Áfangar í boði í fjarnámi

Haustið 2021

ATH verður ekki í boði v. lélegrar þátttöku - Aukinn lesskilningur og frumhugtök danskrar málfræði - DANS1LF05

Brautarkjarni

Undanfari: Enginn

Í þessum áfanga skal fyrst og fremst leitast við að auka sjálfstraust nemandans í dönsku. Stuttir textar með einföldum orðaforða eru lesnir og ræddir. Orð sem bera hvern texta uppi eru þjálfuð með stuttum ritunaræfingum og hlustunaræfingum sem tengjast efni viðkomandi texta. Kennd eru undirstöðuatriði danskrar málfræði, s.s. nútíð sagna. Orðaforði er og styrktur með ítrekuðum spurningum úr texta. Hlustun er þjálfuð og reynt er að tengja hana þeim orðaforða sem unnið hefur verið með í áfanganum. Léttar og einfaldar talæfingar eru gerðar í tengslum við orðaforða les- og ritunarefnis. Einfaldar málvenjur eru kenndar

Byrjunaráfangi í eðlisfræði fyrir náttúruvísindabraut - EÐLI2BY05

Brautarkjarni / Valáfangi

Undanfari: NÁTT1GR05 og STÆR2AF05 eða sambærilegir áfangar

Í þessum grunnáfanga í eðlisfræði er farið yfir hreyfingu hluta eftir beinni línu, vigra í tvívíðu rúmi, kraftalögmál Newtons, orkuvarðveislu, skriðþunga, þrýsting og ljósgeislafræði. Áhersla verður á skilning nemandans á efninu og að hann geti tengt það við raunveruleg vandamál.

Efnisfræði og verktækni byggingagreina - EFRÆ1BV05

Brautarkjarni á grunnbraut mannvirka og byggingagreina

Undanfari: Enginn

Í áfanganum fær nemandinn yfirsýn yfir helstu efni og efnisflokka sem notaðir eru við bygginga- og mannvirkjagerð ásamt leiðsögn við rétt efnisval eftir verkefnum, aðstæðum og umhverfi. Fjallað er um tré sem smíðaefni og uppbyggingu þess, plötuefni, festingar, steinsteypu, múr og múrefni, málma og bendistál, pípulagnaefni, plastefni, málningar- og spartlefni, fúgu- og þéttiefni, lím, einangrun, gler, þakefni, klæðningarefni, gólfefni og veggfóður. Gerð er grein fyrir uppruna efnanna, flokkun þeirra, merkingum, eiginleikum og hlutverki. Nemandinn kynnist viðfangsefnum og fagsviði húsasmiða, húsgagnasmiða, málara, múrara, pípulagningarmanna og dúklagningarmanna. Fjallað er um notkun helstu véla og verkfæra sem algengust eru í iðngreinum og farið yfir öryggismál.

Þú getur fengið aðstoð við valið!

Hægt er að fá aðstoð við valið hjá umsjónarkennurum, náms- og starfsráðgjafa eða aðstoðarskólameistara.

Grunnáfangi í ensku - ENSK1GR05

Brautarkjarni

Undanfari: Enginn

Lestur hlustun og ritun: Lesnir eru og hlustað á stutta texta. Lögð er áhersla á samtímatexta og orðaforða daglegs lífs. Farið er í smásögur og stuttar skáldsögur og áhersla lögð á innihald textans. Farið er í grunnatriði þess að lesa milli lína og túlka texta. Notast er við hlustun í yfirferð hluta lestrarefnisins. Lögð eru fyrir stutt ritunarverkefni. Ritun er bæði tengd lesnum textum og reynslu úr daglegu lífi. Prófað er munnlega úr innihaldi skáldsagna og stuttra hagnýtra texta. Unnið er með málfræði. Farið er yfir alla grunnmálfræði með áherslu á sagnir, einfaldar tíðir, eintölu/fleirtölu, eignarfall, lýsingarorð/atviksorð og greini nafnorða. Málfræðin er tengd öðrum þáttum í kennslu eins og ritun og lestri texta.

