Hvalrekinn

Ágúst 2020

Big picture

Við upphaf skóla

Ágætu foreldrar,


Þá fer að líða að upphafi skólaárs hjá okkur í Hvaleyrarskóla. Ég vona svo sannarlega að allir hafi haft það sem best í sumar og flestir getað skoðað sig um á okkar fallega landi. Sól í heiði undanfarna viku eftir ansi rigningarsama ágústbyrjun.


Skólasetning er þriðjudaginn 25. ágúst sjá nánari tímasetningar hér fyrir neðan. Vegna ástandsins í þjóðfélaginu verðum við að hafa skólasetningu nemenda í 2. - 10. bekk án foreldra.

Þó ég geti ekki séð ykkur kæru foreldrar á þriðjudaginn þá minni ég á mikilvægi góðs samstafs því þið eruð öflugur hlekkur í menntun ykkar barna ásamt þeim öfluga starfsmannahópi sem við höfum yfir að ráða.


Góð mæting í skóla er viðamikill þáttur í farsælli skólagöngu og vellíðan barna og unglinga. Að missa ítrekað úr kennslustundum, t.d. í lestri á yngra stigi eða stærðfræði á eldri stigum, getur haft áhrif á námsárangur þegar fram í sækir.

Varðandi lesturinn þá trúum við því að allir hafi verið duglegir að lesa. Það er eins með lesturinn og annað sem við tökum okkur fyrir hendur að eftir því sem við æfum okkur meira þá gengur okkur betur.


Kristinn Guðlaugsson, skólastjóri

Hvaleyrarskóli er hnetulaus skóli

Þar sem nemandi skólans er með bráðaofnæmi fyrir hnetum er Hvaleyrarskóli hnetulaus skóli og biðjum við foreldra jafnt sem starfsfólk að virða það. Nemendur og starfsfólk mega því ekki koma með hnetur í skólann.

Skólasetning

Skólasetningin er sem hér segir:

  • Kl. 8:30 – 9:20 2.- 4. bekkur.
  • Kl. 9:30 – 10:20 5.- 7. bekkur.
  • Kl. 10:30 - 11:20 8.- 10. bekkur.


Vegna aðstæðna verður skólasetning hjá 2. - 10. bekk án foreldra. Kennsla hefst hjá öllum nemendum skólans miðvikudaginn 26. ágúst.


Nemendur í 1. bekk eru með sérstöku bréfi boðaðir til viðtals hjá umsjónarkennara þriðjudaginn 25. ágúst.


Miðvikudaginn 26. ágúst kl. 08:20 verður skólasetning á sal skólan hjá nemendum í 1. bekk. Með hverju barni mega að hámarki koma einn til tveir. Vinsamlega virðið sóttreglur og mælst er til þess að foreldrar komi með grímur á skólasetninguna. Að því loknu fara nemendur í sínar heimastofur og foreldrar verða eftir í salnum þar sem farið verður yfir hagnýtar upplýsingar er varðar skólagöngu barnsins. Upplýsingafundurinn mun standa til um kl. 9:30.

Mataráskrift skólaárið 2020-2021

Í upphafi skólaárs þarf að skrá öll börn í mataráskrift í gegnum heimasíðu Skólamat, sjá vefslóð: https://www.skolamatur.is/ og geta aðstandendur skráð nemendur í mataráskrift. Skráning hefst mánudaginn 24. ágúst.


Ávaxta- og grænmetishressing
Í morgunfrímínútum (á bilinu 9.15-10.10 (um 20 mín. á hóp, hjá sumum afhent í stofur (1.-7. bk.) og öðrum í matsal (8.-10. bk.)) er boðið upp á ávaxta- og grænmetishressingu í áskrift.


Morgunverður
Dagleg rútína hefst með morgunmat, hafragraut, sem er í boði fyrir nemendur og starfsfólk skóla áður en kennsla hefst, eða um 10-15 mín. áður en fyrsta kennslustund hefst. í boði er þorskalýsi. Engar skráningar eru fyrir þátttökunni og mæting frjáls en bærinn kaupir ákveðið magn á hverjum degi fyrir starfsfólk og nemendur eftir þörfum.


