Fréttabréf Naustaskóla

2.tbl 14.árg 2021

Kæra skólasamfélag

Mig langar að færa ykkur foreldrum þakkir fyrir gott samstarf það sem af er þessum vetri. Við starfsfólkið erum líka þakklát fyrir allt hrósið sem foreldrar gáfu okkur í foreldraviðtölunum, og einnig þá gagnrýni og aðhald sem við einnig fengum. Nú í vetur erum við í samstarfi við fræðslusvið Akureyrarbæjar, Háskólann á Akureyri og ráðgjafafyrirtækið Ásgarð, að hefja innleiðingu nýrrar menntastefnu Akureyrarbæjar. Í síðustu viku komu ráðgjafar frá Ásgarði og tóku út kennsluhætti innan skólans. Við munum svo semja umbótaáætlun næsta vetrar á niðurstöðum þeirrar úttektar. Við væntum mikils af þessari samvinnu sem styður okkur við þróun kennsluhátta í takt við nútíma menntunarkröfur og þarfir nemenda. Ein af meginstoðum í stefnu Naustaskóla er að efla sjálfstæði nemenda og ábyrgð þeirra á eigin námi. Hafa kennarar eflaust rætt þessa þætti við nemendur sína og foreldra þeirra í viðtölunum. Það að læra að taka ábyrgð á námi sínu og að læra að nýta sér þær bjargir sem lagðar er upp hendur á nemendum er gott veganesti til framtíðar. Fræðimenn hafa lagt á það áherslu að besta veganesti fyrir nemendur á 21. öldinni sé að kunna sjálfstæð vinnubrögð, að geta tekið ábyrgð á eigin námi og hegðun og að kunna að vinna með öðrum. Búi einstaklingur yfir slíkri færni séu honum flestir vegir færir.


Með kveðju Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri

Á döfinni í febrúar

5. feb - dagur stærðfræðinnar

15. feb - bolludagur

16. feb - sprengidagur

17. - 19. feb - Vetrarfrí ( frístund lokuð 17.feb en opnar 13:00 18. - 19. feb)

21. febrúar ( sunnudagur ) - Konudagur

Námsframvinda nemenda

Við viljum minna foreldra og forráðamenn á að hægt er að fylgjast vel með námsframvindu nemenda inni á Mentor. Með því að smella á „Námsmat“ má sjá hvernig nemendum gengur að ná markmiðum í hinum ýmsu námsgreinum hér í skólanum.

Tannverndarvika 1. – 5. febrúar 2021

Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir tannverndarviku 1.-5. febrúar 2021 með skilaboðum til landsmanna um að huga vel að heilsunni. Áhersla verður á súra orkudrykki sem innihalda koffín en öll þurfum við að vera betur upplýst um skaðleg áhrif orkudrykkja bæði á almenna heilsu og tannheilsu ungmenna.

Aðgerða er þörf svo draga megi úr neyslu á orkudrykkjum, sem innihalda koffín en neysla íslenskra ungmenna í 8.-10. bekk er með því mesta sem þekkist í Evrópu. Þá eru auk þess vísbendingar um að ungmenni geti keypt orkudrykki með mjög háu koffín magni, sem ekki er leyfilegt að selja einstaklingum yngri en 18 ára. Neyslan eykst með hækkandi aldri en einn af hverjum þremur í 8. bekk og um helmingur í 10. bekk segjast drekka orkudrykki.

Ungt fólk virðist í auknum mæli velja þessa drykki í þeirri trú að þeir séu hollir og stuðli að hreysti. Auðvelt er að draga þá ályktun þegar um sykurlausan vítamínbættan drykk er að ræða. Það er hins vegar staðreynd að allir orkudrykkir eru „súrir" sem þýðir að sýrustig þeirra er lágt (pH< 5.5) og því hafa þeir allir glerungseyðandi áhrif á tennur. Bæði sætir og sykurlausir orkudrykkir leysa upp glerung tannanna, sem þynnist og eyðist og myndast ekki aftur. Vandinn getur náð yfir allar tennurnar, sem verða viðkvæmar fyrir kulda og meiri hætta er á tannskemmdum. Glerungseyðing er vaxandi vandamál hjá börnum og ungmennum á Íslandi.

Í tannverndarviku eru stjórnendur verslana hvattir til að huga að framboði, aðgengi og markaðssetningu orkudrykkja sem innihalda koffín. Stjórnendur grunn- og framhaldsskóla eru hvattir til að leggja áherslu á fræðslu, umfjöllun og viðburði sem tengjast orkudrykkjum.

Eftirfarandi fræðsluefni verður aðgengilegt í streymi á vefsíðu embættis landlæknis í tannverndarviku:

Orkudrykkur– draumur í dós eða hvað?
Jóhanna E. Torfadóttir, næringar- og lýðheilsufræðingur

Hvernig getum við komið í veg fyrir glerungseyðingu tanna.
Íris Þórsdóttir, tannlæknir

Orkudrykkir eru óþarfi.
Pálmar Ragnarsson, körfuboltaþjálfari

Að venju eru fyrirtæki sem flytja inn og selja tannhirðuvörur hvött til að nýta sér tannverndarvikuna til að kynna vörur sínar.

Hólmfríður Guðmundsdóttir,
tannlæknir

Réttindaráð

Á þemadögum í desember gerðu nemendur og kennarar sameiginlegt verkefni tengt barnasáttmálanum.

Búið var til glæsilegt tré með 46 greinum. Tréið var sett saman úr bútum og þeir voru myndskreyttir af nemendum okkar. Tréið sjálft, greinar og rætur voru unnar af nemendum í 4.-10.bekk, 1 bútur á mann en laufin voru gerð af 1.-3. b, 1 lauf á mann.


Á næstu dögum munum við hengja verkið upp inn í matsal Naustaskóla. Við óskum bæði réttindaráðinu og nemendum til hamingju með þetta frábæra verkefni.

Vika jákvæðs aga

Í janúar var vika jákvæðs aga. Í þeirru viku unnu allir nemendur með jákvæðni, hópaleiki, hrós, hvað einkennir góðan vin og hvernig við tökumst á við erfiðar aðstæður svo eitthvað sé nefnt.

Bæði kennarar og nemendur voru duglega að vera í hlutverkaleiki og fengu allir starfsmenn Naustaskóla flott endurmenntunarnámskeið hjá Anítu Jónsdóttur.