Setbergsannáll

Febrúar 2020

Frá stjórnendum

Ágætu foreldrar og forráðamenn.


Með þessum orðum sendum við okkar bestu kveðjur til ykkar allra með von um að þið njótið þeirra frídaga sem í vændum eru. Ýmislegt hefur á daga okkar drifið undanfarið og hafa nemendur, kennarar og annað starfsfólk staðið sig vel við að vinna úr þeim verkefnum sem við höfum fengist við að undanförnu en nú er hefðbundið skólastarf hafið að nýju okkur öllum til léttis og gleði. Í liðinni viku voru hér fulltrúar Menntamálayfirvalda sem er hluti af ytra mati á skólanum. Allt skipulag á þeirri vinnu gekk vel og eru öllum þeim sem þátt tóku færðar þakkir fyrir þeirra framlag.


Skólastarf tekur sífelldum breytingum og leitast starfsfólk skólans ávallt við að bæta skólastarfið með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Námsumhverfi, verkefnavinna og verkefnaskil eru með fjölbreyttum hætti, samþætting námsgreina skilar sér í fjölbreyttara starfi og við leggjum einnig áherslu á að hafa gaman saman og nýta hæfileika okkar allra. Sviðslistir og skapandi starf hefur að undanförnu öðlast aukinn sess í skólastarfinu og óhætt að segja að oftast ríki gleði í húsi. Starf okkar hefur meðal annars tekið beytingum í ljósi þess sem fram kom á síðasta skólaþingi og munum við áfram taka mið af því sem fram kemur á slíkum vettvangi.


Nýliðinn öskudagur tókst afar vel með glensi og gleði. Allir fóru heim glaðir í bragði með nammi í poka í boði foreldrafélags skólans. Bestu þakkir til foreldra fyrir þeirra hlutdeild í deginum.


Með góðri kveðju til ykkar allra,

María Pálmadóttir, skólastjóri og Margrét Ólöf Jónsdóttir, aðstoðarskólastjóri.

Innleiðing Barnasáttmálans í Hafnarfjarðarbæ

Þann 27, mars 2019 undirrituðu Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar samstarfssamning, en með honum hóf Hafnarfjarðarbær vinnu við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og stefnir bæjarfélagið að því að hljóta viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag UNICEF á Íslandi.


Til að öðlast betri skilning á nokkrum atriðum er lúta að þekkingu barna á Barnasáttmála og þátttöku þeirra í ákvarðanatöku innan sveitarfélagsins verður lögð fyrir stutt nafnlaus könnun meðal barna í 5. – 10. bekk að vetrarleyfi loknu.


Hér að neðan má sjá verkefni sem nemendur í 8. JÞE unnu á síðasta skólaári þegar þau fengu fræðslu um barnasáttmálann.

Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna - klippimynd um aðstæður fatlaðra barna.
Fjölbreytt dagskrá í vetrarfríinu - ýtið á hnappinn

Frítt er í sund í vetrarfríi grunnskólanna og söfnin bjóða uppá spennandi dagskrá fyrir grunnskólabörn og fjölskyldur þeirra.

Things to do during the Winter brake - push the button

During the winter break in the primary schools in Hafnarfjörður there is free admission to the swimming pools and the museums offer an exciting program for children and their families.

Setbergsskóli sigraði í sínum flokki - Samrómur

Við í Setbergsskóla unnum í okkar flokki í Lestrarkeppni grunnskólanna hjá Samrómi en tilgangur verkefnisins er að safna raddsýnum þannig að tæki okkar geti skilið íslensku. Það voru Heiðrún og Þorsteinn Darri sem tóku á móti verðlaununum að Bessastöðum ásamt öðrum verðlaunahöfum en verðlaunin voru þrjú Sphero BOLT vélmenni.


Forsetahjónin tóku vel á móti börnunum, buðu upp á djús og upprúllaðar pönnukökur. Forseti Íslands fræddi þau um Bessastaði á göngu um húsið. Sagan af draugnum sem sagt er að búi að Bessastöðum vakti athygli en forsetinn sagðist nú ekki trúa henni.


Við erum þegar farin að nota vélmennin og hér að neðan má sjá nemendur fást við að forrita Sphero vélmenni þannig að það keyri í ,,fimmhyrning".

