Íslenski málhljóðamælirinn

RÉTTINDANÁMSKEIÐ FÖSTUDAGUR 18. OKTÓBER 2019

Námskeið: Ný tækni og snemmtæk íhlutun í framburði íslensku málhljóðanna


Íslenski málhljóðamælirinn er nýstárleg lausn í skimunartækni í spjaldtölvu (iPad) sem ætlað er fagaðilum leik- og grunnskóla og stofnana. Á námskeiðinu kennir Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur um málhljóðaraskanir og notkun forritsins á skýran og einfaldan hátt.


Fagfólk þekkir að mikilvægt er að bíða ekki of lengi án íhlutunar á dýrmætum tímapunkti í lífi barns.


Með Málhljóðamælinum geta fagaðilar skóla og talmeinafræðingar nú skimað allt að 6 börn á klst. Strax í lok skimunar er samantekt sjálfkrafa tilbúin með upplýsingum um stöðu barnsins. Í forritinu eru innbyggð aldursviðmið og strax kemur í ljós hvort framburður barnsins samsvarar getu jafnaldra í framburði. Bent er á hvaða málhljóð þarf að þjálfa m.a. til að laða fram réttan framburð og hljóðavitund sem mikilvæg er í umskráningarferli fyrir læsi. Þá er ekki síst mikilvægt að vita hvort þörf er á að vísa barni beint til talmeinafræðings svo ekki komi til óþarfa bið, enda biðlistar eftir talþjálfun langir.

Skráning á næsta námskeið, FÖSTUD. 18. okt. HÉR

REYKJAVÍK - Gerðuberg, Menningarmiðstöð Breiðholti. FÖSTUDAGUR, 18. okt. Námskeið og þjálfun á starfsstöð tekur alls 20 klst.

Hentar einnig vel til að skima nemendur af erlendum uppruna

Um 150 leik- og grunnskólar á Íslandi nýta nú þegar nýja tækni í spjaldtölvu, skimunarforritið Íslenska málhljóðamælinn sem skimar framburð íslensku málhljóðanna hjá nemendum.

Íslenski málhljóðamælirinn hentar vel til að forprófa öll börn á leik- grunnskólaaldri til að meta hvar barnið stendur í framburði íslensku málhljóðanna og hvernig unnt er að koma sem best til móts við þarfir þess. Þá er kjörið að skima með Íslenska málhljóðamælinum til að meta strax hvaða börnum þarf að gefa sérstakan gaum að og vísa strax til talmeinafræðings. Börn í áhættu fyrir hljóðkerfis- og lestrarörðugleikum eru gjarna með slaka hljóðavitund og framburðarfrávik.

Skimunartækið hentar jafnframt sérstaklega vel til að skima nemendur af erlendum uppruna og undirbúa þau fyrir íslenskunámið með ábendingum um framburð íslensku málhljóðanna.
Þá geta talmeinafræðingar metið framburð einstaklinga sem hafa orðið fyrir áföllum er hafa áhrif á tjáningu og framburð m.a. vegna taugafræðilegs skaða.

Snemmtæk íhlutun

Of mörg börn fara í grunnskóla með erfiðleika í framburði. Rannsóknir sýna að sérstuðningur og talþjálfun með nemendum leik- og grunnskóla upp í 9. bekk vegna framburðar- og hljóðkerfiserfiðleika, tekur langmestan tíma fagaðila. Á sama tíma eru erfiðleikar í málskilningi ekki eins sýnilegir en koma m.a. fram í námserfiðleikum, því miður oft alltof seint. Tími fagaðila sem starfa með börnum á grunnskólaaldri ætti að snúa meira að þessum hópi. Markmiðið með Íslenska málhljóðamælinum er að stuðla að snemmtækri íhlutun í framburði og hljóðkerfisþáttum og að sem flest börn fari inn í grunnskóla með góðan framburð og hljóðavitund, tilbúin fyrir læsi. Snemmtæk íhlutun í verki!

Reykjavík- námskeið föstudag 18. okt.

REYKJAVÍK - Gerðuberg, Menningarmiðstöð Í Breiðholti.

Föstudagur, 18. okt. kl. 8.30 – 16.30

ATH. Takmarkaður þátttakendafjöldi.

Námskeiðsdagur í Gerðubergi alls 8 klst.


Verð 44.700 kr (kaffiveitingar og matur innifalið). Greiða þarf þátttökugjald við skráningu.


Í framhaldi af námskeiðsdegi fara fram skimanir á vinnustað hvers þátttakanda í heimabyggð, skil á skimunargögnum til leiðbeinanda, endurgjöf á úrvinnslu gagna, stöðumat og afhending réttindaskírteinis.

Námskeið og þjálfun tekur alls 20 klst.

.

Tilkynna skal um forföll án veikinda með a.m.k. 3 daga fyrirvara svo unnt verði að bjóða öðrum þátttöku. Í tilviki veikinda (veikindavottorð).

Nánar um tilhögun

Leiðbeinandi námskeiðsins er Bryndís Guðmundsdóttir, kennari B.Ed. með íslensku sem aðalfag og M.A. CCC - SLP í talmeinafræði.

Bryndís hefur yfir 30 ára starfsreynslu sem talmeinafræðingur á Íslandi.


Á námskeiðinu verður lögð áhersla á fræðslu um málhljóðaraskanir, hljóð- og hljóðkerfisfræði og framburð íslensku málhljóðanna sem nauðsynlegt er að hafa á valdi sínu til að geta lagt skimunarprófið fyrir og túlkað niðurstöður. Þá verða helstu framburðarfrávik kynnt og útskýrð með dæmum á myndböndum. Rannsóknir um hljóðatileinkun og framburðarfrávik verða kynntar og ítarlega farið í tilhögun skimunar. Góð grunnfræðsla um málþroska og læsi. Allir þessir þættir verða tengdir kennslu á forritið.