Fréttabréf Grenivíkurskóla
3. tbl. 3. árg. - mars 2022
Kæra skólasamfélag
Hún skall þá aldeilis á okkur með alvöru hvelli, veiran skæða, þegar hún loksins stakk sér niður. Stór hluti nemenda og starfsfólks hefur undanfarna daga og vikur verið frá vegna veikinda en sem betur fer virðast flestir þó vera fljótir að ná sér. Skólastarfið hefur eðlilega litast talsvert af þessum kringumstæðum undanfarið, en þó hefur tekist að halda skólanum opnum og kennslu gangandi að mestu leyti. Nú er bara að vona að þetta fari að verða yfirstaðið og að við getum haldið úti eðlilegu skólastarfi í takmarkalausu samfélagi það sem eftir lifir skólaárs!
Fram að páskum verður hjá okkur í starfsnámi þýskur kennaranemi, Carla Wiegartz, en hún mun að mestu leyti starfa með teymi unglingastigs. Við bjóðum hana velkomna og hlökkum til að kynna henni störf í íslenskum skóla.
Nú er annars í gangi vetrarfrí í fyrsta sinn í Grenivíkurskóla og vonum við að nemendur og aðstandendur njóti þess vel. Skóli hefst á nýjan leik þann 7. mars nk., en þá halda nemendur í 7. og 8. bekk af stað í Skólabúðirnar að Reykjum sem verður örugglega mikið ævintýri.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Logi og glóð - verðlaunahafi
Heilsueflandi skóli
Reglulega tökum við umræður í skólanum um mikilvægi þess að haga sér sómasamlega, bæði í raunheimum, en ekki síður í netheimum. Börn og unglingar eru í vaxandi mæli sítengd umheiminum í gegnum hin ýmsu tæki og tól og kallar það á ýmsar nýjar áskoranir, s.s. neteinelti, sem og nýja birtingarmynd kynferðisofbeldis þar sem ögrandi myndir fara í dreifingu um netið.
Mikilvægt er að eiga samtal um þessi mál við börn og unglinga og gera þeim grein fyrir hættunni sem getur fylgt því að senda ögrandi myndir eða annað vafasamt efni í gegnum netið. Netið gleymir nefnilega afar litlu og eitthvað sem er ætlað einhverjum einum eða lokuðum hópi getur verið fljótt að fara á flug.
Í þessi myndbandi fer Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir yfir þessi mál á yfirvegaðan hátt og hvet ég foreldra og forráðamenn til að kynna sér það og horfa jafnvel á með sínu barni/unglingi.
Dagatal Velvirk ber að þessu sinni yfirskriftina Í núvitund í mars. Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Grænfáninn
Grænfánaverkefnið á Íslandi fagnar 20 ára afmæli á þessu skólaári og í tilefni þess hefur Landvernd útbúið mánaðarlega afmælispakka sem samanstanda af fræðsluefni og verkefni sem tileinkað er ákveðnu viðfangsefni. Við munum nota þetta efni hér í skólanum og leyfum því einnig að fylgja með í fréttabréfunum okkar svo áhugasamir geti kynnt sér málið.
Afmælispakki mars fjallar um fatasóun og honum fylgja fróðlegar upplýsingar og skemmtileg verkefni.
Á döfinni í mars
- 1. mars: Sprengidagur
- 2. mars: Öskudagur
- 2.-4. mars: Vetrarfrí
- 7. mars: 1.-4. bekkur fer á skauta
- 7.-11. mars: 7.-8. bekkur fer í Skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði
- 14. mars: Dagur stærðfræðinnar
- 17. mars: Samskóladagur fyrir 8.-10. bekk í Stórutjarnaskóla
- 25. mars: Valgreinaskipti - nú valgrein byrjar
Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla