Grunnskóli Hornafjarðar

Fréttir úr skólanum

Eðlilegt skólastarf eftir 4. maí

Frá og með mánudeginum 4. maí verður skólastarf með eðlilegum hætti. Íþróttir, sund, smiðjur, matartímar, frímínútur, Kátakot og allt annað sem hefur verið með breyttu sniði fellur í eðlilegt horf. Það eina sem breytist ekki er að starfsfólk þarf að virða tveggja metra regluna eins og frekast er unnt og að sama skapi munum við halda gestakomum í skólann í algeru lágmarki. Á það bæði við um foreldra og aðra og þeir sem koma eru beðnir um að virða tveggja metra regluna. Hugsanlega verða skólaslitin 4. júní líka með breyttu sniði en það á eftir að koma í ljós.


Ekki hefur greinst Covid-19 smit í þessari sýslu í margar vikur og aðeins tæp 20 smit á landinu öllu síðustu 9 daga. Áfram ætlum við samt að vera dugleg með handþvott enda sjáum við að almennum veikindum hefur snarfækkað hjá nemendum og starfsmönnum á síðustu vikum.

Skoðanakönnun til foreldra um seinkun skólabyrjunar

Í dag fá foreldrar leik- og grunnskólabarna tölvupóst um viðhorf þeirra til seinkunar skólabyrjunar. Þessi könnun kemur frá Kannanir og kosningar og það tekur enga stund að svara henni. Könnunin verður opin til 4. maí og eru foreldrar hvattir til að svara.

Fleiri sundtímar í 1. - 4. bekk í maí

Það sem eftir lifir skólaárs fjölgum við sundtímum í 1. - 4. bekk til að bæta nemendum upp þá tíma sem þeir misstu meðan á lokun sundlaugar stóð. Umsjónarkennarar munu senda foreldrum upplýsingar um hvaða daga nemendur þurfa að koma með sundföt.

Big picture

Bekkjarmyndataka og einstaklingsmyndataka í 1., 4., 7. og 10. bekk þriðjudaginn 5. maí

Bekkjarmyndataka í 1., 4., 7. og 10. bekk verður þriðjudaginn 5. maí. Foreldrar í þessum árgöngum hafa þegar fengið póst þess efnis. Foreldrar sem samþykktu slíka myndatöku í haust þurfa ekkert að aðhafast en þeir sem neituðu bekkjarmyndatöku þá en hefur snúist hugur geta sent tölvupóst og látið vita.
Big picture

Samræmdu prófin í 9. bekk komin í hús og niðurstöðurnar mjög góðar

Kátakot opnar aftur 4. maí - látið vita ef barnið ætlar að nota þjónustuna

Fjórða maí opnar Kátakot aftur og mun starfa með hefðbundnu sniði út maí. Foreldrar þeirra barna í 1. - 4. bekk sem ekki nýttu þjónustu á Covid-19 tímabilinu eru vinsamlegast beðnir um að láta vita hvort þeirra barn mun nýta Kátakot í maí. Það er nóg að hringja í skólann og Dadda tekur við skilaboðum.

Trémálun og fjöruferð í Kátakoti

Búið að endurnýja trékubbana við mikinn fögnuð nemenda

Big picture

Afkastamiklir krakkar á umhverfisdegi

1. bekkur lærði stærðfræði í Hrossabithaganum

Nemendur í 1. E nýttu góða veðrið til að kíkja út í Hrossó. Þar var mikið leikið og sprellað en stundin var einnig nýtt til útikennslu í stærðfræði. Nemendur kepptust við að týna saman alla köngla á svæðinu og í lok tímans voru könglarnir flokkaðir og taldir saman. Fyrst flokkuðu nemendur könglana í tugi og bjuggu til hundruð. Í lokin töldu nemendur, kennari og stuðningsfulltrúi allt saman og komust að því að árangur erfiðisins voru hvorki meira né minna en 810 könglar!

Þetta var mjög góð kennslustund í stærðfræði og að sjálfsögðu komu allir könglarnir 810 með aftur í skólann til að leika sér meira með þá þar.

Nafnorðaveiðar

Vorið er komið og þá er tækifærið til að taka verkefnin í skólanum út fyrir skólastofuna. Það gerðu börnin í 2. bekk, þau hafa verið að kynna sér nafnorð og hvernig þau skiptast í sérnöfn og samnöfn og hefur það gengið svo vel að þau ákváðu að fara út á nafnorðaveiðar í góða veðrinu.