.d. er hægt að teikna sögupersónur og bakgrunna og setja inn í sögurnar eða taka ljósmyndir af börnunum. Í Puppet Pals vinnum við með t.d. orðaforða, framsögn, endursögn og málvitund. Einnig læra börnin hugtök tengd sögugerð og læra að byggja upp sögur.

Chatter Pix

Smiðja

Umsjón: Sigurveig Petra Björnsdóttir


ChatterPix er skemmtilegt smáforrit sem hvetur börn til að tjá sig. Hugmyndin á bak við forritið er einföld - að láta myndir tala. Hægt að skreyta og tala inn á alls kyns myndir, geta bæði verið myndir sem barnið hefur teiknað, myndir af netinu eða ljósmyndir. Myndbandið getur mest verið 30 sek.


Á Krógabóli höfum við mest notað ChatterPix til að láta sköpunarverk barnanna tala, t.d. fígúrur og myndir sem þau hafa gert. Einnig voru gerð jólakort á einni deildinni með myndum af börnunum sem komu skemmtilega út. Að tala inn á mynd og sýna hinum í hópnum krefst hugrekkis og er frábær æfing í framsögn og miðlun.

Book Creator

Smiðja

Umsjón: Lilja Valdimarsdóttir


Book Creator er frábært app sem hentar vel í skólastarfi. Hægt er að nota appið í vinnu með börnum, sem skráningartæki fyrir kennara, til að búa til fjölbreytilegar bækur á rafrænu formi, til að miðla upplýsingum til foreldra og gera starfið í skólanum sýnilegt.

Rafbækurnar er hægt að vista á margvíslegu formi og deila með öðrum, t.d. er bæði hægt að búa til bækur sem hægt er að fletta og líka myndbönd þar sem bókin flettist af sjálfsdáðum. Auðvelt er að læra á og vinna með forritið, einfalt að búa til ný verkefni, bæta við blaðsíðum, setja inn myndir, taka myndir, skrifa og teikna, setja inn texta og bæta við hljóði eða tónlist. Með Book Creator appinu geta allir búið til bækur. Flott app til að nota í málörvun, þar sem m.a. er hægt að vinna með framsögn, sögugerð, orðaforða o.s.frv.


Á heimasíðu Book Creator má finna ýmsar upplýsingar um forritið auk hugmynda um hvernig hægt er að nota það í skólastarfi.

iMovie

Smiðja
Umsjón: Líney Elíasdóttir


Imovie fylgir með öllum Ipödum og Apple. Appið er einfalt og þægilegt, auðvelt að læra að nota það. Hægt að klippa saman myndir og myndbönd, lesa inn á eða bæta við tónlist. Einnig er sniðugt að nota Imovie t.d. til að bæta tónlist inn á verkefni úr öðrum forritum eins og t.d. Puppet Pals eða myndbönd úr Book Creator.

Imovie trailer er innbyggt í Imovie og því frítt í öllum nýjum Ipödum. Imovie trailer gefur möguleika á að búa til örstutt myndbönd (um það bil 1. mínúta) með því að velja þema, skrifa texta og draga myndir inn í ákveðið tilbúið form, appið sér síðan um að búa til myndbandið úr myndbrotunum. Mjög skemmtilegt app til að búa til stutt myndbönd úr starfinu.

Qr kóÐar í kennslu

Smiðja
Umsjón: Jórunn E. Jóhannesdóttir


Qr kóði er nokkurskonar strikamerki sem hægt er að geyma gögn á bak við. Með því að nota app úr síma eða öðru snjalltæki er hægt að skanna strikamerkið og skoða efnið sem tengt er kóðanum.

Hægt er að ná í alls kyns útgáfur af Qr kóða lesurum bæði fyrir Apple og Android tæki í App Store og Play Store, hér fyrir neðan er slóð á frítt app sem er laust við auglýsingar og virkar hratt og vel:

Qr Reader fyrir Ipad

Qr Reader fyrir Android

Það er auðvelt að búa til Qr kóða á netinu og þar eru ýmsar síður sem hægt er að nota, á sumum síðum þarf að greiða fyrir notkun en aðrar eru fríar eins og t.d. QR stuff


Á Qr stuff er einfalt að búa til og vista kóða sem svo er hægt að prenta út eða senda rafrænt. Sá sem fær kóðann getur skannað hann og séð hvað liggur að baki.