Forritað með Sphero Bolt

Veistu svarið - spurningakeppni grunnskólanna í Hafnarfirði

Um miðjan janúar var forkeppni fyrir nemendur til að velja í lið skólans fyrir hina árlegu spurningakeppni „Veistu svarið“ sem er fyrir allar unglingadeildir grunnskólanna í Hafnarfirði. Það voru fimm nemendur úr 10. bekkjunum og einn 8. bekkingur sem tóku þátt í undirbúningnum. Það var haldin æfinga- og tilraunakeppni þann 27. janúar vegna þess að keppnin var óhefðbundin og rafræn að þessu sinni.


Það voru 9 lið sem tóku þátt í forkeppninni sem fór fram 3. febrúar. Liðið okkar skipuðu Daníel Freyr 10. LÖG, Viktor Benóný 10. SK og Dagbjörg Birna 8. AKJ. Auk þeirra voru Róbert , Sæunn og Karen Lilian öll úr 10. SK í æfingahópnum. Þau stóðu sig öll eins og hetjur og var úr vöndu að ráða að velja í liðið.


Nemendur voru áhugasamir og duglegir að mæta á æfingar og tóku svo eina æfingakeppni á móti kennurum í unglingadeildinni. Liðið okkar komst í undanúrslit sem fór svo fram 10. febrúar og endaði í 3. sæti. Því miður var netið í skólanum ekki nógu gott þetta kvöld, það heyrðist ekki allt sem spyrillinn sagði og það skemmdi svolítið fyrir liðinu. Úrslitakeppnin fer fram 24. febrúar.

Pangea stærðfræðikeppnin 2021 - fyrir 8. og 9. bekk

Pangea stærðfræðikeppnin er haldin í 21 landi í Evrópu en 66 skólar á Íslandi taka þátt þetta árið. Þátttaka hefur alltaf verið góð hjá okkur en í ár skráði 21 nemandi sig til leiks úr 9. bekk og 26 nemendur úr 8. bekk.


Keppnin er samsett af þremur umferðum og fer þannig fram að við fáum sendar keppnir í skólann. Stærðfræðikennarar leggja þær fyrir og senda inn svörin úr fyrstu tveimur umferðunum.


Fyrsta umferð fór fram 16. febrúar, önnur umferð er áætluð um 16. mars og þriðja og síðasta umferðin verður um miðjan apríl en þá hafa krakkar af öllu landinu vanalega mætt í stóran sal í Reykjavík og keppt þar. Enn er ekki vitað hvort það verður framkvæmanlegt þetta árið.


Það er mjög ánægjulegt hve margir voru tilbúnir að taka þátt og við bíðum spennt eftir að vita hve margir af okkar nemendum komast í aðra umferð. Á heimasíðu Pangea má lesa meira um keppnina.

Lesarar, - nýtt á bókasafninu, sjá fréttabréfið Bókatíðindi.

Fyrir jól bauðst nemendum að gerast ,,Lesarar" fyrir bókasafnið og fá með því eintak af einni af glænýju bókunum sem voru að koma út til aflestrar.


Fyrst var þeim öllum boðið á stefnumót með nýjum bókum þar sem þeir fengu að sjá, skoða og glugga í bækurnar sem voru að koma út. Því næst gátu þeir fyllt út þátttökuseðil þar sem bókin sem þau vildu allra mest fá að lesa var efst á blaði. Vikuna fyrir jólafrí var svo dregið úr pokanum og þeir heppnu fengu bók með sér heim í jólafrí. Verkefni þeirra var síðan að gera umsögn um bókina fyrir aðra nemendur.


Afrakstur þessa verkefnis er að sjá í glænýjum Bókatíðindum hér að neðan en nemendur máttu skila umsögninni inn að eigin vali. Sumir handskrifuðu umsögn eða sendu inn nokkrar línur og aðrir gerðu falleg myndbönd.

Bókatíðindi Setbergsskóla:

Gleði og skemmtileg stemning á öskudegi

Það voru skrítnar skrúfur samankomnar hvert sem litið var í skólanum á öskudag; Lína langsokkur, drekar, prinsessur, Valli úr ,,Hvar er Valli" og svo mætti lengi telja.


Krakkarnir dönsuðu á sal, mikið fjör og fóru svo í heimastofur þar sem þeir nutu dagsins með nammipoka frá foreldrafélaginu. Dagurinn endaði svo á pizzuveislu.

Öskudagur í Setbergsskóla.

