Hvalrekinn

26. mars 2021

Big picture

Páskakveðja

Ágætu foreldrarHér koma nokkrir punktar frá okkur til upplýsingar. Ljóst er að lokun grunnskólanna, félagsmiðstöðva, frístundaheimila og tónlistarskóla gildir til 1.apríl. Það er að hefjast páskaleyfi í grunnskólunum og er til 6.apríl. Það getur farið svo að einhverjar takmarkanir verði settar á skólastarfið eftir páskaleyfi og við tökum á því þegar þar að kemur. Von er á reglugerð frá ráðuneytinu er varðar skólastarfið að loknu páskaleyfi og munum við senda ykkur nánari upplýsingar í gegnum Mentor þegar þær berast.


Við viljum hvetja ykkur til að huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum og ef þið er börnin ykkar sýna flensulík einkenni að bóka tíma í skimun. Eins og fram kom í pósti frá okkur á þriðjudag og miðvikudag þá vorum við að byrja með þemadaga sem vera áttu frá miðvikudegi til föstudags. Fyrsti dagurinn gekk ljómandi vel og við munum taka upp þráðinn þegar hægt verður.


Við gerum okkur grein fyrir að það geta hafa orðið eftir úlpur, föt eða annað sem þið viljið nálgast úr skólanum fyrir páskafrí. Þeir sem vilja nálgast fatnað barna sinna geta haft samband á mánudaginn milli kl. 10:00 – 12:00. Ragnar Óli húsumsjónarmaður verður á vappi og hleypir ykkur inn. Mikilvægt er að vera með grímur og spritta hendur áður en komið er inn í skólann.


Ég vil með þessum línum óska ykkur góðs páskaleyfis, vona að þið hafið það sem allra best með ykkar nánasta fólki.


Hafið það sem best og gleðilega páska.


Kristinn Guðlaugsson, skólastjóri.

Gott er að rifja upp páskakveðjuna sem við unnum á síðasta ári.

Páskakveðja Hvaleyrarskóli 2020

Stóra upplestrarkeppnin

Stóra upplestrarkeppnin fór fram í Víðistaðakirkju þann 23. mars. Hvaleyrarskóli átti tvo fulltrúa í keppninni þær Aníta Margret Þórðardóttir og Áróra Sif Rúnarsdóttir. Þær stóðu sig með prýði og voru sér og skólanum til sóma. Hér til hliðar má sjá þær stöllur og Hafdísi Sigmarsdóttur kennara sem aðstoðaði þær við undirbúninginn.
Big picture

Að læra íslensku heima

Nú er mikilvægt að nýta tímann fyrir alla og læra íslenskuna betur heima. Að læra íslensku í heimanámi, hér má finna góðar ráðleggirnar fyrir nemendur:

Yfirheitin okkar í Hvaleyrarskóla

Undirspil við íslensk dægurlög

Guðrún Árný tónmenntakennari hjá okkur hefur á undanförnu ári tekið upp mikið af undirspili við íslensk dægurlög. Þetta undirspil má finna hér dægurlöginn inn á youtube. Það er fátt sem gleður hjartað meira en fallegur söngur. Já, já við getum öll sungið við þennan fagra undirleik Guðrúnar Árnýjar. Hvetjum ykkur til að taka lagið og textarnir koma líka á skjáinn.


https://www.youtube.com/playlist?list=PL1JGavIrs8DZL6WAkpzNLE9VhpPyqEeIQ

Skólasöngur Hvaleyrarskóla - Hvaleyrarskóli 30 ára

Hvað getum við gert til að líða vel?

Núvitund er góð leið til að ná ró og yfirvegun og hægt að stunda hvar sem er. Núvitund er að beina athyglinni að augnablikninu, því sem er hér og nú. Rannsóknir sýna að þeir sem stunda núvitund auka vellíðan sína, bæta heilsu, það dregur úr kvíða, streitu og depurð. Til að nálgast æfingar og öpp með núvitund þá er m.a. hægt að fara inn á þessar æfingar sem er hægt að hlaða inn á snjalltæki og hlusta hvar og hvenær sem er.

Á youtube eru hugleiðsluæfingar fyrir börn. En við fullorðna fólkið verðum líka og hugsa um okkur og hér má finna hugleiðsluæfingar fyrir fullorðna. Það er mikilvægt að við hugum að okkar heilsu því við verðum að vera stuðningur fyrir aðra t.d. börnin okkar því þau skynja vel ef við erum ekki í andlegu jafnvægi.


Þegar við eða nemendur erum í leik eða starfi getur verið gott að setja á tónlist eftir t.d. Friðrik Karlsson. Þessi tónlist er afslappandi og getur fengið okkur til að gleyma stund og stað og hugsa um eitthvað fallegt.


Á vefsíður Hugarfrelsis er hægt að kaupa hugleiðslusögur fyrir börn - ekki svo dýrar en alveg frábærar til að hlusta á fyrir svefninn eða bara hvenær sem er.

Rafbækur í rólegheitum

Átta fríar rafbækur frá Þorgrími Þráinssyni á Emma.is


Bækurnar átta höfða til breiðs hóps lesenda allt frá 1. til 10. bekkjar og jafnvel til þeirra eldri sem vilja rifja upp góðar lestrarstundir.


Á bak við bókagjöfina standa Þorgrímur Þráinsson og aðstandandi rafbókaveitunnar emma.is sem vilja með þessu hvetja krakka og unglinga til aukins yndislesturs. Þá er kjörið að nýta rafbækurnar í takt við lestrarverkefnið "Tími til að lesa" sem stjórnarráðið hleypti af stokkunum í vikunni á timitiladlesa.is. Lestur á rafrænu formi er góður og gildur og opnar jafnmargar dyr og lestur með hefðbundinnar bókar.


Rafbækurnar voru fyrst gerðar aðgengilegar fyrir grunnskólanema 2012-2013 þegar starfsmenn Emmu unnu að því að færa eldri bækur Þorgríms Þráinssonar á stafrænt form og gera úr þeim rafbækur. Nú hefur stafrænu ryki verið dustað af þeim, þær yfirfarnar og uppfærðar eftir nýjustu stöðlum þannig að hægt er að lesa þær á öllum lestækjum og tölvum svo sem iPad, iPod touch, Kindle, snjallsímum með Android eða Windows, PC tölvum eða Mac. Bækurnar sem Þorgrímur og Emma.is gefa eru:

  • Með fiðring í tánum (frá 1998),
  • Bak við bláu augun (1992),
  • Lalli ljósastaur (1992),
  • Spor í myrkri (1993),
  • Sex augnablik (1995),
  • Svalasta 7an (2003),
  • Undir 4 augu (2004)
  • Litla rauða músins (2008).

Það er von Þorgríms og aðstandenda Emmu að þessi veglega bókagjöf hvetji alla til þess að lesa meira og nýta sér snjalltæki til lestursins. Bækurnar er hægt að sækja á emma.is frítt.


Almenningur, foreldrar og síðast en ekki síst krakkar eru hvattir til þess að nýta sér þetta einstaka tækifæri -- og hlaða bókunum niður og lesa þær aftur og aftur.

Á döfinni

KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA

Hvalrekinn


Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim

Kl. 7:45 - 14:00 fösFréttabréf Hvaleyrarskóla. Sent á foreldra nemenda skólans og skólasamfélagið.