
Flataskólafréttir
Skólaárið 2023 - 2024 - 2.nóvember 2024
Kæra skólasamfélag!
Ég vil byrja þetta fréttabréf á að þakka bekkjarfulltrúum fyrir að halda vel heppnuð hrekkjavökubekkjarkvöld í október. Frábær lausnamiðuð samstaða um að láta salarleysi ekki stoppa okkur í því að viðhalda þessari skemmtilegu hefð. Börnin í skólanum hafa einstaklega gaman að þessari amerísku hátíð og það er gaman að þau gleðjist svona hræðilega yfir þessu. Sömuleiðis vil ég þakka ykkur öllum fyrir komuna í nemendasamtöl undanfarna daga.
Af húsnæðismálum er það að frétta að framkvæmdir standa yfir og ganga kannski aðeins hægar en við hefðum óskað okkur en ganga þó. Eins og flestir hafa tekið eftir er verið að mála húsið að utan og við þökkum veðurguðunum fyrir að það sé enn hægt að vinna í því. Innanhúss á enn eftir að mála tölulvert auk þess sem smíðastofa, heimilisfræðistofa og hátíðarsalur eru enn ókláruð og enn er nokkuð langt í land í þeim rýmum.
Annars gengur skólastarfið prýðilega og við erum ánægð með hvernig veturinn hefur farið af stað.Ekki er mikið um uppbrot í nóvember og við reynum að halda ró okkar næstu vikurnar áður en jólaösin tekur yfir með tilheyrandi spennu og gleði.
Kær kveðja úr Flataskóla,
Hanna
Rafskútuumferð
Við höfum í haust haft töluverðar áhyggjur af umferð rafhlaupahjóla á skólalóðinni og höfum í samstarfi við bæinn verið að leita lausna varðandi þennan vanda. Það sem hefur verið gert núna er að Hopp hefur lækkað hámarkshraða sinna hjóla niður í 15km/klst í námunda við skólann og bærinn hefur sett upp hraðakeilur til þess að reyna að draga úr umferðarhraða. Staðreyndin er sú að mesta ógnin er af hjólum sem eru í einkaeigu því ekki er auðvelt að stjórna hraðanum á þeim. Mörg þeirra sem keyra framhjá skólanum eru ekki nemendur hér en þó er töluvert um það að nemendur okkar komi í skólann á rafhjólum. Hér hafa orðið slys þar sem barn keyrir á barn og sömuleiðis hafa verið atvik þar sem litlu mátti muna. Við biðlum því til foreldra barna sem eiga rafskútur að ræða það við börn sín að koma hægar að skólanum og gæta sín vel á gangandi vegfarendum, nota hjálma og minna á að umferð hjólanna er bönnuð á skólalóðinni.
Helstu viðburðir í nóvember
6.-8.nóvember Dagar umburðarlyndis
8.nóvember - Baráttudagur gegn einelti
16.nóvember - Dagur íslenskrar tungu
20.nóvember - Dagur mannréttinda barna
22. - 23.nóvember - þemadagar
27.nóvember - 7.bekkur fer í skólabúðir í Reykjaskóla
Skáld í skólum
Á næstunni eigum við von á skáldum í skólann. Dagsskráin er ekki af verri endanum en þau Rán Flyering og Hjöleifur Hjartarson verða með erindið Fuglar, flugur, hestar og álfar! fyrir 3.-4. bekk. Náttúran er full af sögum. Þær spretta í haganum eins og blóm. Kúnstin er að sjá þær og tjá þær með eigin hætti. Hægt er að teikna þær, syngja þær, skrifa þær eða segja þær eins og andinn blæs manni í brjóst þann daginn. Rán Flygenring og Hjörleifur Hjartarson eru ekki við eina fjölina felld í sköpun sinni. Með myndum, tali og tónum segja þau frá því hvernig sögur kvikna og bækur spretta og hvernig lítil fluga í hrossaskítshaug getur opnað gáttir inn í fjölskrúðugan heim sagnanna.
Bjarni Fritzon kemur og les upp úr bókum sínum, ORRI ÓSTÖÐVANDI: Jólin eru að koma og SALKA: Hrekkjavakan. Gunnar Helgason kemur og les upp úr sinni nýjustu bók, Bannað að drepa og Hlynur Þorsteinsson leikari kemur og les úr nýjustu bók David Walliams, Ofurskrímslið.
Menntun - Árangur - Ánægja
Í Flataskóla er ýtt undir seiglu, sjálfstæði, skapandi hugsun, sjálfstjórn og samkennd nemenda og starfsfólks. Námið í skólanum er áhugavert, gerðar eru skýrar væntingar til nemenda og öllum gert kleift að vaxa.
Skólapúlsinn
Skólapúlsinn er lagður fyrir nemendur í 6.-7.bekk skólans á hverju ári. Um er að ræða könnun sem er lögð fyrir í flestum skólum landsins. Allir nemendur í 6.-7.bekk taka þátt í þremur hópum, í semptember, janúar og apríl. Fyrstu niðurstöður liggja nú fyrir og það er ánægjulegt að segja frá því að þær koma vel út hjá okkur. Við erum yfir landsmeðaltali í flestum þáttum og stolt af því. Tveir þættir skera sig þó úr, annars vegar tíðni eineltis sem mælist hærri en árið á undan og ánægja með matinn hefur dvínað. Við nýtum okkur þessar niðurstöður til að skipuleggja skólastarfið og erum þegar byrjuð að gefa í með eineltisforvarnir.
Hægt er að nálgast heildarniðurstöður könnunarinnar hér.
Góður svefn er undistaða þess að fólki líði vel. Við verðum svolítið vör við það að börnin eru þreytt í skólanum og mörg tala um að þau fari seint að sofa. Við minnum því á mikilvægi þess að nemendur fái nægan svefn.
Opnunartími skrifstofu
Skrifstofa skólans er opin kl. 7:45-15:00 alla daga vikunnar nema á föstudögum til kl. 14:30
Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is
Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.