Réttindaráð Vesturbæjarskóla

Skýrsla Réttindaráðs 2019-2020

Réttindaráð 2020

Í Réttindaráði Vesturbæjarskóla sitja tveir nemendur úr 2. - 7. bekk, samtals 12 nemendur, ásamt umsjónarmönnum verkefnisins í skólanum, tveimur foreldrum og aðilum frá Skýjaborgum og Frostheimum. Réttindaráð hittist að jafnaði tvisvar sinnum í mánuði og hafa fundirnir verið alls 13 á þessu skólaári. Á fundunum eru ýmis mál rædd tengd Réttindaskólaverkefninu. Við ræðum leiðir til að fræða nemendur skólans um réttindi sín, förum í leiki tengdum réttindum barna, skipuleggjum viðburði í tengslum við verkefnið og kíkjum í hugmyndakassann. Fundargerðir Réttindaráðs er hægt að lesa á heimasíðu skólans.
Big picture

Kynning á samsöng

Réttindaráðið kynnti sig í upphafi skólaársins á samsöng og minnti nokkrum sinnum á sig á samsöng. Á þessum kynningum kynntum við hugmyndakassann, lásum upp grundvallaforsendur barnasáttmálans og minntum alla á að börn hafa rétt.
Big picture

Hugmyndakassinn

Hugmyndakassinn er kassi sem allir geta sett í hugmyndirnar sínar um starf skólans. Á réttindaráðsfundum skoðum við og flokkum hugmyndirnar í kassanum og skoðum hvernig við getum bætt skólastarfið. Hugmyndakassinn var kynntur í október og hefur verið troðfullur síðan þá.


Hugmyndakassinn styður við 12. grein Barnasáttmálans en hún fjallar um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif.


Á myndunum hér að neðan sést þegar við erum að koma hugmyndunum til réttra aðila.

Barnakosningarnar

Við í Réttindaráði ákváðum að halda barnakosningar og föstudaginn 15. nóvember stóð Réttindaráð fyrir barnakosningum í skólanum. Réttindaráð fékk kennara skólans til að koma með hugmyndir að þemu fyrir þemadaga þessa skólaárs og fengu börn í skólanum að hafa áhrif á það. Einnig fengu börn að kjósa um hvað ætti að vera í hádegismatinn á degi mannréttinda barna 20. nóvember og hvað ætti að vera í boði að gera á sama degi inni í morgunfrímínútum. Réttindaráð kynnti niðurstöður barnakosninganna á degi mannréttinda barna.

Dagur mannréttinda barna - Vesturbæjarskóli verður Réttindaskóli

Á degi mannréttinda barna 20. nóvember varð barnasáttmálinn þrítugur og Vesturbæjarskóli fékk viðurkenninguna Réttindaskóli Unicef, haldin var hátíð í salnum sem réttindaráðið skipulagði og stjórnaði. Krakkarúv kom í heimsókn og tók myndband af okkur að syngja Barnaréttinda lagið okkar, Betri veröld og tók viðtal með okkur. Öll börnin í skólanum hafa síðustu daga komið að því að búa til skreytingar bæði inni og úti. Einnig hefur það verið sameiginlegt verkefni okkar að búa til barnaréttindalag. Réttindaráð ákvað að texti yrði búinn til við lagið Snjókorn falla og var útkoman alveg ótrúlega falleg og skemmtileg. Lagið heitir Betri veröld og má heyra börnin syngja það í myndbandi hér að neðan. Réttindaráð undirbjó daginn og stýrði dagskránni á sal um morguninn. Við fengum góða gesti frá borginni og meðal annars tók borgarstjórinn okkar til máls. Skólahljómsveit Vesturbæjar spilaði fyrir okkur og undir samsöng sem setti sinn hátíðarbrag á daginn. Nilla og Pétur frá Unicef afhentu okkur, Skýjaborgum og Frostheimum viðurkenningu fyrir að vera Réttindaskóli og Réttindafrístundir.


Réttindaráð kynnti niðurstöður úr barnakosningunum en þær voru þannig að flest börnin í skólanum kusu pizzu í hádegismat, í morgunfrímínútum var í boði að vera inni að lita, dansa og leika í íþróttasal og að sjálfsögðu að fara út. Kennarar skipulögðu alla kennslu í dag sérstaklega út frá réttindum barna og barnasáttmálanum.


Eftir hádegi var öllum boðið í sparikaffi þar sem við fengum köku og safa. Dagurinn var í alla staði frábær og við höldum áfram að vinna markvisst að því að kenna börnum og fullorðnum um réttindi barna og taka allar ákvarðanir út frá því sem er barninu fyrir bestu.

Big picture

Norræna Barnaþingið

Í janúar fóru tveir fulltrúar Réttindaráðs úr 7. bekk, Matas og Úlfhildur til Kaupmannahafnar á Norrænt Barnaþing ásamt nokkrum öðrum krökkum og fylgdarmönnum. Markmiðið með Barnaþinginu var að láta börn hittast og ræða leiðir til að Norðurlöndin geti verið besti staðurinn til að alast upp í heiminum.

Kærleikur um hverfið

Eftir viðburðaríkan janúar fannst okkur tími til að senda smá kærleik út í kosmósið og lögðum til að nemendur skólans myndu föndra falleg rauð hjörtu og skreyta skólann með þeim. Síðan óx þessi hugmynd í að nemendur vildu skrifa falleg skilaboð á rauð hjörtu og bera í hús í hverfinu. Allir ánægðir með þetta gleðiverkefni.

Big picture

Stöðumat

Eitt af verkefnum sem við þurftum að sinna til þess að verða Réttindaskóli var að leggja fyrir kannanir, viðhorfskannanir, öryggiskannanir og aðgengiskannanir. Við í réttindaráði fórum yfir niðurstöðurnar og útbjuggum umbótaáætlun út frá þeim. Á heimasíðu skólans má lesa nánar um aðgerðar- og umbótaáætlanirnar. Á fundi í maí var hópur úr réttindaráði sem fór yfir umbótaáætlunina og ræddi aðgerðaráætlun næsta skólaárs.
Big picture

Betri veröld

Betri veröld er barnsáttmálasöngurinn okkar í Vesturbæjarskóla sem samdur var af börnum skólans við lagið Snjókorn falla. Lagið var samið í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmálans og því að skólinn fékk viðurkenninguna Réttindaskóli Unicef í nóvember 2019.Betri veröld
börnin vilja
gleði og gaman alla tíð.
Ganga í skóla
það er okkar réttur
segir Barnasáttmálinn.


Krakkar leika
lifa og læra
leyfa öllum að vera með.
Vernda alla
heimili og friður
handa öllum í heimi hér.


Já hér á jörð stöndum við saman
við erum mikilvæg og
breytumst kannski brátt í
risa stóra knúsukalla.


Hollur matur
handa öllum
hvíld og næði foreldrar.
Það er réttur
réttur allra barna
sem að byggja þessa jörð.


Já hér á jörð stöndum við saman
við erum mikilvæg og
breytumst kannski brátt í
risa stóra knúsukalla.


Allir jafnir
stórir litlir
krakkar tjá sig frjálslega.
Vatn og vinir
veistu eitthvað betra
fyrir alla í heimi hér
fyrir alla í heimi hér
fyrir alla í heimi hér.

Big picture