Fréttabréf Naustaskóla

7. tbl. 12. árgangur nóvember 2020

Kæra skólasamfélag

Það hefur lengi verið ljóst að sveigjanleiki er nauðsynlegur í öllu skólastarfi á öllum tímum. Á þessu hausti má segja að sveigjanleikinn hafi verið nýttur til hins ýtrasta til þess að halda uppi eðlilegu skólastarfi á tímum Covid. Nánast í hverri viku koma upp nýjar áskoranir sem þarf að takast á við, nýjar lausnir og oft þarf skjót viðbrögð. Við erum þakklát fyrir það góða starfsfólk Naustaskóla sem af einurð og æðruleysi leggur sig fram um að halda upp gleði og skemmtilegum áskorunum í náminu. Einnig ber að þakka foreldrum og forráðamönnum fyrir góða samvinnu og hversu tilbúnir þeir eru að nýta sér fjarfundaleiðina í samskiptum við skólann. Gott dæmi eru foreldraviðtölin í byrjun nóvember sem að þessu sinni fara fram rafrænt . Við höfum þá trú að með því að taka höndum saman og horfa bjartsýn fram á veginn mun skólastarf í Naustaskóla blómstra þrátt fyrir ógnvættinn Covid 19.

Varðandi breytingar á skólastarfi þá munum við senda ykkur upplýsingar um leið og við vitum meira.

Stjórnendur Naustaskóla.

Viðtalsdagur 3. nóvember 2020

Þriðjudaginn 3. nóvember verða rafræn nemendastýrð foreldraviðtöl. Foreldrar bóka tíma á mentor og skoða nemendasamtalsblaðið með börnunum. Kennari sendir link á fundinn og nemendur verða heima með foreldrum þegar viðtalið á sér stað við tölvu/síma.

Ef foreldrar verða í tölvu og eru ekki með teams aðgang er best að opna teams í chrome vafranum og velja continue on this browser. Ef foreldrar verða í síma þarf að vera búið að ná í teams appið. Kennarar í 4.- 10.bekk munu nota meet forritið hjá google og munu senda öllum link á viðtalsdegi.

Við vonum svo sannarlega að þetta muni heppnast vel en hafið endilega samband við kennara ef þið eruð óörugg.

Stundvísi!

Stundvísi er dyggð sem mikilvægt er að allir tileinki sér. Flestir nemendur Naustaskóla mæta á réttum tíma í allar kennslustundir en þeir eru til sem ekki passa upp á það. Það getur valdið óþægindum bæði fyrir viðkomandi nemendur og bekkjarfélaga hans. Mikilvægt er að heimili og skóli taki höndum saman við að venja nemendur á að mæta stundvíslega til verka.

Á döfinni í nóvember

3. nóvember - viðtalsdagur á netinu

6. nóvember - Dagur gegn einelti

10. nóvember - smiðjuskil 2. - 3. bekk

12. nóvember - nemendadagur

13. nóvember - Starfsdagur (frístund lokuð fyrir hádegi)

18. - 20. nóvember - Þemadagar

30. nóvember - skreytingardagur

Öryggi í umferðinni!!

Kæru foreldrar og forráðamenn, nú þegar það er farið að dimma er MJÖG mikilvægt að börnin og reyndar við öll notum endurskinsmerki eða endurskinsvesti þegar við erum í umferðinni. Í myrkri sjást gangandi og hjólandi vegfarendur illa þrátt fyrir götulýsingu. Útsýni ökumanna er allt annað en þeirra sem eru gangandi eða hjólandi. Gangandi eða hjólandi vegfarendur ættu því ætíð að nota viðeigandi öryggisbúnað s.s. endurskin, ljósabúnað og hjálm. Við beinum því til ykkar að yfirfara hjólabúnað og yfirhafnir barnanna og ganga úr skugga um að endurskinsmerki séu á yfirhöfnum og glitaugum og ljós á reiðhjólum. Verum vel upplýst og örugg í umferðinni! Hér má sjá gott myndband um endurskinsmerkjatilraun

https://www.youtube.com/watch?v=tIq7VBCoMsw

Sóttvarnarreglur

Foreldrar og aðrir gestir eru vinsamlegast beðnir um að koma ekki inn í skólann nema í brýnni nauðsyn. Þeir gestir sem þurfa nauðsynlega að koma inn í skólabygginguna eru beðnir um að hafa andlitsgrímu og spritta sig áður en inn er haldið.
Big picture