Hvalrekinn

27. mars 2020

Big picture

Skólastarf á sérstökum tímum

Ágætu foreldrar,


Þetta eru sérstakir tíma sem við lifum á núna.

í upphafi þessa pistils ætla ég aftur að fá að vitna í Guðna forseta eins og ég gerði síðasta föstudag „Ekki er síður vert að þakka starfsliði skólanna, allt frá háskólastigi að leikskólum landsins. Í menntakerfinu hefur fólk sinnt sínum störfum af alúð og trúmennsku við erfiðar aðstæður, fundið nýjar og frumlegar lausnir, staðið sína vakt með miklum sóma. Því var mér bæði ljúft og skylt að færa kennsluliði landsins góðar kveðjur”

Skólastarf hefur tekið margvíslegum breytingum á undanförnum misserum. Allir skólar eru sífellt að leita leiða til að bæta árangur sinn með hag nemenda og starfsfólks að leiðarljósi. Út frá því og þeim aðstæðum sem eru í þjóðfélaginu í dag höfum við undanfarna daga unnið að vef til að styðja við nám nemenda. Vefurinn mun líka nýtast sem stuðningur við kennara í þeirra kennslu. Frétt um vefinn er hér neðar.

Ég vona að allir komi til með að eiga sem besta helgi og við „sjáumst“ sem flest hress og kát í skólanum á mánudaginn.


Það er mikilvægt að halda okkar striki.


Kristinn Guðlaugsson, skólastjóri.

Hólf 1 - elsta stig

Nemendur í 8. – 10. bekk mæta daglega í klukkutíma í senn (1,5 kennslustund) þar fyrir utan hafa þeir verið með heimavinnu sem nemur um 2 kennslustundum á dag. Kennarar hafa sett inn áætlanir á InfoMentor og Google Classroom sem nemendur hafa unnið eftir.

Það er virkilega gaman að finna hvað allir eru ákveðnir í að láta hlutina ganga upp á þessum skrítnu tímum. Mikilvægt er að koma sér upp vinnuáætlun strax og passa upp á verkefnaskil.


Foreldrum er velkomið að senda fyrirspurnir til kennara en þeim verður þó aðeins svarað á dagvinnutíma.

Hólf 2 - miðstig

Á miðstiginu er sama fyrirkomulag og á elsta stigi. Nemendur mæta daglega og eru í klukkustund hjá umsjónarkennar og miðað er við að heimanám sé um tvær kennslustundir á dag. Kennarar hafa sett inn áætlanir á InfoMentor og Google Classroom sem nemendur hafa unnið eftir.


Nemendur og starfsfólk virðist staðráðið í því að nota jákvæðnina til að gera gott úr hlutunum og reyna að njóta þess sem er.

Hólf 3 - yngsta stig 3. og 4. bekkur

Það hefur gengið vel á yngsta stiginu 3. og 4. bekk þessa daga sem liðnir eru. Hér mæta nemendur kl. 11:20/11:30 og eru í tvær klukkustundir (tvær kennslustundir), miðað er við að heimanám sé um en kennslustund á dag. Reynt er að hafa námið fjölbreytt og nemendur fara út í hreyfingu reglulega yfir vikuna. Þrátt fyrir að margt sé ólíkt venjulegum skóladegi þá eru börnin almennt dugleg að fylgja þeim tilmælum sem þau fá.


Ekki er annað að sjá en nemendum og starfsfólki líði vel í skólanum þrátt fyrir þetta einstaka ástand.

Hólf 4 - yngsta stig 1. og 2. bekkur

Það hefur gengið vel á yngsta stiginu 1. og 2. bekk þessa daga sem liðnir eru. Hér mæta nemendur kl. 11:20/11:30 og eru í tvær kennslustundir, miðað er við að heimanám sé um ein kennslustund á dag. Þeir nemendur sem eru í Holtaseli fara síðan í Holtasel í framhaldi af skólanum. Nemendur eru áfram í sömu hópum/bekkjunum sínum og var um morguninn. Reynt er að hafa námið fjölbreytt og nemendur fara út í hreyfingu reglulega yfir vikuna. Þrátt fyrir að margt sé ólíkt venjulegum skóladegi þá eru börnin almennt dugleg að fylgja þeim tilmælum sem þau fá.


Ekki er annað að sjá en nemendum og starfsfólki líði vel í skólanum þrátt fyrir þetta einstaka ástand.

Hólf 5 - Bjarg

Nemendur í Bjargi eru í skólanum frá kl 9.30 – 11.40. Nemendur fá heimavinnu hver eftir sinni einstaklingsnámskrá. Lögð er áhersla á íslensku og stærðfræði og ensku hjá þeim elstu.


Reiknað er með hreyfingu daglega.

Hólf 6 - stjórnendur

Fámennasta hólfið er tvímælalaust á starfsmannaganginum. Þar eru einungis sjö starfsmenn. Ritarar, bókasafnsfræðingur, húsumsjónarmaður, skólaliðar og annað hvort aðstoðarskólastjóri eða skólastjóri. Þeir skiptast á að vera í húsinu viku í senn. Þó svo að fámennt sé í þessu hólfi er í nógu að snúast þökk sé tölvu og síma.

