Fréttabréf Grenivíkurskóla

3. tbl. 4. árg. - mars 2023

Kæra skólasamfélag

Þá er stuttur og snaggaralegur febrúar að baki, sem þó innihélt fjölmargt skemmtilegt. Nemendur dönsuðu kokkinn, marseruðu, og dönsuðu fleiri skemmtilega dansa í hreyfistundum á morgnana undir dyggri leiðsögn Siggu Sverris, og undir lok mánaðar nýttum við hreyfistundirnar til morgunsunds sem gaf einnig góða raun.


Við prófuðum nemendastýrð foreldraviðtöl í fyrsta skiptið og verður alveg örugglega framhald á því, enda tókust viðtölin vel. Þá var kærkomið vetrarfrí undir lok mánaðar, sem starfsfólkið nýtti vel með því að fara í náms- og kynningarferð til Svíþjóðar. Þar skoðuðum við áhugaverða skóla og sátum fróðlegan fyrirlestur.


Ýmislegt er svo á dagskránni í mars, en fyrst og fremst verður mánuðurinn helgaður undirbúningi fyrir Vorskemmtun, en sýningar ársins verða haldnar 29. og 30. mars nk. Síðasti kennsludagur fyrir páskafrí er svo föstudagurinn 31. mars, en kennsla hefst á ný að loknu páskafríi miðvikudaginn 12. apríl.


Með kveðju úr skólanum,

Þorgeir Rúnar Finnsson

skólastjóri Grenivíkurskóla

Skákáhugi

Mikill skákáhugi hefur gripið um sig meðal nemenda skólans að undanförnu og teflt er sem enginn sé morgundagurinn á göngum skólans. Skólinn keypti nýverið glæný skákborð með veglegum taflmönnum og hafa þau sannarlega nýst vel. Vonandi er að þessi mikli áhugi haldi áfram, og næsta víst að skellt verður í skákmót áður en skóla lýkur í vor.

Heilsueflandi skóli

Að þessu sinni vill heilsueflandi nefnd skólans minna á eftirfarandi lykilþætti í leið að góðri heilsu, jafnt andlegri sem líkamlegri:


MUNDU

1 - tími eða meira í hreyfingu á dag

2 - tímar af skjátíma eða minna á dag

3 - jákvæðar hugsanir á dag

4 - glös eða meira af vatni á dag

5 - skammta eða meira af grænmeti og ávöxtum á dag


Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "Í núvitund í mars". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.


Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.

Grænfáninn

Að þessu sinni ætlum við að líta í baksýnisspegilinn í Grænfánaverkefninu og rifja upp þegar nemendur og starfsfólk skólans saumuðu fjölnota innkaupapoka fyrir hvert og eitt heimili í sveitarfélaginu. Skemmtilegt verkefni sem unnið var og ávallt gaman að sjá pokana í notkun. Fylgir þessari upprifjun hvatning til allra um að muna eftir fjölnota poka þegar farið er í innkaupaferð!


Hér er myndband sem sýnir ferlið við gerð taskanna, en þar bregður meðal annars fyrir nokkrum nemendum sem nú eru á unglingastigi.

Á döfinni í mars

  • 6. mars: Tónleikar TE
  • 7. mars: Samskóladagur í Grenivíkurskóla fyrir 8.-10. bekk
  • 8. mars: Skíðadagur
  • 14. mars: Dagur stærðfræðinnar
  • 29. mars: Vorskemmtun - fyrri sýning
  • 30. mars: Vorskemmtun - síðari sýning
  • 31. mars: Síðasti kennsludagur fyrir páskafrí

Grenivíkurskóli

Útgefandi: Grenivíkurskóli

Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla