Augnstýring í Klettaskóla

Hvatingarverðlaun og barnamenningarhátíð

Hvatningarverðlaun veitt Klettaskóla

Á Öskudagsráðstefnunni 2017 voru afhent hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs fyrir framsækið grunnskólastarf og hlotnaðist okkur í Klettaskóla sá heiður að þessu sinni fyrir þróun á augnstýrða tölvubúnaðinum. Það er einstaklega ánægjulegt að taka við þessum verðlaunum og finna þann stuðning og viðurkenningu sem þetta verkefni hlýtur. Má segja að Öryggismiðstöðin hafi hrint þessu verkefni af stað upphaflega þar sem þeir lánuðu skólanum búnað til að prófa. Reykjavíkurborg sýndi þessu verkefni í kjölfarið mikinn áhuga og greiddi götu okkar við búnaðarkaup. Nú er augnstýribúnaður í fjórum kennslustofum og auk þess í sérstöku augnstýrirými. Með tjáskiptaforrit og fjölbreytta leiki munum við halda áfram að kenna nemendum og leiða þá inn í heim sem fullur er af möguleikum til tjáskipta og afþreyingar.

Barnamenningarhátíð 2017

Big image
Nemendur munu taka þátt í barnamenningarhátíð 2017. Í vetur hafa nemendur unnið myndverk með forriti sem tengt er augnstýringunni. Augnhreyfingar nemenda skapa listaverk þar sem litir og form blandast saman í anda listamannsins Jackson Pollock. Notast er við Tobii tjáskiptaforritið og um er að ræða viðbót sem hægt er að sækja í gagnabanka Tobii (Pageset Central). Í gagnabankanum eru ýmis gagnleg verkefni og þar á meðal verkfæri sem kallast “Tobii Dynavox Jackson Pollock Painting”. Þetta forrit gerir nemendum kleift að skapa skemmtileg og falleg myndverk sem eru um leið lýsandi fyrir þeirra eigin persónu og hvernig þeir nota augun sín. Sýningin verður sett upp í Ráðhúsinu og opnuð formlega miðvikudaginn 26. apríl. Hér fyrir neðan má sjá dæmi frá nokkrum nemendum
Big image

Söngvakeppnin 2017

Nemendur kynntu sér lögin sem komust í úrslit í söngvakeppni sjónvarpsins. Þeir mynduðu sér skoðanir með því að velja sjálfir lög. Hvert og eitt þeirra gat valið sitt uppáhaldslag í tónlistaspilaranum. Hér fyrir neðan er Rakel Ósk að hlusta á og taka vel undir í hennar uppáhaldslagi:
Júróstemning

Spjall í matartímanum

Gaman er að eiga spjall í matartímanum. Þó að allt kapp sé lagt á að nemendur borði vel í skólanum þá er óneitanlega gaman að fá svona athugasemd þegar maturinn þykir ekkert sérstakur. Athugið að þegar smellt er á myndina stækkar hún.