Hér má sjá reglur fyrir Niðurfellingu á fæðisgjaldi vegna systkina í grunnskólum Hafnarfjarðar.

Síðdegishressing í grunnskólum Hafnarfjarðar

Það hefur verið hluti af áformum bæjaryfirvalda með breytingum á matarþjónustu í grunnskólum frá síðasta skólaári að nemendur eigi kost á að fá mat allan skóladaginn, í þessu tilviki síðdegishressingu sem síðast bættist við. Hingað til hefur það eingöngu verið mögulegt fyrir nemendur í frístundaheimilum (1.-4. bekkur). Ákveðið hefur verið að bjóða öðrum nemendum (5.-10. bekkur) upp á sama kost og nemendum í frístundaheimilum er boðið upp (sem er hluti af dvalargjaldinu þar). Slíkt verður eingöngu í boði í fastri áskrift eftir vikudögum. Verð á síðdegishressingu er fast eða kr. 220 á dag (athugið að systkinaafsláttur á matarþjónustu í grunnskólum Hafnarfjarðar á eingöngu við hádegismat og því ekki um síðdegishressinguna). Hver skóli útfærir síðan hvernig afhending á síðdegishressingunni fer fram til viðkomandi nemenda sem mun verða tilkynnt þeim sem gerast áskrifendur að síðdegishressingunni.

Áskrift á síðdegishressingu fer fram í gegnum vef Skólamatar, https://askrift.skolamatur.is/ (ef ekki er þegar nein áskrift hjá viðkomandi nemanda, munið að velja skóla fyrst) eða https://www.skolamatur.is/askrift/breyta-askrift (áskrift að hádegismat og/eða ávaxtaáskrift til staðar) og uppsagnir (sjá https://www.skolamatur.is/askrift/uppsogn).

Minnt er á þennan möguleika núna og er skráningarfrestur til 25. september vegna áskrifta sem eiga að hefjast 1. október. 25. mánaðardagur hvers mánaðar er síðan viðmiðunardagur um breytingar (áskrift, breytingar, uppsagnir) milli mánaða.

Skrifstofa mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar.

Holtasel

Nú er nýtt skólaár gengið í garð og stutt í að skólinn byrji á fullu og sama gildir um frístundaheimilið Holtasel. Fyrir ykkur sem ekki þekkið til þá er Holtasel frístundaheimilið í Hvaleyrarskóla og stendur það fyrir fjölbreyttri dagskrá eftir skóla fyrir nemendur í 1. til 4. bekk. Holtasel opnar kl: 13:00 alla skóladaga og er opið til 17:00. Þegar skertir dagar eru í skólanum opnar Holtasel fyrr og þarf að skrá börnin sérstaklega fyrir þá daga, við munum senda póst þegar kemur að þessum dögum.


Þriðjudaginn 25. ágúst er starfsdagur í Holtaseli og því verður lokað þann dag. Miðvikudaginn 26. ágúst er opnað á venjulegum tíma eftir skóla fyrir þá sem eru skráðir og búnir að fá samþykkta umsókn.

Póstur verður sendur til foreldra með nánari upplýsingum áður en Holtasel hefst.

Síminn í Holtaseli er 534-0200 og hægt er að hringja í hann þegar starfið hefst á daginn, einnig er hægt að hringja í vinnusíma deildarstjóra 664-5778.

Suðurbæjarlaug lokuð vegna framkvæmda

Eins og flestir vita verður innilaugin í Suðurbæjarlaug lokuð a.m.k. út nóvember. Vegna þessa verður útikennsla hjá hluta nemenda í 1. - 4. bekk meðan á framkvæmdum stendur.

Kynningafundir fyrir foreldra

Vegna ástandsins í landinu (Covid) munum við ekki halda fyrirhugaða kynningafundi með foreldrum. Þess í stað munum við tengja hér að neðan glærur sem við ætluðum að vera með á þessum fundum. Við biðjum ykkur um að lesa þær vel yfir og hafa samband við okkur ef þið hafið einhverjar spurningar.


Reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar

Við minnum á samræmdar reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar en kynning á þeim er í kynningarglærum árganganna. Reglur og viðbragðsáætlun eru samræmdar þannig að ekki sé mismunun milli skóla bæjarins.


Starfsfólk skólanna í Hafnarfirði hefur áhyggjur af minnkandi skólasókn og fjölgun nemenda sem teljast falla undir skilgreiningar um skólaforðun. Í reynd eru allar fjarvistir frá skóla óheppilegar af ýmsum ástæðum og því er ekki gerður greinarmunur á fjarvistardögum þótt greinarmunur sé gerður á tilefni fjarvista. Eftir því sem skólasókn fer minnkandi taka við aukin viðbrögð af hálfu skóla til að koma sem lengst í veg fyrir að námsárangur nemenda versni vegna slakrar skólasóknar og vanlíðan aukist.

Meginefni reglanna er:


1. AÐ VIRÐING SÉ BORIN FYRIR SKÓLASÓKN

Allt skólasamfélagið (forsjáraðilar, nemendur, starfsfólk skóla) verður að bera virðingu fyrir mikilvægi skólasóknar alla 180 skóladaga nemenda í grunnskóla á hverju skólaári.


2. AÐ SKÓLA BERI ENGIN SKYLDA TIL SÉRSTUÐNINGS VEGNA LEYFA

Starfsfólk skóla ber ekki skylda til að þjónusta einstaka nemendur sérstaklega vegna fjarvista frá skóla, hverju nafni sem þær nefnast, og skulu forsjáraðilar ekki óska eftir slíkri þjónustu (t.d. að kennarar gefi út sérstaka heimavinnu eða skilaboð þegar um er að ræða persónuleg leyfi fjölskyldna).


3. AÐ SKRÁÐ SÉ RAUNSKÓLAMÆTING Í LOK SKÓLAÁRS Á VITNISBURÐARBLAÐ NEMANDA

Allar fjarvistir, hverju nafni sem þær nefnast, búa til eina raunmætingareinkunn sem gefin er á vitnisburðarskírteini nemenda í lok skólaárs, sem prósentuhlutfall af skólasókn yfir skólaárið.


4. AÐ GEFIN SÉ ÁRLEG LOKAEINKUNN (A-D) VEGNA SKÓLASÓKNAR Á VITNISBURÐARBLAÐ

Ástundun sem snýr að fjarvistum, seinkomum og brottrekstri úr kennslustundum mynda á einu skólaári skólasóknareinkunn sem hver nemandi fær á matskvarðanum A, B+, B, C+, C og D í samræmi við kvarða (sjá fylgiskjal póstsins).


5. AÐ VIÐBRÖGÐ SKÓLA OG BARNAVERNDAR VIÐ MINNKANDI SKÓLASÓKN SÉU SAMHÆFÐ

Þótt forsjáraðilar hafi víðtækar heimildir til að tilkynna veikindi og leyfi frá skóla munu skólar bregðast við öllu slíku sem „fjarvistum“ óháð tilefni, í samræmi við reglur. Allar fjarvistir frá skóla eru óheppilegar og miklar fjarvistir (umfram 10% kennslutímans eða 18 skóladaga á skólaári) geta hamlað námsárangri barna. Það er skylda nemenda að mæta í skóla nema að löggild forföll hamli. Umræddar reglur gilda um alla grunnskóla Hafnarfjarðar jafnt og færast með nemendum flytji þeir á milli skóla innan Hafnarfjarðar á skólaárinu.

Aðalfundur foreldrafélagsins

Aðalfundur foreldrafélagsins verður haldinn miðvikudaginn 9. september kl. 18.00 í fyrirlestrarsal skólans. Nánar auglýst þegar nær dregur.

Stjórn foreldrafélgsins.

KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA

Hvalrekinn


Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim

Kl. 7:45 - 14:00 fösFréttabréf Hvaleyrarskóla. Sent á foreldra nemenda skólans og skólasamfélagið.