Frá unglingadeild

Starfið í Bergi aftur komið í eðlilegt horf

Starfið í Bergi hefur farið vel af stað eftir flutninga og gott að vera komin aftur í rútínu. Á föstudögum höfum við samþætt ensku, stærðfræði og félagsfærni hjá eldri nemendum Bergs með því að spila Dungeons & dragons saman. Spilið gengur út á samvinnu þar sem nemendur þreyta reikningsdæmi ásamt öðrum miskrefjandi þrautum. Spilið skapar skemmtilegt andrúmsloft og eflir tengsl nemenda.

Laxdæla og borðspil

Nemendur í 10. bekk luku nýlega við að lesa Laxdælu sem hluta af bókmenntafræði í íslensku. Lokaverkefnið var splunkunýtt og óhefðbundið en það fólst í því að nemendur unnu að gerð borðspils sem átti að byggja á inntaki og söguþræði Laxdæla sögu. Árgangnum var blandað saman og skipt niður í hópa, þrír til fjórir nemendur í hópi. Í verkefnalýsingunni kom fram að nemendur ættu að hanna, þróa og útbúa sitt borðspil og fengu nokkrar vikur til að klára verkefnið sitt. Þeir fengu frjálsar hendur um hvernig spil þau vildu búa til og sóttu þeir innblástur í vinsæl borðspil, bæði gömul og ný. Nemendur unnu meðal annars með hugstormun, smíðar og myndmennt, verkefnaþróun og skipulagningu. Auk þess þurftu þeir að gæta þess að söguþráður og inntak Laxdælu væri sýnilegt í lokaafurð þeirra sem var fullmótað borðspil. Þegar kom að skiladegi fengu kennarar í hendur fjölbreytta flóru borðspila, allt frá spurningaspilum yfir í þrautaspil og spilastokk.


Það var afar skemmtilegt að sjá hve frábærlega þeim tókst oft að koma atburðum og söguþræði Laxdælu inn í spilin sín og greinilegt að nemendur lögðu á sig mikla íhugun og vinnu varðandi það hvernig spilin gætu gengið upp, tengst námsefninu og ekki síst verið stórskemmtileg afþreying fyrir þá sem spila spilin.

Gísla saga kvikmynduð

Það hefur verið mikið um að vera í íslenskunni hjá 9. bekk undanfarnar vikur. Nýverðið luku nemendur við að lesa Gísla sögu og unnu í kjölfarið lokaverkefni þar sem þeir kvikmynduðu alla söguna. Í verkefninu var lagt upp með að nemendur löguðu söguþráð bókarinnar að nútímanum og var sögusviðið Hafnarfjörður nútímans. Hvorum bekk var skipt í fjóra hópa þar sem hver hópur fékk ákveðna kafla Gísla sögu til að kvikmynda. Nemendur unnu meðal annars við handritsgerð, tímaáætlanir, samvinnu og skipulagningu og ekki síst við tjáningu og tæknilega úrvinnslu sem fylgir kvikmyndagerð.


Nemendur stóðu sig frábærlega og var afar ánægjulegt að fylgjast með samvinnu þeirra, gleði og ekki síst hvernig þeir tókust á við fjölmörg vandamál sem upp komu.

Bókmenntir og sýndarveruleikaferðalag til útlanda

Nemendur í 10. bekk unnu að veggspjöldum um efni bókarinnar ,,The Giver" sem þeir lásu og nemendur í 8. bekk unnu verkefni úr bókinni “Charllotes Web” sem þeir eru að lesa.


Nemendur í 9.bekk fóru í sýndarveruleikaferðalag til útlanda og unnu ritunarverkefni tengd því ferðalagi. Þeir fóru meðal annars á söfn og gengu um götur borga sem verður að teljast góður kostur á okkar tímum.

Ritgerðir og smásögur

Nemendur í 8. bekk hafa í janúar og febrúar verið að æfa sig í því að skrifa ritgerðir og sögur. Nemendur hafa skrifað smásögur og verður hluti þeirra sendur til þátttöku í Smásagnakeppni Hafnarfjarðar. Nemendur unnu einnig verkefni tengt smásögugerð þar sem þeir fengu textabúta úr sögu, áttu að teikna atriði sem komu þar fram og næst var myndunum raðað í tímaröð. Þessu fylgdi mikil hópa- og paravinna sem nemendur höfðu gaman af.