Heimaskóli Hvaleyrarskóla

Undanfarna daga hefur Þórunn kennsluráðgjafi UT og Sveinn tæknistjóri unnið að vef innan skólans. Vefurinn getur nýst kennurum, nemendum og foreldrum sem brunnur upplýsingar og til aðstoðar námi nemenda. Þessi vefur er og verður í áframhaldandi þróun þar sem nýtt efni verður sett reglulega inn.

Undirspil við íslensk dægurlög

Guðrún Árný tónmenntakennari hjá okkur eru búin að taka upp mikið af undirspili við íslensk dægurlög. Undanfarna daga hefur hún sett dægurlöginn inn á youtube. Það er fátt sem gleður hjartað meira en fallegur söngur. Já, já við getum öll sungið við þennan fagra undirleik Guðrúnar Árnýjar. Hvetjum ykkur til að taka lagið og textarnir koma líka á skjáinn.


https://www.youtube.com/playlist?list=PL1JGavIrs8DZL6WAkpzNLE9VhpPyqEeIQ

Bréf til foreldra og starfsfólks skóla frá sóttvarnalækni og landlækni

Sóttvarnalæknir og landlæknir sendu starfsfólki skóla og foreldrum leik- og grunnskólabarna bréf síðast liðinn þriðjudag. Þar sem þau árétta mikilvægi þess að nemendur í leik- og grunnskólum haldi áfram að sækja skóla þrátt fyrir takmarkanir á skólastarfi. Bréfin má sjá hér:

Hvað getum við gert til að líða vel?

Á þessum fordæmalausu tímum sem við lifum er gott að vera í núinu, muna eftir öllu því góða sem er í kringum okkur og þakka fyrir það, því það er svo margt sem við getum verið þakklát fyrir þó að þessar hörmungar steðji að okkur.


Núvitund er góð leið til að ná ró og yfirvegun og hægt að stunda hvar sem er. Núvitund er að beina athyglinni að augnablikninu, því sem er hér og nú. Rannsóknir sýna að þeir sem stunda núvitund auka vellíðan sína, bæta heilsu, það dregur úr kvíða, streitu og depurð. Til að nálgast æfingar og öpp með núvitund þá er m.a. hægt að fara inn á þessar æfingar sem er hægt að hlaða inn á snjalltæki og hlusta hvar og hvenær sem er.

Á youtube eru hugleiðsluæfingar fyrir börn. En við fullorðna fólkið verðum líka og hugsa um okkur og hér má finna hugleiðsluæfingar fyrir fullorðna. Það er mikilvægt að við hugum að okkar heilsu því við verðum að vera stuðningur fyrir aðra t.d. börnin okkar því þau skynja vel ef við erum ekki í andlegu jafnvægi.


Þegar við eða nemendur erum í leik eða starfi getur verið gott að setja á tónlist eftir t.d. Friðrik Karlsson. Þessi tónlist er afslappandi og getur fengið okkur til að gleyma stund og stað og hugsa um eitthvað fallegt.


Á vefsíður Hugarfrelsis er hægt að kaupa hugleiðslusögur fyrir börn - ekki svo dýrar en alveg frábærar til að hlusta á fyrir svefninn eða bara hvenær sem er.

Nám í skugga Covid -19

Við viljum minna foreldra á að tilkynna veikindi og leyfi eins og venjulega í Mentor. Alltaf skal velja skráningu fyrir heilan dag. Ef um langtímaveikindi eða leyfi er að ræða biðjum við foreldra um að tilkynna það sérstaklega til skólans með tölvupósti á umsjónarkennara og stjórnendur.


Foreldrar og nemendur verða að fylgjast vel með vikuáætlun inni á Mentor en þar munu kennarar koma skilaboðum til nemenda um það nám sem fram fer næstu vikurnar. Nemendur í 5. – 10. bekk nota Ipadinn og þurfa í sumum tilfellum að nota Google Classroom til að vinna verkefni og skila til kennara, ásamt því að kennari setur þar inn skilaboð til nemenda. Þetta á við í þeim árgöngum sem eru vanir að vinna í því umhverfi og eru skilaboð um það á Mentor.


Þá hvetjum við foreldra til að láta börnin sín nýta tímann vel við það nám sem sett er á Mentor og einnig minnum við á að allir nemendur frá 1. – 10. bekk eiga að lesa minnst 15 – 20 mínútur á dag.


Hér má nálgast tillögu að skipulagi á skóladegi fyrir eldri nemendur.

Skólastarf í sérstakri viku

KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA

Myndir eftir nemendur í 9. bekk

Big picture

Á döfinni

  • Allt óráðið í ljósi aðstæðna ;-)

Hvalrekinn


Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim

Kl. 7:45 - 14:00 fösFréttabréf Hvaleyrarskóla. Sent á foreldra nemenda skólans og skólasamfélagið.