Fréttabréf Borgaskóla

1. tbl 3. árg.

Fyrsta fréttabréf skólaársins

Fyrsta fréttabréf skólaársins 2022-2023 lítur hér dagsins ljós. Skólinn okkar iðar af lífi alla daga og það hefur margt drifið á daga okkar það sem af er. Borgaskóli fékk Regnbogavottun Reykjavíkurborgar í lok september og 2. nóvember tóku starfsfólk og nemendur Borgaskóla á móti fyrsta Grænfánanum. Hér eru á ferð tvö mikilvæg málefni er snúa að jafnrétti og umhverfinu okkar. Við leggjum okkur fram um að framfylgja þessum málefnum í skólanum okkar.

Það kennir ýmissa grasa í fréttabréfinu að þessu sinni; viðurkenningar fyrir sumarlestur, uppfinningafólk, leikskólasamstarf og sigurvegarar Göngum í skólann er m.a. þar að finna.

Njótið lestursins.

Afhending Grænfánans

Big picture

Borgaskóli fékk Grænfánann afhentan í fyrsta sinn við hátíðlega athöfn við skólann þann 2. nóvember. Skólar á öllum skólastigum taka þátt í grænfánaverkefninu. Skólar á grænni grein vinna að menntun til sjálfbærni og hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið. Nemendur og kennarar gengu fylktu liði umhverfis skólann og að fánastöngum. Þar voru teknar nokkrar öndunaræfingar til að njóta útsýnis og hreina loftsins. Fulltrúi frá Landvernd, Sigurlaug Arnardóttir, afhendi síðan nemendum í umhverfisráði fánann og skólastjóri dró hann að húni. Við getum verið stolt af því að ná þessum áfanga, nemendur og starfsfólk eru meðvituð um mikilvægi þess að bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni.

Viðurkenningar fyrir sumarlestur

Borgaskóli veitir viðurkenningar til nemenda sem viðhalda lestrarfærni sinni á sumrin. Nemendur eru meðvitaðir um að það þarf að mæta á lestraræfingar yfir sumartímann líkt og á veturna svo sú færni sem náðst hefur viðhaldist. Við óskum nemendum innilega til hamingju með árangurinn og hvetjum um leið alla nemendur til að æfa lestur allt árið. Hér má sjá verðlaunahafa skólans:

Útikennsluverkefni í 4. bekk á Degi íslenskrar náttúru

Dagur íslenskrar náttúru var 16. september þar sem nemendur hlupu í Norræna skólahlaupinu og unnu útikennsluverkefni. Í 4. bekk unnu nemendur verkefnið stafrófið á hlaupum. Þar var nemendum skipt upp í hópa og hver hópur valdi sér fjóra stafi. Nemendur áttu að finna efnivið í náttúrunni sem átti við upphafsstafinn og mynda stafinn úr efniðviðnum.

Big picture

Berjatínsla á haustdögum

Big picture

Haustið var einstaklega milt og gott og það viðraði mjög vel til berjatínslu.

Nemendur í 2. - 5. bekk tíndu ber í nágrenni skólans, sólber, rifsber og krækiber og var berjaspretta nokkuð góð í ár.

Nemendur sultuðu síðan berin í heimilisfræði og gæddu sér á sultunni með saltkexi, vöfflum og rjóma.

Þetta var skemmtilegt útikennsluverkefni og nemendur voru mjög duglegir að tína. Fleiri myndir er að finna hér

Orgelkrakkar

Big picture

Krakkarnir í 2. bekk heimsóttu Grafarvogskirkju í september og fengu að hlusta á nýja orgel kirkjunnar ásamt yfir 100 öðrum nemendum úr Reykjavík. Guðný Einarsdóttir og Bergþór Pálsson fluttu tónlistarævintýrið „Lítil saga úr orgelhúsi“. Sagan er eftir Guðnýju sjálfa með tónlist eftir Michael Jón Clarke og fjallar um orgelpípurnar í orgelhúsinu. Sif, minnstu orgelpípunni, finnst leiðinlegt að hinar orgelpípurnar eru ekki alltaf góðir vinir og ákveður eina nóttina að flytja úr orgelhúsinu og finna annan stað til að búa á. Það verður uppi fótur og fit í orgelhúsinu og orgelpípurnar fara að leita að Sif litlu. Tónleikarnir vöktu mikla lukku meðal nemenda og einnig að minnsta orgelpípan heitir sama nafni og annar kennari bekkjarins. Fleiri myndir má finna hér.

Leikskólasamstarfið komið vel í gang

Big picture

Við í Borgaskóla, leikskólanum Hömrum og leikskólanum Hulduheimum, erum að þróa nýtt skipulag í kringum samstarf leikskóla og skóla. Við höfum komið á legg verkefni sem við köllum Skólavinir. Það eru allir nemendur í 5. bekk skólans sem munu vera í sérstöku vinasambandi við forskólabörn í leikskólum hverfisins. Þau fá ýmis verkefni sem lúta að heimsóknum í leikskólana og að standa fyrir leikjum í frímínútum þegar forskólabörnin heimsækja skólann. Vinátta þeirra mun svo vaxa með þeim næstu tvö ár þegar forskólabörnin koma og verða nemendur í Borgaskóla.