Enska, Menning, tjáning, lestur - ENSK2LM05

Brautarkjarni / Valáfangi

Undanfari: Nemendur hafa lokið grunnskóla með einkunnina B eða hærri eða ENSK1GR05 eða sambærilegur áfangi

Áfanginn miðar að því að nemendur verði læsir á flóknari texta en áður og að þeir þjálfist í að tileinka sér aukinn orðaforða. Nemendur skulu geta tjáð hugsun sína varðandi ólík efni í ræðu og riti og beitt rökum. Áhersla er lögð á að nemendur þjálfi sjálfstæð vinnubrögð og tileinki sér árangursríka námstækni þar sem þeir nýta þau hjálpargögn sem aðgengileg eru með forritum, á vef eða í bókum. Nemendur vinna viðameiri verkefni sem lúta að mismunandi menningu og siðum í löndum þar sem enska er töluð sem móðurmál eða ríkismál og bera saman við Ísland og íslenska menningu. Áfram verður unnið með undirstöðuatriði enskrar málfræði og málnotkunar, unnið verður með ýmiskonar efni frá mismunandi menningarheimum og með fréttatengt efni sem snertir málefni líðandi stundar.

munið að huga að undanförum!!

Bókmenntir, orðaforði og ritgerðir - ENSK3OG05

Brautarkjarni / Valáfangi

Undanfari: ENSK2TM05 eða sambærilegur áfangi

Bókmenntir - Ljóðagreining - Ritgerðasmíði - vinna með heimildir

Fötlun og samfélag - FÉLA2FÖ05

Valáfangi (Bara kenndur í fjarnámi)

Undanfari: Enginn

Lögð er áhersla á kynningu á ýmiss konar frávikum í andlegum og líkamlegum þroska. Farið verður í skilgreiningar á ýmsum tegundum fatlana, einkennum og orsökum. Leitast verður við að skoða hvaða áhrif mismunandi fötlun hefur á félagslega stöðu og skólagöngu fatlaðs fólks. Fjallað verður um mikilvægi frumgreiningar og snemmtækrar íhlutunar ásamt því að skoða þjálfunar- og meðferðarþarfir þeirra sem búa við fötlun. Fjallað verður um hvaða áhrif fötlun hefur á einstaklinginn og fjölskyldu hans, mikilvægi réttrar aðstoðar og stuðnings og hvernig eigi að leita eftir þeim rétti sem fólki ber í þessu sambandi. Áhersla er lögð á að efla skilning nemenda á margbreytileika mannlegra aðstæðna og virðingu fyrir öllu fólki.

Kenningar og rannsóknaraðferðir - FÉLA2KR05

Brautarkjarni / Valáfangi

Undanfari: FÉLV1ÞF05 eða sambærilegur áfangi

Í þessum áfanga er lögð áhersla á að fjalla um frumkvöðla félagsfræðinnar og helstu kenningar greinarinnar. Fjallað er um tiltekna þætti samfélagsins í ljósi mismunandi kenninga og nokkrar alþekktar rannsóknir á sviði félagsvísindanna teknar til skoðunnar. Áhersla er lögð á að nemendur noti félagsfræðileg hugtök og félagsfræðilegt innsæi við túlkun samfélagslegra málefna. Eitt helsta markmið áfangans er að nemendur öðlist nánari og dýpri skilning á hugtökum, kenningum og rannsóknaaðferðum greinarinnar.

PASSIÐ UPP Á ÞREPASKIPTI!!

Námsbrautin skiptist í kjarna og frjálst val. Kjarninn samanstendur af áföngum sem nemendur á öllum stúdentsbrautum taka . Gæta þarf að því að kröfum um fjölda eininga á hæfniþrepi sé fullnægt.


  • Einingar á fyrsta hæfniþrepi mega vera 17 - 33%
  • Einingar á öðru hæfniþrepi mega vera 33 - 50%
  • Einingar á þriðja hæfniþrepi þurfa að vera 17 - 33%

Þróun félagsvísinda - FÉLV1ÞF05

Brautarkjarni

Undanfari: Enginn

Í þessum byrjunaráfanga fá nemendur innsýn í mismunandi greinar félagsvísindanna með sérstaka áherslu á félagsfræði, sálfræði og uppeldisfræði. Farið er í upphaf og sögu félagsvísinda, mismunandi stefnur og sjónarmið og nokkra helstu frumkvöðla innan félagsvísindanna. Fjallað er um grunneiningar samfélagsins og áhrif þess á einstaklinginn og líf hans. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist þekkingu á umhverfi sínu og geti myndað sér skoðanir á málefnum sem efst á baugi eru hverju sinni. Nemendur fræðast um þá þætti sem hafa áhrif á líf barna og fullorðinna í nútímaþjóðfélagi. Einnig er þeim gefin innsýn í þá hugmyndafræði sem nútíma félagsvísindi byggja á, mismunandi viðfangsefni þeirra og mikilvægi í daglegu lífi. Sem dæmi um einstaka efnisþætti má nefna: félagskerfið, hagkerfið og stjórnkerfið, erfðir og umhverfi, frjáls vilji, löghyggja, félagsmótun, þróun menntunar, kynhlutverk og jafnfrétti, menning og trúarbrögð, fjölskyldan, vinna og atvinnulíf.