Í dönsku höfum við unnið með þemað ,,Fjölskyldan“ og hafa nemendur unnið saman í hópum og búið sér til fjölskyldur þar sem hver og ein persóna á sitt hlutverk. Þeir hafa fundið sér ættarnafn fyrir fjölskylduna, stað sem þau búa á, skrifað um sínar persónur og munu í framhaldinu finna áhugamál fyrir persónur sínar ásamt fleiri skemmtilegum verkefnum.


Geislaveisla var haldin í árganginum í janúar, krakkarnir borðuðu pítsu saman og héldu spurningarkeppni.


Nemendur hafa verið að vinna saman í pörum að stóru verkefni í náttúrufræði síðustu 4 vikur og eru að skila lokaafurðinni núna. Nemendur áttu að búa til fræðsluefni fyrir 3.- 5. bekk um ólíka flokka af dýrum. Afurðirnar voru allskyns til dæmis heimasíður, borðspil, ratleikur og klippibækur.

Handgerðar bækur um kóngafólk

Nemendur í 8. bekk eru að útbúa handgerðaf bækur um konungsfólk. Þeir velja sér ákveðinn einstakling og fjalla um hann í bókinni. Krakkarnir sauma bækurnar og útbúa bókakápu og afraksturinn eru gullfallegar bækur hver með sínu sniði. Flettið endilega bókunum sem eru hér að neðan á rafrænu formi.

Frá miðstigi

Reykir í Hrútafirði

Vikuna 1. til 5. febrúar ferðuðust nemendur í 7. bekk norður að Reykjum í Hrútafirði og áttu þar fimm góða daga. Það er orðin hefð fyrir því að nemendur í 7. bekk fari þangað en þar hafa verið reknar skólabúðir í 33 ár.

Við vorum heppin að fá að fara þetta árið í ljósi aðstæðna og allir voru glaðir með að fá tilbreytingu þessa dagana.

Á Reykjum er fjölbreytt starf og margt skemmtilegt í boði. Hópurinn fékk tækifæri til að kynnast betur, allskonar skemmtilegt hópefli fór fram sem efldi hópinn okkar sem heild. Ferðin heppnaðist mjög vel og almenn ánægja meðal nemenda og starfsmanna með Reykjaferðina.

Nemendur koma þekkingu sinni um hreindýr til skila í myndskeiði.

Nemendur í 5. bekk hafa verið að vinna mörg og fjölbreytt verkefni. Í stærðfræði hafa þeir verið að vinna í hópum þar sem þeir leysa þrautir með almenn brot, mælingar og skemmtilegar þrautalausnir.


Í náttúrufræði erum við að læra um lifnaðarhætti hreindýra og aðlögun þeirra að köldu loftslagi. Nemendur lásu um hreindýr og skoðuðu áhugaverð myndskeið af hreindýrum á Íslandi. Í framhaldi af því eru þeir að búa til sitt eigið myndskeið í iMovie, þar sem þau setja inn myndir og skrifa upplýsingar um hreindýr við myndirnar.

HEILBRIGÐI OG VELFERÐ

Við í 6. bekkjum erum ánægð með að skólastarfið er aftur samkvæmt fullri stundatöflu.

Að undanförnu höfum við verið að ræða um jákvæð samskipti og mikilvægi þess að öllum líði vel í skólanum. Fjallað um mikilvægi þess að eiga í góðum samskiptum við alla og taka ábyrga afstöðu.


Nýlega fengum við hjúkrunarfræðing í heimsókn sem fræddi nemendur um kynþroska og í náttúrufræðum erum við nýlega byrjuð að vinna með mannslíkamann. Fjallað er um líffræði mannslíkamans sem og félagslega þætti eins og vinatengsl, forvarnir og geðheilbrigði. Samþætting við námsgrein eins og ensku á hér vel við eins og sjá má í myndbandinu hér. Þetta viðfangsefni tengist einum af grunnþáttum menntunar sem er – HEILBRIGÐI OG VELFERÐ –


Með hækkandi sól og frekari tilslökunum í sóttvörnum stefnum við á heimsóknir og vettvangsferðir sem tengjast náminu.

Af yngsta stigi

Góður bekkjarandi grunnur að góðri líðanBörnin í 4. TRP eru búin að vinna mikið með samskipti og vináttu undanfarið, en góður bekkjarandi skiptir gríðarlega miklu máli. í kjölfarið unnu þau hópaverkefni um góða vini.