Í september fóru nemendur úr 5. bekk í heimsókn á leikskólana þar sem þau spjölluðu við forskólabörnin og sýndu þeim skólatöskurnar sínar og innihaldið í þeim. Forskólabörnin voru mjög áhugasöm og fengu mörg að prófa skólatöskurnar. Krökkunum úr Borgaskóla fannst mjög gaman að fara og hitta krakkana og sum hver að heimsækja gamla leikskólann sinn.

Í október komu svo forskólabörnin í heimsókn í fyrsta bekk þar sem þau tóku þátt í verkefnum og fengu ávexti í nestistímanum. Þau enduðu heimsóknina á því að leika við skólavini í frímínútum.

Uppfinningafólk framtíðarinnar

Nemendur í 7. bekk eru að þjálfa sig í því að greina vanda og finna lausnir. Námsfélagar ræddu saman og fundu vandamál í nærumhverfi sínu. Áberandi í umræðunni voru vandamál tengd mengun og því að þurfa að standa upp til þess að sækja hitt og þetta. Út frá þessu var umræða um lausnir og síðan paraverkefni þar sem nemendur fundu upp einhvern hlut til þess að leysa vandamál sem vakti áhuga þeirra.

Fréttir frá bókasafni

Alþjóðlegi bangsadagurinn er haldinn hátíðlegur 27. október ár hvert en það var fæðingardagur Theodore Roosevelt, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem gjarnan var kallaður Teddy. Á bókasafninu var leikur, þar sem nemendur giskuðu á fjölda gúmmíbangsa í krukku og fékk sá nemandi sem komst næst tölunni verðlaun. Bangsarnir voru 400 og sigurvegarar að þessu sinni voru:

Rósa María í 7. bekk sem giskaði rétt eða 400 stk

Ísak Smári í 6. bekk giskaði á 403 stk

Ísabella Rós í 7. bekk giskaði á 404 stk

Á bókasafninu er einnig bókaklúbbur Binnu og Jónsa, þar sem nemendur lesa 15 bækur og fá þá viðurkenningarskjal. Bókaklúbburinn hefur verið mjög vinsæll og nemendur áhugasamir um að taka þátt.

Afrakstur úr hönnun og smíði

5. bekkingar gerðu mósaík spegla

Big picture

7. bekkingar gerðu lampa

Big picture

Sigurvegarar Göngum í skólann

Big picture

5.bekkur varði Göngum í skólann bikarinn á dögunum. Nemendur í 5.bekk notuðust við virkan ferðamáta í 97,5% tilvika á tímabilinu 7. september til 5. október. Nemendur bættu sig til muna frá síðasta skólaári þegar bekkurinn notaði virkan ferðamáta í 88% tilfella. Nemendur fengu auk bikarsins bolta fyrir bekkinn í verðlaun.

Til hamingju 5.bekkur !

Gönguval hafið á ný

Big picture

Nú er gönguval komið í gang aftur í 6. og 7. bekk. Við gengum niður í fjöru hjá kajakfélaginu. Mikil rigning var þann dag og krakkarnir urðu því ansi vot.

Einnig gengum við niður að ljósu strönd fyrir neðan Gufunesbæ. Þann daginn fengum við miklu betra veður, þurrt, stillt en frekar kalt. Krakkarnir höfðu sjálf orð á því hversu miklu skemmtilegra væri að njóta útiveru og náttúrunnar þegar veður er gott.

Fréttir frá Foreldrafélagi Borgaskóla

Hausthátíð foreldrafélags Borgaskóla var haldin 5. október sl., fjölmargir mættu og skemmtu sér vel í fjölbreyttri afþreyingu. Stjórn foreldrafélagsins þakkar öllum fyrir komuna sem og sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg. Næsti áætlaði viðburður er svo páskabingó sem verður auglýst síðar.

Fréttir frá frístundaheimilinu Hvergilandi

Starfið

Nú er haustið farið að láta sjá sig og við fögnum því. Við höfum nýtt alla daga til þess að byrja úti í allskonar veðri sem hefur verið skemmtilegt. Við höfum nýtt föstudaga sem smiðjudaga þar sem allskonar listaverk hafa sést. Við höfum málað myndir, haldið listasmiðju, spilasmiðju ásamt því að kíkja í íþróttasal, farið á bókasafnið í skólanum og verið í frjálsu vali. Það voru ánægjulegar fréttir þegar við náðum að taka inn 2. og 3. bekk alla daga og bíðum nú eftir að taka 4.bekk sem fyrst.

Afmælishátíð

Við í Hvergilandi höldum alltaf afmælishátíð í hverjum mánuði þar sem börn fá að hafa áhrif á dagskrá þann dag ásamt því að velja um köku eða ís. Haldin var afmælishátíð fyrir börn sem eru fædd í ágúst og september. Þau komu saman ásamt starfsmanni þar sem þau funduðu um daginn. Þau völdu að hafa íþróttasal, bíó, frjálsan leik, lesa í kosý horni, barbie og kókoskúlur. Einnig vildu þau fá ís í síðdegishressingu. Dagurinn heppnaðist mjög vel og fengum við æðislegt veður þannig að við sungum afmælissönginn og borðuðum úti áður en við héldum inn í smiðjurnar.

Ef ýtt er á hlekkinn hér að ofan birtist fréttabréf Vígyn félagsmiðstöðvar. Dagskrá nóvember er einnig að finna hér að neðan:
Big picture