Fréttabréf forseta í lok sept. 2018

Delta Kappa Gamma félag kvenna í fræðslustörfum

Big picture

Vetrarstarfið

Kæru systur

Nú er komið að lokum september og deildastarfið væntanlega komið á fullt hjá öllum deildum. Ég vona allir hafi munað eftir að setja verkefnin tvö, myndatökurnar og þekkingarforðann inn í dagskrá vetrarins. Það væri líka frábært ef fundaáætlanir deilda gætu komið á vefinn sem fyrst.

Kveðja

Jóna

Framkvæmdaráðsfundur í september

Árlegur framkvæmdaráðsfundur var haldinn 8.september. Á fundinn voru boðaðir formenn deilda og fastanefnda og var þátttakan mjög góð. Allar deildir áttu fulltrúa á fundinum og allar nefndirnar nema laganefnd. Framkvæmdaráð fundar að minnsta kosti tvisvar á hverju kjörtimabili. Á fyrri fundinum er lögð fram tillaga stjórnar að framkvæmdaáætlun sem er rædd og formenn geta komið með breytingatillögur. Að því loknu er framkvæmdaáætlun samþykkt og með henni er lagður grunnur að þeim viðfangsefnum sem vinna skal að á næstu tveimur starfsárum félagsins. Á seinni framkvæmdaráðsfundi kjörtímabilsins hafa yfirleitt orðið formannaskipti í öllum deildum. Okkur þótti því við hæfi að fara yfir framkvæmdaáætlunina með nýjum formönnum og var drjúgum tíma varið til þess. Þau tvö verkefni sem eru styst á veg komin eru annars vegar það að setja myndir inn í félagatalið. Tvær deildir eru komnar með myndir af félagskonum. Nokkur umræða varð um hvernig best væri að framkvæma þetta og niðurstaðan varð að líklega væri einfaldast að deildirnar settu myndir á vefsíðunar og félaga-og útbreiðslunefnd afritaði þær þaðan og setti í stóra félagatalið okkar.

Annað verkefni sem talsvert á eftir að vinna í er ,,Þekkingarforðinn". Búið er að setja hnapp á vefsíðuna okkar sem hefur þetta góða nafn. Nú er bara að safna saman upplýsingum um erindi og fyrirlestra sem deildarkonur eru tilbúnar að flytja með skömmum fyrirvara og setja þarna undir. Þetta er tilvalið efni á deildarfund og vona ég að í vor verði listinn orðinn langur. Hugmynd okkar með þessum hnappi er að þegar konur í félaginu eru að skipuleggja viðburð geti þær með fljótlegum hætti leitað upplýsinga um efni sem félagskonur geta lagt til.

Þekkingarforðinn

Það verður gaman þegar listinn hér lengist.

Um félagið

Dr. Sigrún Klara Hannesdóttir kom á framkvæmdaráðsfundinn og kynnti sögu og uppbyggingu félagsins fyrir nýjum formönnum. Kynningin hennar verður aðgengileg á vefnum okkar innan skamms.
Big picture

Evrópuráðstefnan - þátttaka

Undirbúningur fyrir ráðstefnuna 25.-27. júlí 2019 gengur vel. Búið er að skipa margar vinnunefndir sem allar hafa tekið til starfa og dagskráin er í mótun. Það er mjög lærdómsríkt að fara á fjölþjóðlega ráðstefnu hjá DKG. Mín upplifun af þeim tveimur ráðstefnum sem ég hef farið á er að þar rann upp fyrir mér að við erum tannhjól í miklu stærra kerfi og ég hef heyrt margar konur segja að það sé ekki fyrr en þær fara á alþjóðaþing og Evrópuráðstefnur sem þær átta sig á hversu öflugt félag DKG er. Ég vil því hvetja ykkur, ágætu DKG systur, til að nýta tækifærið sem skapast næsta sumar til að taka þátt í ráðstefnu og lofa að það verður upplifun. Annað sem við höfum líka rætt er að það væri frábært ef deildirnar gætu, hver á sínu starfssvæði, skoðað möguleika á styrkjum vegna ráðstefnunnar eða gjöfum sem hægt væri að færa öllum konunum sem munu koma. Víða um land starfa fyrirtæki sem hugsanlega eru með einhvern varning sem gæti verið skemmtilegur í slíku samhengi og tengsl okkar liggja víða þegar við leggjum þau saman. Það væri frábært ef allar deildir gætu tekið þetta fyrir og haft hugstormun saman um möguleikana. Þetta var líka rætt á framkvæmdaráðsfundinum og formenn deilda beðnir að huga sérstaklega að þessu.

Landssambandsþing vorið 2019

Nú er orðið ákveðið að landssambandsþing vorið 2019 verður haldið laugardaginn 4.maí í Reykjavík. Alfa og Kappadeildir ætla að sjá saman um umgjörð þingsins.

Við gerum ráð fyrir að aðalfundur verði fyrir hádegi og svo erindi og jafnvel vinnustofur vegna Evrópuráðstefnunnar eftir hádegið. Á aðalfundinum verða stjórnarskipti og ég bið ykkur að hafa í huga að í svona litlu félagi má gera ráð fyrir að allir þurfi einhvern tíman að taka að sér setu í stjórnum og nefndum og taka vel í beiðnir uppstillingarnefndar þegar þær fara að koma. Nánari upplýsingar um dagskrá munu liggja fyrir upp úr áramótum.

Big picture

Núverandi stjórn, formenn deilda, fulltrúar nefnda og aðrir boðsgestir á framkvæmdaráðsfundi.

Big picture

Kvennafrí- kveðja frá Helgu Guðnýju Halldórsdóttur, fulltrúa okkar í undirbúningsnefnd.

Ágætu formenn


Delta Kappa Gamma stendur ásamt fleiri kvennasamtökum og einstaklingum fyrir undirbúningi Kvennafrís 2018 þann 24 okt. n.k., undir slagorðinu: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!

Mig langar að biðja ykkur að bera út boðskapinn til ykkar félagskvenna á fundum eða með tölvupósti, hvetja þær og aðrar í nærsamfélaginu til virkni við undirbúning og/eða þátttöku. Ég setti inn á Facebook DKG kynningarbréf, tengiliður er verkefnastýran Maríanna Clara með netfangið kvennafri2018@gmail.com og símann 695 2702. Hægt er að fá send ýmis hjálpargögn, s.s. veggspjöld, auglýsingar og yfirlýsingar Kvennafrídagsins sjá nánar í kynningarbréfinu.

Bestu kveðjur með von um góða þátttöku.

Helga G Halldórsdóttir