Hvalrekinn

21. janúar 2021

Big picture

Skipulagsdagur 25. janúar

Mánudaginn 25. janúar er skipulagsdagur í Hvaleyrarskóla. Þann dag fellur öll kennsla niður. Einnig er lokað í frístundaheimilinu Holtaseli þar sem þetta er annar af tveimur skipulagsdögum skólaársins fyrir Holtasel.


There will be no school for students on Monday the 25th of January as it is an inservice day for teachers and staff. Holtasel is also closed on that day.

Námsviðtöl ~ áfram með breyttu sniði

Stöðumat verður í lok janúar eða í byrjun febrúar 2021

Eins og kemur fram í skóladagatalinu fyrir þetta skólaár þá eru námsviðtöl ráðgerð þriðjudaginn 2. febrúar. Foreldrar verða boðaðir á fjarfundi í kringum þann tíma með svipuðu sniði og var í október.

Fyrir fundina þurfa foreldrar ásamt börnum sínum, að skoða námsframvinduna inni á Mentor. Athygli er vakin á því að hæfnikortið er lifandi plagg og því getur síðasta mæling ekki alltaf gefið rétta mynd. Sum hæfniviðmið eru metin oftar en einu sinni en það á frekar við eftir því sem börnin verða eldri. Þegar svo er þarf að skoða hæfniviðmiðið í Mentor og þá kemur upp saga/námsferill, þ.e. hvaða hæfni barnið hefur náð frá því skólinn hófst. Gott er að skoða það til að gera sér grein fyrir raunverulegri stöðu.


Nú í janúar er gefin einkunn fyrir framvindu, sem ætluð er til að gefa foreldrum nemenda nokkra hugmynd um stöðu barnsins í hverri grein. Einkunnin lýsir stöðu barnsins í janúar 2021 en hún birtist efst á hæfnikorti nemandans í hverju fagi. Hæfnikortið opnar á mánudaginn 25. janúar. Til að gefa fyrir framvinduna notum við skalann; góð framvinda, hæg framvinda, í hættu að ná ekki lágmarkshæfni. Vegna þeirrar skerðingar á skólastarfi sem var í haust er ekki hægt að gefa einkunn fyrir framvindu í öllum fögum.

Hér má nálgast leiðbeiningaglærur fyrir foreldra til að skoða námsmat barna sinna.


Í ljósi aðstæðna og sóttvarnarreglna er ekki leyfilegt að stefna foreldrum í skólann þann 2. febrúar. Þess vegna koma námsviðtölin til með að eiga sér stað undir öðrum kringumstæðum eins og áður segir. Til að létta á þessum degi munu einhver viðtalanna fara fram dagana á undan. Þá horfum við til þess að nýta Google Meet sem nemendur hafa verið að nota til samskipta í kennslu og er appið uppsett á spjaldtölvum nemenda í 6. - 10. bekk.


Ef þið hafið einhverjar óskir fram að færa eða athugasemdir, þá er ykkur velkomið að koma þeim á framfæri við okkur með símtali eða tölvupósti. Við munum koma þeim skilaboðum áleiðis til umsjónarkennara barnanna.

Lestarkeppni grunnskólanna

Við vekjum athygli ykkar á lestrarkeppni grunnskólanna sem stendur yfir þessa viku á samromur.is.
Keppnin gengur út á að safna íslenskum röddum en til þess að tölvur og tæki skilji íslensku svo vel sé, þarf mikinn fjölda upptaka af íslensku tali frá allskonar fólki. Þetta er þarft samfélagsverkefni í þágu okkar allra.


Gaman væri að sem flestir myndu aðstoða barnið sitt við að taka þátt og leggja þessu þarfa verkefni lið.
Frekari upplýsingar eru á vefsíðunni https://samromur.is/

Dagskrá Versins í janúar 2021

Stam

Mörg okkar hafa á einhvern hátt tengst fólki sem stamar, annaðhvort af afspurn eða þá að við þekkjum einhvern. Allir eru sammála um að stam er erfið taltruflun sem enginn vill vera með. Það er því engin furða þótt margir foreldrar hrökkvi illilega við ef þeir verða varir við að barnið þeirra tekur upp á því að stama. Eðlilega vilja foreldrar geta leitað sér hjálpar svo fljótt sem auðið er, ef vera skyldi að það kæmi í veg fyrir langvarandi stam.

Hér má nálgast leiðbeiningar og einnig hér.

Skólastarf í Hvaleyrarskóla frá 4. janúar miðað við sóttvarnarreglur sem gilda til og með 28. febrúar 2021

Við munum áfram passa upp á allar sóttvarnir eins og við mögulega getum en skólastarfið hjá okkur á að vera komið í eðlilegt horf og er kennt samkvæmt stundaskrá nemenda sem þeir fengu í ágúst 2020.

 • Skólanum er skipt í 10 kennsluhólf, það er hver árgangur er eitt kennsluhólf þar sem ekki eru fleiri en 50 nemendur í hverjum árgangi.
 • Fullorðnir mega vera 20 í hverju kennsluhólfi og mega þeir fara á milli hópa. Ítrustu sóttvörnum er fylgt.
 • Matsalnum er skipt upp í hólf eftir kennsluhólfum og sótthreinsað er á milli hópa.
 • Boðið er upp á hafragraut að morgni og þeir sem eru í ávaxtaáskrift fá ávexti á sínum tíma.
 • Starfsfólk ber grímur á sameiginlegum svæðum.

 • Grímuskylda starfsfólks gagnvart börnum er afnumin í kennsluhólfum.

 • Reglur um blöndun, fjölda, grímunotkun og nálægð gildi ekki á útisvæðum.

 • Nemendur í 1. - 7. bekk fara út í frímínútur eins og áður.

 • Nemendur í 8. - 10. bekk fá að vera inni eins og áður en á afmörkuðum svæðum eftir árgöngum/kennsluhólfum.

 • Áfram er hólfun í Holtaseli með svipuðu sniði og verið hefur. Nemendur verða til skiptis í heimastofum og á svæði Holtasels.

 • Í félagsmiðstöðinni Verinu er 50 nemenda hámark og munu starfsmenn fylgjast með að ekki séu fleiri inni. Starfsemin fer fram á svæði Versins og fá bekkir/árgangar ákveðna tíma samkvæmt skipulagi.

Stjórnendur Hvaleyrarskóla

Hvaleyrarskóli er hnetulaus skóli

Þar sem nemandi skólans er með bráðaofnæmi fyrir hnetum er Hvaleyrarskóli hnetulaus skóli og biðjum við foreldra jafnt sem starfsfólk að virða það. Nemendur og starfsfólk mega því ekki koma með hnetur í skólann.
Hvaleyrarskóli 30 ára

KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA

Hvalrekinn


Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim

Kl. 7:45 - 14:00 fösFréttabréf Hvaleyrarskóla. Sent á foreldra nemenda skólans og skólasamfélagið.