Fréttabréf Grænna skrefa

Fræðsla, nýjustu fréttir, viðbætur á heimasíðuna og fleira.

Hvað er að frétta?

Fréttabréf no. 9 átti að koma í ágúst en vegna fjórðu bylgu Covid-19 sem hristi heldur betur upp í allri starfsemi Reykjavíkurborgar og vegna sumarfría var ákveðið að bíða þar til betri rútína væri komin á. Svo að nú í byrjun september 2021 er staðan þannig að 4 nýir starfsstaðir hafa bæst við Grænu skrefin í sumar. Það eru Rimaskóli, frístundamiðstöðin Miðberg, Engjaskóli og leikskólinn Gullborg.


Þrír staðir hafa fengið viðurkenningu frá því að síðasta fréttabréf var sent út og eru myndir af því hér fyrir neðan.

Umhverfisvæn hreinsiefni

Við leggjum mjög mikla áherslu á það í Grænu skrefunum að keypt séu inn umhverfisvæn hreinsiefni. Það á ekki eingöngu við um það hreinsiefni sem notað er til almennra þrifa, heldur einnig glerúða, handsápu, blautklúta, þvottaefni og uppþvottalög.


Að kaupa umhverfisvæn efni er hluti af vistvænum innkaupum og gott er að allir kynni sér helstu umhverfismerkin sem öruggt er að fylgja, sjá hér. Ef varan er merkt með einhverju af þessum umhverfismerkjum getum við verið örugg um að innihaldsefnin í vörunni skaði ekki umhverfið eða okkur sjálf, en að auki er horft til framleiðslu og flutnings á vörunni sem og hvað verður um hana í lok notkunar þegar umhverfisvottanir eru veittar.


Að nota umhverfisvottaðar vörur er gott fyrir umhverfið en ekki síður mikilvægt fyrir okkur sjálf og börnin okkar. Ýmiss konar þrávirk og hormónabreytandi efni er að finna í hreinsiefnum og það getur haft áhrif á lífríki jarðar þegar þessi efni skolast út í umhverfið en nýlegar rannsóknir sýna að þessi efni hafa einnig mjög skaðleg áhrif á okkur og líkamsstarfsemi okkar. Nú er hætta á að frjósemi karla rýrni svo mjög að þeir verði ófrjóir eftir einungis 25 ár


Á Íslandi er notkun margra innkyrtlatruflandi efna bönnuð en þó ekki allra og við vitum bara að það er alltaf betra að velja sem náttúrulegust efni og umhverfisvottaðar vörur.


Lesið meira um þetta hér https://ust.is/graent-samfelag/graenn-lifstill/varasom-efni/innkirtlatruflandi-efni/

og hér https://ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2021/09/08/Skadleg-efni-vida-i-daglegu-umhverfi/

FRÆÐSLA Í BOÐI

Kynningarglærur um Grænu skrefin til eigin afnota.

Ef þú vilt kynna Grænu skrefin betur fyrir starfsfólk og samstarfsfélaga þá er glærupakki á heimasíðu Grænna skrefa sem allir geta notað að vild. Sjá hér: https://graenskref.reykjavik.is/forsida/glaerur/

Fundur fyrir tengiliði Grænna skrefa

Allir þátttökustaðir í Grænu skrefunum geta sent einn eða fleiri tengiliði á fundinn, eða tengiliður / starfsmaður sem vinnur að Grænu skrefunum getur sjálfur skráð sig á fundinn. Fundurinn er ætlaður þátttakendum í Grænu skrefunum sem hafa komið innleiðingunni af stað og vilja spyrja spurninga eða spjalla við aðra í sömu sporum. Á fundinum segjum við reynslusögur, spyrjum spurninga og fáum svör og ráðleggingar.

Hvar: Fjarfundur á Webex. Tengill verður sendur á þá sem skrá sig hjá Grænum skrefum.

Næsti fundur verður: Fimmtudaginn 7. október kl. 15:00 - 16:00

Hvernig fræðslu vilt þú fá á þinn vinnustað?

Viltu fræðslu á þinn vinnustað um Grænu skrefin eða eitthvað því tengt?

  • Almenna kynningu á Grænu skrefunum (styttri eða lengri)?
  • Fræðslu um vistvæn innkaup?
  • Fræðslu um grænt bókhald?
  • Fræðslu um flokkun og úrgangsmál?
  • Eða eitthvað annað umhverfistengt sem þér dettur í hug?


Hugsaðu málið og sendu okkur línu á graenskref@reykjavik.is til að spyrja um fræðslumál.