Reglugerðir, verkferli og öryggismál - FRVV1SR03

Brautarkjarni á grunnbraut mannvirkja og byggingagreinar

Undanfari: Enginn

Í áfanganum er fjallað um bygginga- og mannvirkjagerð með áherslu á reglugerðir, verkferli og öryggismál. Nemandinn lærir um undirbúning og upphaf framkvæmda, hlutverk og ábyrgð einstakra fagstétta, skipulag og stjórnun á vinnustað, samstarf og samskipti, áætlanagerð og gæðastýringakerfi. Kennd er notkun hlífðarbúnaðar, meðferð hættulegra efna og farið yfir notkun hjálpartækja og búnaðar við mismunandi verk. Nemandinn fær kynningu á grundvallaratriðum hollustuhátta og vinnuverndar og lærir um öryggismál á vinnustað. Einnig er nemandanum gerð grein fyrir námsleiðum í bygginga- og mannvirkjagreinum á framhalds- og háskólastigi.

Undirstöðuatriði í teiknifræðum - GRUN1FF04

Brautarkjarni á grunnbraut mannvirkja og byggingagreina

Undanfari: Enginn

Í áfanganum er lögð áhersla á að nemandinn öðlist almenna undirstöðuþekkingu og þjálfun í teiknifræðum. Fjallað er um fallmyndun, ásmyndun og fríhendisteikningu. Nemandinn öðlist færni í meðferð og notkun mæli- og teikniáhalda, myndrænni vinnu með viðfangsefni starfsgreina. Að auki hlýtur nemandinn grunnþjálfun í gerð vinnuteikninga og þrívíðra rissteikninga ásamt lestri teikninga.

Almenn hjúkrun - HJÚK1AG05

Brautarkjarni á sjúkraliðabraut

Undanfari: Enginn

Í áfanganum er fjallað um sögu og hugmyndafræði hjúkrunar. Kynnt eru lög og reglugerðir sem lúta að heilbrigðisþjónustu á Íslandi, siðareglur sjúkraliða og hvað felst í hugtakinu fagmennska. Fjallað er um umhyggjuhugtakið, andlegar, líkamlegar og félagslegar þarfir skjólstæðinga. Fjallað er um þætti sem hafa áhrif á líðan og breytingar á líkamsstarfsemi. Auk þess er fjallað um umönnum sjúklinga og þætti sem hafa áhrif á sjálfsumönnun. Farið er í hjúkrunargreiningar og skráningu hjúkrunar.

Hjúkrun fullorðinna 1 - HJÚK2HM05

Brautarkjarni á sjúkraliðbraut

Undanfari: HJÚK3ÖH05

Fjallað er um umhyggjuhugtakið og sjálfsumönnun ásamt helstu hjúkrunarkenningum og tengslum þeirra við starfsvettvang. Fjallað er um hjúkrunarferli og faglega hjúkrunarskráningu. Fjallað er um hjúkrun sjúklinga með bráða- og langvinna sjúkdóma sem tengjast eftirtöldum kerfum: hjarta- og æðakerfi, öndunarfærakerfi, meltingarkerfi, þvag- og kynkerfum. Fjallað er um hjúkrun sjúklinga með illkynja sjúkdóma. Í áfanganum er lögð áhersla á tengingu fræðilegrar þekkingar við skipulagningu og framkvæmd hjúkrunar.

Hjúkrun fullorðinna 2 - HJÚK2TV05

Brautarkjarni á sjúkraliðabraut

Undanfari: HJÚK2HM05

Fjallað er um hjúkrun sjúklinga með bráða- og langvinna sjúkdóma sem tengjast eftirtöldum kerfum: taugakerfi, innkirtlakerfi, ónæmiskerfi og stoðkerfi. Auk þess er fjallað um smitgát, sár og sárameðferð, verki og verkjameðferð. Í áfanganum er lögð áhersla á tengingu fræðilegrar þekkingar við skipulagningu og framkvæmd hjúkrunar.

