Fréttabréf Kópavogsskóla

ágúst 2020

Í upphafi skólaárs

Undirbúningur vegna komandi skólaárs er í fullum gangi og kennarar að leggja lokahönd á allt skipulag. Búið er að ráða allt starfsfólk og framkvæmdum innandyra í skólahúsinu er lokið en utandyra en verið að klæða suðurhlið skólans. Það verk er á lokametrunum og hefur ekki áhrif á skólabyrjunina. Í sumar var einnig skipt um þakjárn á stjórnunarálmu og skipt var um alla glugga og gler á suðurhlið. Vinnuaðstaða kennara var stækkuð og útbúið gott fundaherbergi auk lagfæringa á nokkrum rýmum.


Sex nýir kennarar eru að hefja störf og einn frístundaleiðbeinandi auk Bergdísar Finnbogadóttur sem er nýr deildarstjóri yngra stigs (1.-5. bekkur). Starfsmannalisti á heimasíðu er uppfærður og þar eru nöfn og tölvupóstföng allra starfamanna skólans.


Það er óhætt að segja að skólaárið 2019-2020 hafi verið sérkennilegt og viðbúið er að það skólaár sem nú er að hefjast verði það einnig um margt. Það er ánægjulegt að skólasókn nemenda verður með eðlilegum hætti frá fyrsta skóladegi og engin frávik frá stundaskrá hvað sem verður. Samkomutakmarkannir verða þó áfram í gildi og foreldrum því ekki heimilt að koma inn í skólahúsið nema að hafa sambandi við skrifstofu/starfsmenn og bóka tíma. Líklegt er að þær hömlur verði í gildi þar til takmarkanir vegna COVID verða felldar úr gildi í þjóðfélaginu.


Allir árgangar verða með ,,sinn" inngang og þurfa að koma að honum í upphafi skóladags og það verður kynnt fyrir þeim á þriðjudaginn.


  • nemendur í 1. og 2. bekk nota anddyri við hliðina á íþróttahúsinu
  • nemendur 3. og 4. bekkjar anddyri sem vísar að Söngvaborg (tónmenntastofu)
  • nemendur 5. bekkjar verða í Skýjaborg og Stjörnuborg (færanlegu kennslustofurnar) en nota einnig inngang gegnt Söngvaborg þegar þeir koma í hádegismat
  • nemendur í 6. og 7. bekk koma inn um aðalinngang
  • nemendur unglingastigs ganga um unglingaanddyri.

Ef upp kemur smit

Samanlagður fjöldi nemenda og starfsmanna á venjulegu skóladegi eru um 440 einstaklingar. Samskipti þessara einstaklinga utan skóla eru við fjölskyldur og vini og því er alltaf töluverð hætta á að upp komi smit. Það er því gríðarlega mikilvægt að allir gæti að smitvörnum og fylgi þeim reglum sem sóttvarnalæknir gefur út því ef smit kemur upp getur þurft að loka skólanum. Því bið ég alla að fylgja reglum sótvarnalæknis og ekki senda börn í skólann ef minnsti grunur er á að þau eða ættingjar þeirra hafi sýkst.


Upplýsingasíða: Spurt og svarað: skólastarf og COVID-19

Mötuneyti

Þeir nemendur sem voru í mataráskrift þegar skóla lauk sl. vor færast sjálfkrafa yfir á nýtt skólaár og þarf því ekki að skrá þá aftur. Til að skrá börn í og úr mataráskrift þarf að fara inn á Þjónustugátt á heimasíðu Kópavogsbæjar en matseðlana má sjá á vef Kópavogsskóla. Breytingar á áskrift þurfa að eiga sér stað fyrir 20. hvers mánaðar og taka þá gildi frá næstu mánaðamótum.

Haustfundir árganga

Þar sem samgöngutakmarkanir eru í gildi og aðgengi að skólahúsinu takmarkað verða haustfundir með breyttu sniði. Verið er að skoða og útfæra þá möguleika sem eru í stöðunni og þeir kynntir foreldrum um leið og hægt er. Í starfsáætlun er gert ráð fyrir fundunum dagana 8.-10. september og dagsetningarnar munu halda sér.

Stuðningsþjónusta

Fyrir rúmu ári fékkst tímabundin heimild til að ráða iðjuþjálfa til starfa við Kópavogsskóla. Það kom fljótt í ljós að sérþekking hans er mikilvæg fyrir skólastarfið og nú hefur fengis heimild til áframhaldandi ráðningar. Iðjuþjálfi starfar mest á yngsta stigi skólans en nánari upplýsingar um hlutverk hans er að finna á vef Kópavogsskóla.

Skólaráð - grenndarfulltrúi

Annar foreldrafulltrúi í skólaráði Kópavogsskóla lét af störfum sl. vor. þegar barn hans lauk grunnskólagöngu. Á aðalfundi foreldrafélagsins í maí var þáverandi grenndarfulltrúi kjörinn sem fulltrúi foreldra í ráðið og því leitum við að grenndarfulltrúa fyrir komandi skólaár. Hlutverk skólaráðs er skilgreint í reglugerð um skólaráð en skólaráð Kópavogsskóla fundar á 6-8 vikna fresti í starfstíma skólans. Þeir sem vilja gefa kost á sér genndarfulltrúi eru beðnir að hafa samband við skólastjóra (goa@kopavogur.is) en skólaráð í heild velur grenndarfulltrúann.

Mentor app - uppfærsla

Mentor býður upp á app ætlað nemendum og aðstandendum. Appið eru sótt í „Google Play store“ (Android) eða „App Store“ (iOS) með því að slá inn „Infomentor home“ (nemendur/aðstandendur) í leitarslóðina.


Þegar búið er að sækja appið er komið að skrefi tvö sem er að para saman snjalltækið og aðgang í tölvu. Til að para appið við símann þarft þú að skrá þig inn á Minn Mentor í gegnum vafra í tölvu eða snjalltæki (www.infomentor.is) og velja andlitsmerkið í hægra horni. Undir „App stillingar“ velur þú „para aðgang“ og þá ertu beðinn um að velja þér fjögurra stafa PIN númer og endurtaka það. Að þessu loknu ættir þú að vera kominn inn.


Ef þú velur að setja appið upp í gegnum tölvu býr kerfið til QR kóða sem þú parar við símann með myndavélinni.

(Ath. hafi appið verið sótt í gegnum Minn Mentor þá þarf að útskrá sig og skrá sig inn á ný til að geta parað appið við svæðið).