Í leikskólanum Krógabóli hafa Qr kóðar verið notaðir á fjölbreyttan hátt, til að deila efni, í verkefnavinnu og í útikennslu.

OSMO í leikskóla

Smiðja
Umsjón: Íris Hrönn Kristinsdóttir


OSMO er margverðlaunað leikja- og kennslutæki fyrir Ipad. Það sem gerir OSMO leikina sérstaka er að í þeim er leikið með áþreifanlega hluti, börnin handleika púslukubba, tölu- og bókstafi, skriffæri og fleira til að hafa áhrif á það sem gerist á skjánum. Í leikjunum er m.a. hægt að púsla saman myndum úr formum, vinna með stafi, orð og tölur, þjálfa fínhreyfingar í gegnum teikningar, gera tilraunir og æfa forritun.

OSMO hentar vel frá leikskóla og upp í elstu bekki grunnskólans. Hægt er að búa til verkefni frá grunni t.d. fyrir tungumála- og íslenskukennslu.

Kubbur og lirfan - forritun í leikskóla

Smiðja
Umsjón: Anna Gunnbjörnsdóttir


Kynning á forritun fyrir yngstu börnin en Kubbur og Lirfan hafa heimsótt allar deildir á Krógabóli og vakið mikla eftirvæntingu og gleði hjá börnunum. Bæði Lirfan og Kubbur æfa börnin að nota grunnskipanir í forritun án þess að nota skjá.

Lirfan
Einföld forritun fyrir leikskólabörn. Lirfunni er raðað saman með kubbum sem hver táknar eina skipun, þegar lirfan er tilbúin er smellt á hnapp og þá skríður hún áfram og fylgir þeim skipunum sem hún hefur fengið. Skemmtilegt að nota Lirfuna með einingakubbum og öðrum leikföngum í leikskólanum.

Kubbur
Í gegnum leik með Kubb eða Cubetto er hægt að kenna yngstu börnunum að forrita án þess að nota skjá. Kubb er stjórnað með stjórnborði þar sem börnin raða inn skipunum. Allt námsefnið er mjög í anda Montessori, viður og falleg efni.

Auðvelt er að tengja leik með Kubb við málrækt, stærðfræði og fræðslu um heima og geima.
https://youtu.be/JtkzfrZ5slU

Tiny Hands - leikir fyrir yngstu börnin

Litir, stærðir, form, flokkun, röðun, pörun, talnaskilningur o.fl.


Vandaðir leikir fyrir yngstu börnin, henta líka vel fyrir sérkennslu. Unnið er með hugtök og rökhugsun á skemmtilegan hátt. Hver leikur samanstendur af nokkrum stuttum þrautum sem henta vel til að æfa börn í að skiptast á. Verkefnin skýra sig einnig að mestu sjálf og leikirnir eru lausir við skýringartexta á skjánum. Tónlist og grafík í leikjunum eru til fyrirmyndar. Tiny Hands smáforritin voru hönnuð í samstarfi við kennara og barnasálfræðinga.

Flestir leikirnir snúast um að raða, para og flokka alls kyns form, liti og stærðir. Einnig læra börnin að telja, þekkja tölustafina og hvaða talnagildi liggja á bak við þá. Leikirnir eru flottir í málörvun þar sem unnið er með ýmis hugtök s.s. eiginleika- og staðsetningarhugtök.

Ný vefsíÐa

Kynning á snjalltækni í leikskóla

Í nóvember opnum við vefsíðu með upplýsingum um þróunarverkefnið okkar. Á vefsíðunni verður að finna ýmsar upplýsingar um þróunarverkefnið, skemmtileg verkefni sem unnin hafa verið með börnunum, kennsluleiðbeiningar og listi yfir gagnleg smáforrit.
Big image

Takk fyrir komuna!