Fréttabréf Norðlingaskóla

28. september 2018

Big picture
Kæru foreldrar við Norðlingaskóla!

Efni þessa fréttabréfs:

  • Það sem liðið er af skólaárinu
  • Göngum í skólann og Ólympíuhlaup ÍSÍ
  • Foreldraskólavika
  • Samráðsdagur og vetrarleyfi
  • Hrekkjavaka
  • UPRIGHT

Það sem liðið er af skólaárinu

Haustið hefur verið sólríkt í Norðlingaholtinu, fyrstu vikur skólaársins hafa borið þess merki og farið afar vel af stað.


Fyrsta föstudag í mánuði lífgum við upp á skólastarfið með öðruvísi dögum og fyrsti slíki föstudagur þessa skólaárs var hattadagur þar sem nemendur og starfsfólk skörtuðu hinum ýmsu höfuðfötum og vakti það mikla lukku.


Í september fóru fram námskynningar fyrir foreldra þar sem kennarar kynntu námsefni og kennslufyrirkomulag á hverju stigi fyrir sig. Við þökkum þeim fjölmörgu foreldrum sem mættu kærlega fyrir komuna.


Sjöundi bekkur þreytti samræmt próf í íslensku og stærðfræði í síðustu viku og fjórði bekkur í þessari viku, það gekk afar vel fyrir sig og nemendurnir stóðu sig með sérstakri prýði.


Rósaball unglingastigsins var haldið í gær og fór það einstaklega vel fram. Alveg hreint frábærir fyrirmyndarunglingar sem við eigum hér í Norðlingaskóla!

Göngum í skólann og Ólympíuhlaup ÍSÍ

Í októberbyrjun mun skólastarfið litast af hreyfingu og íþróttum. Í dag, föstudag, koma nemendur heim með upplýsingar um Göngum í skólann sem stendur yfir 1.-5. október. Göngum í skólann er alþjóðlegt verkefni og höfum við í Norðlingaskóla tekið þátt í því. Með verkefninu eru börn hvött til að tileinka sér virkan ferðamáta þegar farið er til og frá skóla ásamt því að auka færni þeirra til að vera örugg í umferðinni.


Föstudaginn 5. október er svo öðruvísi dagur októbermánaðar en það er íþróttadagur. Þann dag hittast allir nemendur á söngstund klukkan 8:15 og verður gaman að sjá hvernig starfsfólk og nemendur klæða sig upp í tilefni dagsins.


Ólympíuhlaup ÍSÍ (áður þekkt sem Norræna skólahlaupið) fer svo fram mánudaginn 8. október en þá er gott að mæta í viðeigandi skóm og klæðnaði. Hægt er að velja um nokkrar vegalengdir og eru foreldrar velkomnir að hlaupa með okkur.

Foreldraskólavika

Foreldrar eru ávallt velkomnir í Norðlingaskóla en í foreldraskólavikunni 8.-12. október hvetjum við foreldra sérstaklega til að koma í heimsókn og sjá hvað nemendur eru að fást við í skólanum.

Samráðsdagur og vetrarleyfi

Næstkomandi þriðjudag, 2. október, er samráðsdagur í Norðlingaskóla. Nemendur mæta með foreldrum sínum í viðtal til umsjónarkennara og ættu flestir að vera búnir að bóka tíma hjá umsjónarkennara en hægt er að skrá sig í viðtal til miðnættis þann 1. október. Frístundaheimilið Klapparholt verður opið á samráðsdegi fyrir þá nemendur sem eru sérstaklega skráðir þann dag. Við bendum foreldrum á að þeir óskilamunir sem hafa safnast upp verða settir fram í anddyri.


Vetrarleyfi er 18.-22. október en þá er Klapparholt einnig lokað. Við vonum að allir njóti vetrarleyfisins og mætum endurnærð til starfa þriðjudaginn 23. október.

UPRIGHT

Norðlingaskóli hefur ákveðið að taka þátt í afar merkilegu stóru samevrópsku verkefni sem kallast UPRIGHT og miðar að því að efla vellíðan og seiglu krakkanna okkar og við hér í skólanum teljum okkur mjög heppin að hafa fengið þetta tækifæri. Þátttakendur eru nemendur í 7. og 9. bekk ásamt foreldrum og starfsfólki.
Big picture
Markmið verkefnisins er að þróa námsefni og námsumhverfi sem á að stuðla að vellíðan meðal ungmenna með heildrænni nálgun í skólasamfélaginu, m.a. með því að efla seiglu (e. resilience) þeirra; þ.e.a.s. getu til að takast á við krefjandi verkefni unglingsáranna, en það er tímabil ævinnar sem einkennist af örum breytingum. Þá verður einnig unnið með það að takast á við áskoranir, eflingu sjálfstrausts og félags- og tilfinningahæfni. Jafnframt er verkefninu ætlað að stuðla að góðri líðan skólasamfélagsins í heild þar sem kennarar og annað starfsfólk skólanna ásamt foreldrum eru lykilpersónur.

Hrekkjavaka

Það er orðin hefð hér í Norðlingaskóla að halda upp á hrekkjavöku ár hvert og því má búast við hvers kyns furðuverum á sveimi föstudaginn 26. október.


Starfsfólk Norðlingaskóla óskar öllum góðrar helgar!