Fréttabréf Naustaskóla

1. tbl. 14. árg Janúar 2021

Kæra skólasamfélag

Gleðilegt ár!

Á þessu óvenjulegu tímum í miðjum heimsfaraldi erum við ánægð að geta hafið eðlilegt skólahald á nýju ári. Síðustu mánuðir hafa reynt á þolinmæði og sveigjanleika bæði nemenda og starfsfólks. En saman hefur okkur tekist að finna lausnir til að gera skólastarfið markvisst og skemmtilegt. Litlu jólin voru með óhefðbundnu sniði en með hjálp tækninnar tókst okkur að eiga notalega jólastund með nemendum okkar – við höfðum meira að segja rafrænt jólaball undir stjórn lagvissra starfsmanna.

Á þessum tímamótum höldum við bjartsýn inn í nýtt ár og höldum áfram að þróa skólastarfið í takt við nútímann og kröfur samfélagsins til menntunar. Frá því í haust hafa kennarar á mið - og unglingastigi tekið þátt í þróunarverkefninu Læsi fyrir lífið, sem stýrt er af Háskólanum á Akureyri, einnig hafa kennarar á yngsta stigi fengið leiðsögn um samvinnunám ásamt því að innleiða nýjar aðferðir í stærðfræðikennslunni kennt við Zankov. Þessu þróunarstarfi verður haldið áfram með það að markmiði að halda uppi metnaðarfullu skólastarfi þrátt fyrir heimsfaraldur og þær takmarkanir sem honum fylgir. Við vonumst til að eiga áfram gott og gefandi samstarf við foreldra enda er gott samstarf heimilis og skóla lykilatriði að vellíðan og árangri nemenda í námi.

Nú í janúar verður heil vika tileinkuð jákvæðum aga þar sem lögð verður áhersla á að kenna nemendum góð samskipti og virðingu gagnvart hvert öðru og starfsfólki.

Það er spennandi vorönn fram undan með árshátíð, upplestrakeppni og fleiri skemmtilegum uppákomum – ef Covid veiran verður til friðs.

Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri.

Símareglur

Símar eru daglegir fylgifiskar nemenda okkar – við þurfum að taka höndum saman bæði heimili og skóli við að kenna börnunum hvar og hvenær viðeigandi er að nota símana og í hvaða tilgangi. Við biðjum ykkur kæru foreldrar að ræða við börnin ykkar um að símarnir séu geymdir í skólatöskunni á skólatíma, þeir eru ekki teknir með í sund, leikfimi eða frímínútur. Það er einnig mikilvægt að þau læri að vera ekki í símanum á meðan matast er. Með samstilltu átaki getum við kennt þeim þessar einföldu símareglur sem gilda í skólanum. Við mælumst einnig til að snjallúrin séu geymd í skólatöskunni .

Gjafir frá foreldrafélaginu

Foreldrafélagið kom færandi hendi í desember en það gladdi starfsfólk með konfekti, kaffi og fleira góðagæti. Færði bókasafni skólans bækurnar Fávítar, Vertu þú sjálfur, Ég vel mig, Kynvera og Daði. Einnig færði félagið skólanum þrjú samlokugrill sem við vitum að mun koma nemendum okkar að góðum notum. Við færum foreldrum bestu þakkir fyrir 😊

Geðorðin 10

Janúar mánuður er oft talinn vera erfiðasti mánuður ársins og þá sérstaklega andlega. Þess vegna er ávallt gott að rifja upp geðorðin 10.

Þeir ná langt sem þora að vera öðruvísi, þora að fara óhefðbundnar leiðir og skera sig úr fjöldanum

1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara

2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um

3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir

4. Lærðu af mistökum þínum

5. Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina

6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu

7. Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig

8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup

9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína

10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast

Þetta er ekki búið! Covid 19

Við höfum öll heyrt setninguna ,, þetta er ekki búið " oft í fréttum og í útvarpi. Við minnum foreldra á að ræða við börnin sín um sóttvarnir og hreinlæti. Við skulum njóta þess að það sé hefðbundið skólastarf en jafnframt vera dugleg á að minna börnin okkar á að þvo sér um hendur og vera heima ef þau finna fyrir einkennum.

Á döfinni í janúar

4. - starfsdagur

18. - 22. janúar - Jákvæðs aga vika

26.-27. jan - Viðtalsdagar

29. jan - Appelsínugulur dagur