Fréttabréf Kópavogsskóla

desember 2019

Big picture

Borgir - nafnasamkeppni

Þegar nýju kennslustofurnar voru settar við skólann í ágúst fengu þær einungis stofunúmer líkt og aðrar kennslustofur skólans. Það er bæði einfaldara og skemmtilegra að þær hafi ákveðin nöfn og því var efnt til nafnasamkeppni og allir nemendur og starfsmenn gátu sent inn tillögur. Tvo skilyrði voru sett:


 • nafnið verður að vera íslenskt
 • æskilegt að nafnið tengist örnefni í umhverfi skólans eða að það tengist starfseminni sem fram fer í skólanum


Í dómnefnd sátu tveir nemendur í 5. bekk (nýju stofurnar eru kennslustofurnar þeirra), einn kennari frá hverju aldursstigi, tónmenntakennari, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri.


Fjöldi tillagna bárust og margar með endingunni -tröð eða -borg sem er tenging við umhverfið. Valnefnin var mjög sammála því að hafa endinguna -borg og því eru húsin tvö kölluð ,,BORGIR". Nýju húsin og tónmenntastofan hafa því öll fengið nöfn og þau eru:


 • Söngvaborg (tónmenntastofan)
 • Skýjaborg
 • Stjörnuborg


Vegna mikilla þrengsla í skólahúsnæðinu er búið að óska eftir því að fá tvær kennslustofur til viðbótar á næsta skólaári og gangi það eftir fá þær nöfnin Tindaborg og Fjallaborg.

Mentor til þæginda

Við hvetjum foreldra til að ná sér í mentor appið í snjalltækin sín. Það er hægt að nálgast í App store eða Google Play undir heitinu infomentor home. Appið er handhægt og býður upp á ýmis þægindi fyrir foreldra. Mentor er með myndabandasíðu á YouTube og þar má m.a. finna kynningu á appinu.


Þá viljum við benda á að hægt er að skrá veikindi barna inn á foreldraaðgangi í mentor. Aðeins er hægt að skrá veikindi í heilan dag en ekki staka tíma. Ritari móttekur skráninguna og um leið og hún er samþykkt er send tilkynning til viðkomandi foreldris. Margir eru farnir að nýta sér þennan möguleika og við hvetjum til þess að sem flestir geri það. Stundum er mikið álag á símkerfi skólans að morgni og erfitt að ná sambandi en með þessu móti er hægt að komast hjá biðinni.


Þegar sótt er um leyfi fyrir nemendur í gegnum Eyðublöð á heimasíðu skólans skráir ritari samþykki á leyfinu í mentor og staðfestingin verður sýnileg undir ,,Ástundun".

Öryggismál

Öryggisnefndir Kópavogsskóla og foreldrafélags Kópavogsskóla áttu sameiginlegan fund 2. desember sl. Þar var farið yfir hvernig öryggismálum skólans er háttað og því daglega eftirliti sem öryggisvörður skólans (húsvörður) sinnir. Vinnureglan er að starfsmenn tilkynna honum um það sem þarf að athuga og hann kallar til iðnaðarmenn ef lagfæringa er þörf. Þau atriði sem voru rædd sérstaklega á fundinum voru:


 • umferðarþunginn á Digranesvegi
 • gangbrautir í nágrenni skólans
 • lýsing og gangbraut yfir Skólatröð
 • gangbraut yfir Digranesveg og lenging á göngustíg upp fyrir bílastæðið svo ekki þurfi að fara yfir hringtorgið
 • lýsing göngustíga og hálkuvarnir
 • kynntar verklegsreglur um meðferð trúnaðarupplýsinga með tilkomu nýrra laga um persónuvernd


Daginn eftir fundinn kynnti garðyrkjustjóri Kópavogs skólastjórum grunnskóla Kópavogs niðurstöður á ,,Aðalskoðun leiksvæðis 2019" en þar er um að ræða úttekt óháðs aðila á skólalóðum og leiktækjum grunnskólanna. Niðurstöðunum er skipt í fjóra flokka eftir alvarleika og níu athugasemdir lentu í flokknum ,,Talsverð áhætta" og þarf að lagfæra innan þriggja mánaða. Þær eru:


 • stórir steinar við tónmenntastofu: eru meira en 60 cm. háir og þar þarf því að setja dempandi undirlag
 • róla 1: þarf að endurnýja keðjur, mála og lagfæra undirlag
 • klifurgrind: viðhald
 • róla 2: lagfæring á grind og undirlag
 • róla 3: undirlag
 • róla 4: undirlag
 • kastali: undirlag
 • hringekja 1: gúmmílag þarf að vera 20 cm breiðara
 • hringekja 2: gúmmílag þarf að vera breiðara


Í reglugerð um leiksvæði kemur fram að undirlag leiktækja þarf að vera af ákveðinni gerð eftir því hvert leiktækið er og því þarf að skipta á nokkrum stöðum. Það er einnig skylda að mála járnfleti leiktækja upp í 1,5 metra til að varna því að lítil börn festi tunguna við járn í frosti.