Börnin í 4. árgangi eru dugleg í stærðfræði og láta ekki aftra sér að stærðfræðivefurinn sem fylgir námsefninu er á norsku.

Stærðfræðivefurinn með Stikubókunum kemur sér vel.

Brakeout - þrautalausnir í samvinnu

Börnin í 4. HG/KÍK spreyttu sig í þrautalausnum í Brakeout Edu þegar þau unnu verkefni um jafnrétti. Í hópum þurftu þau að leysa ýmsar gátur og þrautir og í sameiningu gátu þau leyst endanlega þraut sem var að fá uppgefinn talnakóða til að opna kassann með því óvænta. Eftirvæntingin og spennan var mikil í hópnum og gleðin ósvikin þegar verkefnið gekk upp.

Fræðsla um eldvarnir

Í desember síðast liðnum fengum við í 3. bekk send gögn og upplýsingar um eldvarnir á heimilum frá Landssambandi sjúkra- og slökkviliðsmanna. Í framhaldinu fór fram fræðsla í bekkjunum sem við bekkjarkennarar sáum um. Vegna Covid fengum við ekki hina hefðbundnu heimsókn með fræðslu frá félögum úr Landssambandinu, þar sem börnin í 3. bekkjum fá að skoða slökkvibíl og sjúkrabíl og allt er með miklum tilþrifum og skemmtilegheitum.


Að fræðslu lokinni gátu börnin tekið þátt í Eldvarnargetraun 2020 á netinu. Jón Magni í 3. ÁGB tók þátt í getrauninni og datt í lukkupottinn. Hann mætti í Hörpu og fékk afhenta viðurkenningu og verðlaun fyrir þátttökuna úr hendi Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra.

Hrafninn - samþætting samfélagsgreina og íslensku

Börnin í 2. bekk eru að ljúka vinnu með hrafninn. Við höfum samþætt samfélagsgreinar og íslensku og þannig fengið lengri tíma til að fást við viðfangsefnin og náð mörgum hæfniviðmiðum. Nemendur hafa unnið saman, leitað upplýsinga í bókum og á netinu og nú í lok verkefnis unnið saman í hópum í stöðvavinnu og þannig æft sig í samvinnu og sjálfstæðum vinnubrögðum.

Börnin í 1.bekk kvöddu jólin með kakói og kexi á Súfistanum.

Big picture

Evolytes, stærðfræðinámsefni sem tölvuleikur - og bók

Við í Sólbergi fengum nýtt stærðfræðiefni núna eftir áramótin. Þetta er mjög spennandi ævintýraleikur í spjaldtölvunni með stærðfræðiverkefnum en börnin þurfa að leysa stærðfræðidæmi til að komast áfram í leiknum. Með leiknum fylgir bók sem þau vinna líka og í lok hvers kafla er smá könnun sem má endurtaka að vild en gangi vel í henni fást verðlaun sem koma að góðum notum í leiknum. Þetta er mjög skemmtilegt og eykur fjölbreytnina við námið.

Allt að gerast í textíl

Áhrif frá Karate Kid í textíl

Óhætt er að segja að Karate Kid æði hafi hellst yfir drengina í 6. bekk og borist inn í textílmennt en vinsælasta verkefnið hjá þeim um þessar mundir er að sauma sitt eigið ennis/hár band eða Karate Kid þemaband. Þeir notast meðal annars við fatatússpenna til að útfæra Karate Kid mynstrið á hvítt efni sem þeir sauma saman í saumvél svo úr verður þeirra eigið Karate Kid ennisband. (Hvað eru annars mörg Karate Kid í því? ;) )

Hannað og saumað

Aldís Helga í 8. JÞE saumaði kjól handa yngri systur sinni. Hugmyndin á bak við kjólinn var að hann væri þægilegur svo hægt væri að nota hann meira hversdags eins og til dæmis í skólann og þess vegna notaðist hún við þykkara bómullarefni eins og oft er að finna til dæmis í hettupeysum við gerð kjólsins.


Hún hannaði kjólinn alfarið út frá eigin hugmynd, bjó til sniðið með því að blanda saman saumasniði og kjól af systir sinni sem hún kom með að heiman og saumaði hann svo saman.

