Flataskólafréttir

Skólaárið 2021-2022 - 2. maí 2022

Kæra skólasamfélag!

Nú fer heldur að styttast í skólaárinu og framundan er hefðbundinn maímánuður þar sem ýmislegt er á döfinni. Því miður misstu allir árgangar nema 6. bekkur af skíðaferðum þennan veturinn en það vantaði herslumuninn að fjallið héldist opið svo við gætum brugðið okkur á skíði. En þá er bara að krossa fingur og vona að það viðri betur fyrir okkur næsta vetur.


Nú eru í gangi hefðbundin vorverk hjá okkur eins og t.d. hreinsun skólalóðarinnar eftir veturinn en það er fastur liður hjá okkur að nemendur taka fyrir ákveðin svæði og plokka og sópa. Framundan eru svo síðustu vikur skólaársins og um að gera að allir haldi vel á spöðunum og klári veturinn með glæsibrag. Síðustu daga skólaársins munum við að venju víkja frá hefðbundinni stundaskrá og m.a. njóta útivistar í góða veðrinu sem við eigum von á að gleðji okkur áfram. Við auglýsum dagskrá þeirra daga í síðasta fréttabréfi skólaárins sem kemur út upp úr 20. maí.


Eins og fram kom í síðasta fréttabréfi hefur verið rætt að Garðaskóli fái hluta húsnæðis Flataskóla til afnota næsta vetur enda fækkar nemendum hjá okkur en fjölgar hjá þeim. Þetta hefur nú verið ákveðið og munu þau nýta fjórar kennslustofur sem eru í norðurálmu skólans. Þetta húsnæði liggur vel við "samgöngum" við Garðaskóla, er vel afmarkað og með sér inngangi og hentar því ágætlega til tímabundins láns milli skólanna.


Undanfarið höfum við undirbúið komu níu nýrra nemenda í leikskóladeildina okkar en þar er um að ræða börn úr hópi flóttafólks frá Úkraínu. Hópur fjölskyldufólks fékk húsnæði í Urriðaholti og var leitað til okkar í Flataskóla um að taka á móti leikskólanemendum hópsins. Stefnt er að því að þau hefji aðlögun á næstu dögum. Við munum að sjálfsögðu öll taka vel á móti þeim og erum glöð að geta veitt örlitla aðstoð í þeim þrengingum sem þessar fjölskyldur ganga í gegnum.


Bestu kveðjur úr skólanum!

Ágúst skólastjóri

Helstu viðburðir framundan:

  • 13. maí - Schoolovision
  • 19. maí - Vorskóli fyrir verðandi 1. bekkinga
  • 24. maí - Útskriftarferð leikskóladeildar
  • 26. maí - Uppstigningardagur - frí
  • 27. maí - Skipulagsdagur leik- og grunnskóla
  • 31. maí - Unicef hreyfingin
  • 1.-2. júní - Útivistardagar
  • 3. júní - Flataskólaleikar
  • 6. júní - Annar í hvítasunnu - frí
  • 8. júní - Skólaslit grunnskóla

Leiðsagnarnám

Eins og áður hefur komið fram vinnum við að því þessi misserin að tileinka okkur hugmyndafræði leiðsagnarnáms og innleiða þá námsmenningu í skólastarfinu. Þetta er tvímælalaust stærsta verkefnið okkar í þróun skólastarfsins og því mikilvægt að allir hafi nokkra innsýn í hvað leiðsagnarnám felur í sér. Á opnum fundi skólaráðs um daginn var einmitt smá kynning á leiðsagnarnámi og hvað það þýðir. Þeir sem misstu af þeim fundi geta fengið örlitla kynningu á málinu með því að skoða myndbandið hér fyrir neðan en það er gefið út af Menntamálastofnun og gefur nokkra mynd af því sem um ræðir.
Leiðsagnarmat | Leiðsagnarnám

Styrkur úr Þróunarsjóði leikskóla Garðabæjar

Eins og fram kom í síðasta fréttabréfi fengum við úthlutað styrkjum til fimm verkefna fyrir næsta vetur úr Þróunarsjóði grunnnskóla Garðabæjar, sem við erum afar stolt af. Nú hefur einnig verið úthlutað úr Þróunarsjóði leikskóla bæjarins og þar hlutum við einnig styrk til að þróa stofufundi, lýðræði og lausnaleit í leikskólastarfinu. Það er því sannarlega hugur í okkur og verður gaman að sjá öll þessi verkefni springa út á næstu misserum.

Af störfum réttindaráðs

Flataskóli er réttindaskóli Unicef sem þýðir að við höfum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til hliðsjónar í starfinu og gætum þess að nemendur geti komið sínum skoðunum og ábendingum á framfæri um hvaðeina sem varðar skólastarfið. Einn liður í þessu er starfsemi réttindaráðs en það er nefnd sem skipuð er fulltúum nemenda og hefur einmitt það hlutverk að koma rödd nemenda og þeirra hugmyndum til skila. Í gegnum tíðina hefur réttindaráðið komið ýmsu til leiðar en nýjasta verkefni þess snýst um aðgengi að boltum og öðru leikefni fyrir nemendur. Að tillögu réttindaráðs erum við nú að taka í notkun árgangasett af boltum o.fl. en fulltrúar í réttindaráði aðstoða svo við skipulag og við að efla ábyrgðartilfinningu annarra nemenda gagnvart leikföngunum.