Hönnun skipa - HÖSK2SS05

Brautarkjarni

Undanfari: Enginn

Í þessum áfanga er fjallað um skipið og einstaka hluta þess, m.a með tilliti til nafngifta og þeirra hlutverka sem einstök stoðkerfi um borð í skipum gegna. Nemendur kynnast teikningum af fyrirkomulagi skipa, af dæmigerðu geymafyrirkomulagi, teikningum af brunaniðurhólfun og kerfisteikningum af vélbúnaði og rafbúnaði skipa. Veita á nemendum almenna undirstöðuþekkingu um gerð, fyrirkomulag og búnað skipa með tilliti til þess hlutverks sem þeim er ætlað að gegna, um hönnun þeirra með tilliti til styrks, flothæfni, farsviðs og ytri umhverfisþátta og um helstu stoðkerfi þeirra með tilliti til vélbúnaðar og raforku. Æskilegt er að hluti kennslunnar fari fram um borð í skipi þar sem nemendur kynna sér fyrirkomulag þess og búnað.

Föll, deildun og markgildi - STÆR3DF05

Brautarkjarni / Valáfangi

Undanfari: STÆR2HV05 eða sambærilegur áfangi

Efni áfangans er stærðfræðigreining á margliður, vísis- og lograföll, markgildi og deildun algengra falla. Hagnýt verkefni leyst með deildareikningi. Áhersla er lögð á að nemendur fái góða innsýn í deildareikning og geti rökstutt helstu reglur þar að lútandi. Gert er ráð fyrir að nemendur kanni föll með vasareiknum og tölvuforritum en einnig án þeirra.

Almenn stjörnufræði - STJÖ2SH05

Bundið áfangaval / Valáfangi

Undanfari: NÁTT1GR05 eða sambærilegur áfangi

Viðfangsefni þessa áfanga er stjörnuhimininn og þau fyrirbæri sem þar finnast. Fjallað er um eiginleika rafsegulbylgja og aðferðir stjörnufræðinga við rannsóknir með þeim, mismunandi gerðir sjónauka, reikistjörnur og önnur fyrirbrigði sólkerfisins, eðli sólarinnar, líf sólstjarna frá fæðingu til dauða, vetrarbrautir, fjarfyrirbrigði, heimsmynd nútímans og leit að lífi á öðrum hnöttum. Nemendur læra að lesa á stjörnukort og nýta sér upplýsingatækni við stjörnuathuganir og stjörnuskoðun. Einnig er fjallað um sögu stjörnufræðinnar, geimrannsóknir og geimferðir.

Passið upp á þrepaskipti!

Námsbrautin skiptist í kjarna og frjálst val. Kjarninn samanstendur af áföngum sem nemendur á öllum stúdentsbrautum taka . Gæta þarf að því að kröfum um fjölda eininga á hæfniþrepi sé fullnægt.


  • Einingar á fyrsta hæfniþrepi mega vera 17 - 33%
  • Einingar á öðru hæfniþrepi mega vera 33 - 50%
  • Einingar á þriðja hæfniþrepi þurfa að vera 17 - 33%

Barnabókmenntir - ÍSLE2BB05

Valáfangi (Bara kenndur í fjarnámi)

Undanfari: Einkunnin B við lok grunnskóla eða ÍSLE1LL02, ÍSLE1MF01 og ÍSLE1ST02 eða sambærilegt.

Í áfanganum fá nemendur yfirlit yfir sögu og þróun íslenskra barna- og unglingabóka. Auk þess kynnast ýmsum flokkum barnabóka, svo sem þjóðsögum og ævintýrum, myndabókum, bókum fyrir stálpuð börn, myndasögum og unglingabókum. Í áfanganum eru því lesnar margar barnabækur, íslenskar og þýddar, af ýmsum gerðum auk fræðigreina um efnið. Einnig er barnaefni skoðað í tengslum við bókmenntirnar. Markmiðið er að nemendur geri sér grein fyrir gildi barnabóka og þeim möguleikum sem markvisst starf með þær býður upp á. Í tengslum við efni áfangans fá nemendur þjálfun í notkun spjaldtölva í starfi með börnum.