Stíll 2021

Þann 3. mars næstkomandi fer Stíll fram innan Hafnarfjarðar en þetta er hönnunarkeppni unga fólksins sem haldin hefur verið á hverju ári núna í 20 ár af Samfés. Í ár er þemað Sirkus og taka tveir hópar í 8. bekk þátt í keppninni fyrir hönd Setbergsskóla, þær; Dagbjörg, Ísabella, Eva, Emilía, Aldís Helga, Jóna, Þórunn og Maríanna. Nemendur sjá alfarið um að hanna heildarútlit á módel frá toppi til táar ásamt því að setja það saman sem verður svo sýnt á tískusýningu. Landskeppnin í Stíl verður svo haldin 20. mars 2021.

- Pssst.. Heyrst hefur á göngunum að fleiri nemendur hafi augastað á að taka þátt í keppninni í ár og séu að spá í að skrá sig til leiks svo það verður gaman að fylgjast með ;)

Heimsókn í Hönnunarsafn Íslands - rætt við listakonuna Ýr eða Ýrúrarí

Textílhópurinn í 9. bekk fór á dögunum í heimsókn á Hönnunarsafn Íslands í Garðabæ. Þar var tekið mjög vel á móti okkur og fengum við leiðsögn um sýninguna 100% Ull þar sem kafað er dýpra inn í fjölbreytt notagildi íslensku ullarinnar ásamt því að skoða afurðir og verk eftir íslenska hönnuði og listafólk sem notast við ullina í vinnu sinni.


Að því loknu ræddi textíl- og listakonan Ýr (Ýrúrarí) sem er með gestavinnustofu á safninu við okkur um meistaraverkefni sitt. Það byggist á endurnýtingu með því að bjarga gömlum peysum með blettum og götum í samstarfi við Rauða Krossinn og gefa þeim nýtt líf á skapandi hátt.

Nemendahópurinn var til fyrirmyndar og ferðin gekk mjög vel í alla staði. Þökkum við Hönnunarsafninu kærlega fyrir frábærar móttökur.

Frá textílkennara

Ég vil minna á að á meðan nemendur eru í textíllotum er þeim frjálst að koma með fatnað af sér að heiman sem þarfnast viðgerðar. Við nýtum það sem aukaverkefni til að grípa í inn á milli. Með þessu læra nemendur hvernig þeir gera við fötin sín á fjölbreyttan hátt undir leiðsögn kennara og við gefum flíkum lengra líf.

Frá myndmennt og smíðum

Nemendur vinna að nytjalist þar sem þeir búa til dýr sem skál. Þegar búið er að móta leirinn þarf að brenna hann, setja glerung utan á hlutinn og brenna aftur.


Krakkarnir eru duglegir að finna sér skemmtileg viðfangsefni í smíðum.

Innlit í smíðastofuna

Leiklistin

4. bekkur er að undirbúa uppfærslu af Dýrunum í Hálsaskógi og gengur það mjög vel. Við höfum verið að vinna í leikmunum, sviðsmynd og hafa nemendur hjálpast að. Um daginn voru söng- og leikprufur fyrir þá sem vildu taka að sér þannig hlutverk og nú er búið að skipta hlutverkum á milli allra nemenda. Við stefnum á að hafa sýningar í apríl ef allt gengur upp.


7. bekkur er í stuttmyndagerð og er búið að skipta nemendum í 7 hópa sem eru með mismunandi þemu. Hóparnir eru nú að vinna í handritum og eigum við von á að tökur hefjist í mars. Í lok skólaárs verður svo kvikmyndahátíð fyrir nemendur og forráðamenn.


10. bekkur er að setja upp söngleikinn High School Musical sem verður sýndur hér í skólanum í maí. Nemendur vinna í hópum eftir áhugasviði og eru það tækni- og auglýsingahópur, smíðahópur, förðunar- og búningahópur og leikarahópur. Samlestur og söngæfingar standa yfir auk þess sem verið er að smíða sviðsmynd, búa til Facebook- og Instagramsíður fyrir áhugasama. Þá er hópur að vinna í að finna styrktaraðila.

Dansað og sungið á sal

Föstudagsfjör í Setbergsskóla
Allir sem vilja geta mætt snemma á föstudögum og tekið þátt í Föstudagsfjörinu hjá Bellu. Það fjölgar jafnt og þétt í hópnum og þátttakendur mæta glaðir í kennslustundir dagsins.


Þá erum við svo heppin að María tónmenntakennari er farin að vera með samsöng á sal en það voru börnin á yngsta stigi sem hófu upp raust sína fyrir helgi.

Samsöngur á sal