Fréttabréf Naustaskóla

8. tbl 10. árg. 2.október 2018

Kæra skólasamfélag

Fram að þessu hefur skólastarf gengið vel og mikil gleði ánægja og ró hvílt yfir skólastarfinu. Við áttum skemmtilegan útivistardag í lok ágúst og í síðustu viku hlupu nemendur í Norræna skólahlaupinu. Leikvöllurinn gerir stormandi lukku en fyrirhugað er að öllum framkvæmdum verði lokið í byrjun nóvember. Núna er beðið eftir dúk á körfuboltavöllinn sem verður upphitaður og ætti því að nýtast okkur vel í vetur. Við stefnum að því að innleiða upplýsingatækni og forritunarkennslu enn frekar inn í okkar kennsluhætti og erum að auka við tækjakost okkar jafnt og þétt. Nú í október mun verða tekin úttekt á Naustaskóla á vegum Menntamálaráðuneytis svokallað ytra mat og munu niðurstöður þess mats eflaust styrkja okkur til þess að gera skólastarfið enn betra. Um miðjan mánuðinn er haustfrí og starfsdagur og í lok mánaðarins viðtalsdagur. Ef einhverjar spurningar vakna varðandi skólastarfið eða nám barnanna ykkar hvetjum við ykkur til að hafa samband við skólann. Með von um gott samstarf og árangursríkt skólastarf.

Bryndís Björnsdóttir skólastjóri

Símar og snjallúr

Símar eru daglegir fylgifiskar nemenda okkar – við þurfum að taka höndum saman bæði heimili og skóli við að kenna börnunum hvar og hvenær viðeigandi er að nota símana og í hvaða tilgangi. Við biðjum ykkur kæru foreldrar að ræða við börnin ykkar um að símarnir séu geymdir í skólatöskunni á skólatíma, þeir eru ekki teknir með í sund, leikfimi eða frímínútur. Það er einnig mikilvægt að þau læri að vera ekki í símanum á meðan matast er. Með samstilltu átaki getum við kennt þeim þessar einföldu símareglur sem gilda í skólanum. Við mælumst einnig til að snjallúrin séu geymd í skólatöskunni .

Haustfrí og fleira í október

Í október eru nokkrir uppbrotsdagar:

  • 5.okt er alþjóðlegur dagur kennara
  • 10.okt er alþjóðlegur geðheilbrigðisdagur
  • 12.okt er Bleikur dagur
  • 18.-19.okt er Haustfrí (frístund opin)
  • 22.okt er Starfsdagur (frístund opin)
  • 30.okt eru Viðtalsdagar (nánari tímasetningar þegar nær dregur)
  • 31.okt Hrekkjavaka

Áhugasviðkynningar hjá unglingadeildinni

Nemendur í unglingadeild unnu á dögunum áhugasviðskynningar í íslensku. Nemendur útbjuggu og fluttu kynningar um efni að eigin vali. Verkefnin voru mjög fjölbreytt og skemmtileg og fjölluðu um allt frá hinum ýmsu íþróttum yfir í tónlistarfólk, sjónvarpsþætti og jafnvel Boga Ágústsson! Sara Ragnheiður, nemandi í 10. bekk, gerði kynningu á ýmiskonar barnaefni. Sara, með hjálp frá Katrínu Björk sem einnig er í 10. bekk, gerði sér lítið fyrir og bakaði stórglæsilega og ljúffenga Svamp Sveinsson köku og gaf öllum að smakka í lok kynningarinnar. Þetta framtak vakti að sjálfsögðu mikla lukku hjá bæði nemendum og kennurum.

Íþróttaæfingar

Íþróttaæfingar á vegum íþróttafélaga byrja oft snemma á daginn og skarast oft á tíðum við stundatöflu skólans. Stundataflan er mislöng fram á daginn hjá nemendum og mikilvægt að hún sé virt og að þeir fái tækifæri til að ljúka skóladeginum. Frekari upplýsingar veitir skólastjóri.

Um einelti

Í Naustaskóla er unnið samkvæmt ákveðinni áætlun til að fyrirbyggja einelti og til að leysa þau mál sem upp kunna að koma. Eineltisáætlun skólans er birt í starfsáætlun hans en hana er einnig hægt að nálgast beint á heimasíðu skólans á slóðinni: http://naustaskoli.is/page/eineltisaaetlun

Mikilvægt er að við vinnum saman að því að fylgjast með líðan barnanna og meta hvort að þau þurfi á einhverjum tímapunkti aðstoð til að leysa mál sem snúa að samskiptum í skólanum eða vinahópnum. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að upp geta komið samskiptaerfiðleikar hjá börnunum án þess að um einelti sé að ræða. Við skilgreinum einelti þannig: Einstaklingur er lagður í einelti ef hún eða hann verður fyrir endurteknum neikvæðum verknaði eins eða fleiri einstaklinga yfir ákveðið tímabil.

Þrennt þarf að koma til svo að einelti teljist vera til staðar:


  • Árásarhneigt eða illa meint atferli.
  • Um er að ræða endurtekningu sem stendur yfir ákveðinn tíma.
  • Ójafnvægi afls og valda í samskiptum.


Þegar grunur vaknar um að um einelti geti verið að ræða er fyrsta skrefið hjá okkur að kanna samskipti nemendanna með því að fylgjast með, taka viðtöl og í sumum tilfellum leggja fyrir tengslakannanir. Ef um einelti er að ræða er svo unnið eftir ákveðnu ferli sem byggist að mestu leyti á reglulegum viðtölum við gerendur og þolendur og samstarfi við foreldra. Gott er að foreldrar hafi í huga eftirtalin einkenni sem gætu verið vísbendingar um að einelti eigi sér stað, og hafi samband við skólann ef grunsemdir vakna.


Tilfinningaleg einkenni:


  • Breytingar á skapi.
  • Tíður grátur, þarf lítið til að tárin komi fram.
  • Svefntruflanir, getur ekki sofið, fær martraðir.
  • Matarvenjur breytast, lystarleysi, ofát.
  • Þunglyndi. Líkamleg einkenni:
  • Líkamlegar kvartanir, t.d. höfuðverkur, magaverkur.
  • Kvíðaeinkenni eins og að naga neglur, stama, kækir ýmiss konar.
  • Rifin föt og/eða skemmdar eigur / hvarf á eigum.
  • Líkamlegir áverkar.


Félagsleg einkenni:


  • Lítið sjálfstraust, hræðsla og kvíði.
  • Barnið virðist einangrað, einmana, fær ekki heimsóknir og fer ekki í heimsóknir, forðast t.d. að fara í afmælisboð.


Hegðunarleg einkenni:


  • Óútskýranleg skapofsaköst og/eða grátköst.
  • Hegðunarerfiðleikar.


Skóli - einkenni:


  • Barnið hræðist að fara eitt úr og í skóla, biður um fylgd og/eða fer aðra leið.
  • Leggur fyrr af stað í skólann en venjulega eða fer seinna af stað.
  • Skróp.
  • Barnið mætir iðulega of seint.
  • Forðast ákveðnar aðstæður í skólanum t.d. leikfimi eða sund.
  • Lægri einkunnir, einbeitingarörðugleikar í námi.
  • Einangrun frá skólafélögum.


Heimili - einkenni:


  • Barnið neitar að fara í skólann.
  • Einangrar sig frá öðrum í fjölskyldunni.
  • Aukin peningaþörf hjá barninu.
  • Barnið neitar að leika sér úti eftir skóla.
Big picture
Big picture