Morgunsamverur komnar á fullt skrið

Undanfarnar vikur höfum við hafið morgunsamverur af fullum krafti á nýjan leik og er þar sungið og leikið af list. Á mánudögum og föstudögum er sungið en á miðvikudögum eru nú árgangar að nýju farnir að stíga á stokk með atriði sín. Við náum einni umferð fyrir sumarfrí þannig að allir árgangar ná að láta ljós sitt skína. Atriði árganga eru með ýmsu sniði en markmiðið er að allir nemendur skólans venjist því að koma fram á sviði og taka þátt í flutningi af einhverju tagi. Þetta getur að sjálfsögðu verið smá átak fyrir suma en æfingin skapar meistarann og þarna fer sannarlega fram mikilvægt nám og þjálfun, bæði fyrir flytjendur og áheyrendur. Síðasta miðvikudag var það leikskóladeildin sem tróð upp en þau fluttu þulu og sungu, kenndu öðrum nemendum klappþulu og stóðu sig hreint frábærlega.

Ferð 7. bekkjar í Vatnaskóg

Þar sem skólabúðaferð 7. bekkjar brást þetta árið urðum við að nota varaplan eins og í fyrra og nemendur 7. bekkjar brugðu sér þess í stað í Vatnaskóg í fjóra daga. Veðrið lék við hópinn, ferðin tókst öll hið besta og nemendur voru að sjálfsögðu til fyrirmyndar. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir úr ferðinni og eins og sjá má var ýmislegt skemmtilegt brallað.

Um rafhlaupahjól

Vinsældir rafhlaupahjóla hafa aukist að undanförnu hér á landi og nú hefur Samgöngustofa tekið saman upplýsingar um notkun þeirra og öryggi á www.samgongustofa.is/rafhlaupahjol. Við hvetjum forráðamenn nemenda sem hafa slík tæki til notkunar til að kynna sér það efni sem þarna er að finna en hér fyrir neðan má einnig sjá fræðslumyndband um rafhlaupahjól og notkun þeirra.
Rafhlaupahjól - íslenskur texti

Menntastefna Garðabæjar

Nú er komin út endurskoðuð menntastefna Garðabæjar 2022-2030. Stefnan byggir á grunni skólastefnu bæjarins frá 2014 en undanfarna mánuði hefur verið unnið að uppfærslu hennar í samráði við nemendur, skólastarfsfólk, kjörna fulltrúa, forráðamenn og bæjarbúa. Stefnan tekur mið af þeim fjölmörgu lagabálkum og stefnum sem gilda um og taka til skólastarfs og tengdrar þjónustu, aðalnámskrám grunn- og leikskóla og verkefna sem unnið er að og tengjast menntastefnu enda er skólastarf barna að 16 ára aldri á verksviði sveitarfélaga.

Garðabær er aðili að Heilsueflandi samfélagi þar sem unnið er að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa og verið er að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla stjórnsýslu og starfsemi í gegnum verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Þá er leitast við að láta alla stefnumótun taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Markmiðin eru samofin og samverkandi en mikil tenging er við menntastefnu stjórnvalda, þá sérstaklega markmið um
menntun fyrir alla, markmið um heilsu og vellíðan.

Menntastefnu Garðabæjar er ætlað að leggja grunn að farsælu og framsæknu skólastarfi sem einkennist af jákvæðum skólabrag og veitir öllum börnum menntun og færni til mæta þeim áskorunum sem felast í hröðum og stöðugum samfélags- og tæknibreytingum.

Það er um að gera fyrir foreldra og aðra áhugasama að kynna sér plaggið en það má nálgast hér.

Leyfisbeiðni í gegnum Mentor

Við minnum á að nú geta forráðamenn sótt um leyfi fyrir nemendur rafrænt í gegnum mentor.is eða mentorsmáforritið í símum sínum. Þetta kemur í stað þess að skila inn útprentuðum eða skönnuðum leyfisbeiðnum og auðveldar utanumhald fyrir alla aðila. Leiðbeiningar vegna þessa má finna á eftirfarandi slóð: http://flataskoli.is/foreldrar/forfoll-nemenda/

Tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2022

Athygli er vakin á því að opnað hefur verið fyrir tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2022.

Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi skólastarf, kennslu, þróunarverkefni, auk sérstakra hvatningarverðlauna til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

Sérstök athygli er vakin á því að í ár bætist við nýr verðlaunaflokkur: Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun, ein verðlaun veitt kennara, námsefnishöfundi, skóla- eða menntastofnun fyrir framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar. Þessi nýi flokkur er til orðinn að frumkvæði Samtaka iðnaðarins sem nú hafa gengið til liðs við þá aðila sem að verðlaununum standa.

Tilnefningar þurfa að berast fyrir 1. júní, en viðurkenningarráð velur þrjár til fimm tilnefningar í hverjum flokki til kynningar á alþjóðadegi kennara 5. október. Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn í nóvember og mun RUV sýna frá afhendingunni.

Nánari upplýsingar um verðlaunin og tilnefningarnar er að finna á þessari slóð: https://skolathroun.is/menntaverdlaun/

Big picture
Skólamatur - skráning

Við minnum á að breytingar á mataráskrift þarf að tilkynna fyrir 25. dag hvers mánaðar ef þeirra er óskað. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan má nálgast skráningarsíðu og áskriftarskilmála.

Skóladagatal næsta skólaárs

Hér fyrir neðan má sjá skóladagatal næsta skólaárs. Skólasetning verður þann 23. ágúst og fastir liðir í starfinu á svipuðum tímum og venjulega. Rétt er að vekja athygli á að vetrarfríið næsta vetur verður 13.-17. febrúar og biðjum við forráðamenn að hafa það í huga við skipulagningu á utanlandsferðum og þess háttar!

Opnunartími skrifstofu

Skrifstofa skólans er opin kl. 7:45-15:00 alla daga vikunnar nema á föstudögum til kl. 14:30

Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is


Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.

Öll leyfi skal sækja um í gegnum Mentor.