ATH verður ekki í boði v. lélegrar þátttöku - Líffæra og lífeðlisfræði - LÍOL2SS05

Bundið áfangaval / Valáfangi

Undanfari: NÁTT1GR05 eða sambærilegur

Farið er í grundvallarhugtök líffærafræðinnar út frá latneskri nafngiftafræði og lífeðlisfræðileg ferli útskýrð. Fjallað er um svæðaskiptingu líkamans, áttir, líkamshol, skipulagsstig, byggingu og starfsemi frumna og vefja, flutning efna yfir himnur, jafnvægishneigð og afturvirk kerfi. Farið er í byggingu og starfsemi þekjukerfis: lagskipting húðar og líffæri; beinakerfis: beinmyndun, flokkun beina, beinagrind, brjósk, liðir og hreyfingar; vöðvakerfis: innri og ytri gerð vöðva, vöðvasamdráttur, helstu vöðvar líkamans; taugakerfis: taugavefur, taugaboð, taugaboðefni, flokkun taugakerfis og starfsemi, skynfæri og skynjun; innkirtlakerfis: innkirtlar og virkni hormóna.

Rúm- og tölfræði, líkinda- og viðskiptareikningur - STÆR2BR05

Valáfangi

Undanfari: Einkunnin B við lok grunnskóla eða STÆR1GA05 + STÆR1RU05


Í áfanganum er fjallað um rúmfræði með teikningum, tölfræði, líkindareikning og viðskiptareikning.

Helstu efnisatriði:

• Grundvallarhugtök og reglur í evklíðskri rúmfræði.

• Mælingar í rúmfræði og mikilvægi nákvæmi

• Grunnatriði tölfræði og líkindareiknings: Myndrit, meðaltal, miðgildi, tíðasta gildi, staðalfrávik, spönnun, einföld líkindi og fleira

• Talningaraðferðir, flokkun gagnasafna og framsetning niðurstaðna

• Viðskiptareikningur: Prósentur, álagning, afsláttur, virðisaukaskattur, vextir, vísitölur og fleira

• Hagnýt verkefni um notkun viðskiptareiknings

Upplýsingatækni - UPPT1UT05

Valáfangi (Bara kenndur í fjarnámi)

Undanfari: Enginn

Í áfanganum læra nemendur að nota ritvinnsluhugbúnað til að skrifa ritgerðir og töflureikni og glæruforrit til að setja fram upplýsingar á margvíslegu formi við vinnslu verkefna í námi sínu. Fjallað um tölvubúnað og hvernig best má hagnýta hann í námi. Fjallað verður um almenn atriði upplýsingalæsis, m.a. er farið yfir gögn um upplýsingaöflun, útgáfuform upplýsinga, bókasöfn, handbækur og tölvusamskipti.

Þroski og hreyfing - ÍÞRF2ÞH05

Valáfangi (Bara kenndur í fjarnámi)

Undanfari: Enginn

Í áfanganum læra nemendur um þroska barna á leik- og grunnskólaaldri. Fjallað er um alla helstu þroskaþættina en einkum er horft til skyn- og hreyfiþroska, líkams- og félagsþroska og hvar börn eru stödd á mismunandi aldursskeiði. Fjallað er um mikilvægi hreyfináms, áherslur í hreyfinámi út frá aldri og hvernig nýta má hreyfinám til að efla áðurnefnda þroskaþætti. Jafnframt er lögð áhersla á að nemendur kynnist notkun ýmiss konar áhalda og öðlist innsýn í hvaða leikir og þjálfun henta fyrir mismunandi aldursskeið. Fjallað er um áætlanagerð og skipulag hreyfináms ásamt fjölbreyttum möguleikum til hreyfináms með tilliti til mismunandi aðstæðna og umhverfis. Þroskapróf og tilgangur þeirra eru kynnt og fá nemendur innsýn í hvernig greina megi frávik frá eðlilegum líkams- og hreyfiþroska. Þeir fá einnig innsýn í kennsluhætti sérkennslu í íþróttum.

Uppeldis- og menntunarfræði - UPPE3UT05

Bundið val / Valáfangi (Bara kenndur í fjarnámi)

Undanfari: UPPE2UM05

Í áfanganum er fjallað um ýmis svið uppeldis og mennta á Íslandi. Nemendur skoða hugmyndafræði og markmið leik-, grunn- og framhaldsskóla og vinna verkefni sem tengjast þessum skólastigum. Einnig verkefni sem tengjast forvörnum, fjölmenningu, áhrif dægurmenningu og tómstundir barna og unglinga. Ýmsir áhrifaþættir í uppeldi eru skoðaðir svo sem kynhlutverk, sorg og viðbrögð við áföllum, skilnaður, einelti og ofbeldi. Áhersla er lögð á lýðræðislega kennsluhætti og ábyrgð, virkni og áhuga nemenda.

munið að huga að undanförum!!