Fréttabréf Grænna skrefa

Fræðsla, nýjustu fréttir, viðbætur á heimasíðuna og fleira.

Grænu skrefin ganga vel!

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samstarfið á liðnu ári. Grænu skrefin eru komin í fullan gang aftur eftir smá Covid pásu og vinnustaðir eru ýmist að skrá sig eða taka á móti viðurkenningum þessa dagana. Þetta er efst á baugi nú í byrjun janúar:


  • Á síðustu vikum hafa öll útibú borgarbókasafns verið að skrá sig til leiks - einnig skrifstofa ÍTR í Borgartúni. Verið velkomin og gangi ykkur vel!
  • Breiðholtslaug lauk skrefi 2 í nóvember og fékk viðurkenningu.
  • Vegna samkomutakmarkana hefur ekki verið hægt að fara í úttektir og bíða nokkrir starfsstaðir eftir því. Það ætti þó að vera hægt núna með rýmkun reglna.
Big picture

FRÉTTIR AF ENDURVINNSLUMÁLUM

Nú eru komnar nýjar samræmdar merkingar fyrir söfnun úrgangs á Íslandi. Merkin eru íslensk útgáfa af samræmdum norrænum merkingum sem kynntar voru á ráðstefnu FENÚR (Fagráð um endurnýtingu og úrgang) í nóvember síðastliðnum. Markmiðið með þessum nýju merkingum er að styðja við bætta úrgangsstjórnun á landinu og gera flokkun einfaldari og markvissari. Reykjavíkurborg hefur tekið í notkun þessar nýju merkingar á djúpgámum við Hrísateig/Laugalæk.


Merkingarnar eru aðgengilegar öllur á heimasíðu FENÚR og gjaldfrjálsar. Þátttakendur í Grænu skrefunum eru því hvattir til þess að nýta sér þessar merkingar og hlaða þeim niður hér. Merkingarnar er hægt að nota hvort sem er á flokkunartunnur eða á skápa sem geyma ýmsa hluti eða til að merkja sérsöfnun á einhverju sérstöku, því að merkingarnar eru fjölbreyttar og ná yfir mjög marga flokka. Einnig er merkingarnar í boði með enskum og pólskum texta.

FRÆÐSLA Í BOÐI

Hvernig fræðslu vilt þú fá á þinn vinnustað?

Viltu fræðslu á þinn vinnustað um Grænu skrefin eða eitthvað því tengt?

  • Almenna kynningu á Grænu skrefunum (styttri eða lengri)?
  • Fræðslu um vistvæn innkaup?
  • Fræðslu um grænt bókhald?
  • Fræðslu um flokkun og úrgangsmál?
  • Eða eitthvað annað umhverfistengt sem þér dettur í hug?


Hugsaðu málið og sendu okkur línu á graenskref@reykjavik.is til að spyrja um fræðslumál.

Leiðtogaþjálfun og Grænu skrefin

Ef þú vilt fara út í viðameiri þjálfun og fræðslu, taka umhverfismálin föstum tökum á vinnustaðnum og stuðla að því að hugsunin nái inn í kjarna starfseminnar, þá mæla Grænu skrefin með Andrými - sjálfbærnisetri. Andrými - sjálfbærnisetur býður upp á námskeiðið Grænir leiðtogar - leiðtogaþjálfun sem tengist sérstaklega þeirri vinnu sem á sér stað við innleiðingu Grænna skrefa. Sjá hér https://andrymi.is/fraedsla-og-vinnustofur/graenir-leidtogar/