Allt eru þetta atriði sem er auðvelt er að lagfæra og kostnaður ekki mikill. Garðyrkjudeildin hefur umsjón með leiksvæðum leik- og grunnskóla og sér um allar lagfæringar. Því verður að sjálfsögðu fylgt eftir.

Vegna námsmatsumræðu

Nokkur umfjöllun varð í fjölmiðlum um síðustu mánaðamót vegna námsmats í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Námsmat hefur tekið tölulverðum breytingum eftir að ný Aðalnámskrá grunnskóla tók að fullu gildi árið 2014. Því er eftirfarandi sett hér til að auðvelda foreldrum að kynna sér þær breytingar og hvernig námsmati er háttað í Kópavogsskóla:PISA

Niðurstöður úr PISA 2018 voru birtar á vef Menntamálastofnunnar um síðustu mánaðamót. Markmiðið með PISA er að leggja mat á menntakerfi landa til að draga fram styrkleika og veikleika menntakerfis hvers lands. Í prófinu, sem lagt var fyrir þá nemendur sem luku grunnskólaprófi vorið 2018, var áhersla lögð á að kanna lesskilning, læsi á stærðfræði og læsi á náttúrufræði. Frá því að Ísland fór að taka þátt hefur staðan stöðugt versnað ef árið 2009 er undanskilið eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.
Big picture
Það hefur margt verið sagt um niðurstöðurnar en það er mikilvægt að hafa í huga að vegna smæðar landsins er fyrirkomulag PISA á Íslandi ólíkt flestum þátttökulöndum að því leyti að hér er stefnt að því að allir 15 ára einstaklingar á landinu taki þátt. Undanþágur í PISA eru einungis gefnar vegna sérþarfa í námi, þ.e. líkamlegrar fötlunar, andlegrar fötlunar, eða ónógrar íslenskukunnáttu – og þá aðeins fyrir nemendur sem hafa verið styttra en eitt ár í íslenskukennslu. Hjá öðrum þjóðum er um slembiúrtak að ræða og því aðeins brot nemenda í viðkomandi árgangi sem tekur prófið.


Í þeim þáttum sem prófið nær yfir er lesskilningur grundvallaratriði og til að öðlast góðan lesskilning er lestrarþjálfun lykilatriði. Því miður er það þannig að tími kennara til að sinna lestrarþjálfun minnkar stöðug og hlutur foreldra í lestrarþjálfun barna er ómetanlegur. Myndin hér fyrir neðan er lýsandi og líkt og í öllum íþróttagreinum næst ekki árangur nema með þjálfun. Það biðjum við foreldra að hafa í huga og muna að væntumþykja lýsir sér í því að gera kröfur til barns og veita því sífellt stuðning og aðstoð svo það fari sem best undirbúið út í lífið.

Big picture

Deildarstjóraskipti

Fyrr í haust auglýsti Kópvogsbær laust til umsóknar starf verkefnastjóra og kennsluráðgjafa í upplýsingatækni. Búið er að ganga frá ráðningu í stöðuna og Bergþóra Þórhallsdóttir deildarstjóri í Kópavogsskóla varð fyrir valinu. Hlutverk hennar er að stýra áframhaldandi uppbyggingu og leiða þróun rafrænna kennsluhátta í grunnskólum Kópavogs næstu árin. Bergþóra hefur mikla þekkingu og reynslu á þessu sviði og það verður söknuður af henni hér en um leið spennandi að fá hana í samstarf á öðrum vettvangi næstu árin.


Örlítil breyting verður gerð á starfi deildarstjóra yngra stigs til loka skólaársins. Ólöf Jóna Sigurjónsdóttir umsjónarkennari í 3. bekk færir sig yfir í starf deildarstjóra og tekur yfir flest verkefnin sem Bergþóra sinnti. Hún mun þó áfram kenna nokkra tíma á viku í 3. bekk og Anna Wernersdóttir kennari kemur inn í hálft starf í 3. bekk til loka skólaársins. Bergþóra tekur við nýju starfi um miðjan janúar og nýtir tímann fram að því til að setja nýjan deildarstjóra inn í starfið.