Fréttabréf Grænna skrefa

Fræðsla, nýjustu fréttir, viðbætur á heimasíðuna og fleira.

GLEÐILEGT NÝTT ÁR!

Kæru þátttakendur í Grænu skrefunum. Við getum litið til baka yfir síðasta ár og fagnað þeim árangri sem við höfum náð saman þrátt fyrir heimsfaraldur, grímuskyldu, samkomutakmarkanir og alls konar aðrar hindranir. Í lok ársins var staðan þannig að þátttökustaðir voru að nálgast 250, þar af höfðu 136 starfseiningar Reykjavíkurborgar skráð sig á síðasta ári. Nú hafa 37 starfsstaðir náð skrefi 1, 23 hafa náð skrefi 2, 3 eru komnir með skref 3 og 12 eru komnir með skref 4. Það þýðir að samtals 2.576 umhverfisvænar aðgerðir hafa verið kláraðar allt í allt. Með þessum umhverfisaðgerðum höfum við í sameiningu dregið umtalsvert úr orkunotkun, eldsneytisnotkun, matarsóun, innkaupum og almennri sóun.

Við getum svo sannarlega verið ánægð með það.


Frá því síðasta fréttabréf var gefið út hafa 40 nýir staðir bæst við. Við bjóðum alla nýju staðina velkomna í Grænu skrefin.


Fjórir starfsstaðir fengu viðurkenningu í desember og við óskum þeim til hamingju með það.

Mannauðs- og starfsumhverfissvið Reykjavíkurborgar kláraði skref 2

Frístundaheimilið Eldflaugin kláraði skref 1

Frístundaheimilið Skýjaborgir kláraði skref 1

Heimaþjónustan Sléttuvegi kláraði skref 1 og

Frístundamiðstöðin Kringlumýri kláraði skref 1

HRINGRÁSIN - framhald

Í desembereintaki fréttabréfs Grænna skrefa var hringrásarhagkerfið kynnt og útskýrt lauslega. Nú hafa verið lagðar fram tillögur starfshóps um hringrásarhagkerfið til samþykktar hjá Umhverfis- og skipulagsráði. Hér má sjá frétt um þetta efni og tengil á aðgerðaráætlunina / hugmyndirnar. https://reykjavik.is/frettir/borgin-verdi-i-forystu-vid-throun-hringrasarhagkerfisins

Það er mjög spennandi að fylgjast með þróuninni í þessum málum. Það er algjörlega nauðsynlegt að hætta að urða úrgang og koma verðmætum efnivið betur inn í hringrás í stað þess að henda. Við getum ekki lengur búið við það línulega hagkerfi sem við búum við í dag þar sem nýir hlutir eru endalaust framleiddir, notaðir og síðan hent.


Við getum hjálpað til með því að minnka það úrgangsmagn sem er hent. Nýtum okkur skiptimarkaði og deilihópa, t.d. á Facebook, fyrir fatnaðinn okkar, bækur, púsl, spil, leikföng o.fl. Nýtum okkur Reykjavík Tool Library til að leigja verkfæri og raftæki í stað þess að kaupa. Nýtum okkur bókasöfnin til að leigja spil, bækur, bíómyndir, listaverk í stað þess að kaupa og nýtum okkur deiliþjónustu með hlaupahjól, reiðhjól og bíla. Leigjum borðbúnað fyrir veislur í stað þess að kaupa einnota. Það er einnig hægt að leigja skrautið. Því betur sem við kynnumst þeim möguleikum sem eru í boði og þessu hringrásarkerfi því betur erum við undirbúin undir það sem koma skal. Þetta á bara eftir að aukast og fjölbreytnin verður meiri.


Í þessum anda, og til að endurnýta, auglýsti ég í Workplace hópi Grænna skrefa að ég væri með ýmiss konar pappír til endurnýtingar. Kannski vilja leikskólar eða frístundaheimili nýta þetta í föndur. Hér er innleggið: https://reykjavik.workplace.com/groups/324658998315123/permalink/810854199695598/


Á vinnustaðnum er einnig hægt að vera með ýmsa skiptimarkaði. Fyrir bækur, föt, smáhluti og slíkt. Prófið í ákveðinn tíma eins og kannski 2 vikur, allir eru með og leggja til hluti og hver veit nema að þar birtist akkúrat það sem ykkur vantaði.


Það eru verðmæti í ruslinu. Prófaðu að kanna það á Facebook hvort að einhver hafi áhuga á að nýta sér það sem þú ætlar að henda. Það mun koma þér á óvart hvað það eru margir sem vilja nýta sér "ruslið" okkar í skapandi verkefni.

Big picture