Fréttabréf Síðuskóla

5. bréf - desember- skólaárið 2022-2023

Kæru foreldrar, nemendur og starfsfólk!

Nú er desembermánuður genginn í garð með allri sinni ljósadýrð og hlýleika. Á mánudaginn verður jólaþemadagur í skólanum og mikið um að vera á öllum göngum. Margs konar uppbrot verður á skólastarfinu í desember þar sem við munum meðal annars föndra, syngja saman jólalög á söngsal, heimsækja Minjasafnið, spurningakeppni og ýmislegt fleira. Það væri gaman ef allir koma í einhverju jólalegu þennan dag og einnig á jólasöngsal.

Eins og allir vita er árshátíðin búin og hún var okkur öllum til sóma. Við getum verið stolt af flottu krökkunum okkar sem stóðu sig af stakri prýði, hvort sem um var að ræða undirbúning, leikatriði eða frágang.

Litlu jólin verða á sínum stað þann 21. desember. Fyrirkomulag litlu jólanna má sjá neðar í póstinum. Skólinn hefst svo aftur eftir jólaleyfi miðvikudaginn 4. janúar 2023 samkvæmt stundaskrá.

Nú þegar farið er að dimma er mjög mikilvægt að börnin og reyndar við öll notum endurskinsmerki eða endurskinsvesti þegar við erum í umferðinni. Í myrkri sjást gangandi og hjólandi vegfarendur illa þrátt fyrir götulýsingu.


Starfsfólk Síðuskóla óskar nemendum og foreldrum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári um leið og við þökkum samstarfið á árinu sem er að líða. Það hefur verið mikilvægt að eiga gott samstarf við ykkur öll, þar sem verkefni ársins hafa verið óvenjuleg og krefjandi.

Með hækkandi sól tökumst við á við ný verkefni, leiðarljós okkar er að vinna saman, ná árangri og gleðjast!


Með góðri kveðju!

Ólöf, Malli og Helga

Litlu jólin

Litlu jólin verða þann 21. desember. Það koma allir í skólann kl. 9.00 og fara heim um kl. 11.00. Fyrst verður hópnum skipt í salinn þar sem nemendur í leiklistarvali á miðstigi sýna jólaleikrit og heimastofur en eftir það hittast svo allir í íþróttasalnum og ganga saman í kringum jólatréð.


Frístund er opin þennan dag frá kl. 7.45-9.00 og 11.00-16.15 fyrir þá sem þar eru skráðir.

Krakkarnir í 4. bekk voru að læra um rafmagn og fengu það skemmtilega verkefni að taka í sundur rafmagnstæki

Á döfinni

5. desember

Jólaþemadagur - nemendur og starfsfólk klæðast einhverju jólalegu

9. desember

Jólasöngsalur - nemendur og starfsfólk klæðast einhverju jólalegu

20. desember

Spurningakeppni í unglingadeild

21. desember

Litlu jól - jólafrí nemenda hefst

Það var nóg að gera í 8. bekk í heimilisfræði hjá Sigrúnu Ás. en nemendur voru að baka hamborgarabrauð í morgun

Á dögunum var kynning á júdó í íþróttatímum

Big picture
Big picture