Fréttabréf Brekkuskóla

Febrúar 2018

Ágætu foreldrar og forráðamenn

Tíminn líður hratt í skólanum enda yfirleitt mikið um að vera. Við hófum árið með starfsdegi þar sem starfsfólk sótti námskeið og fékk áhugaverða fyrirlesara í hús. Þemað var meðal annars umhverfið og nýting auðlinda. Í framhaldinu voru þemadagar í öllum skólanum sem lauk með því að allt lífrænt sorp var vigtað hjá hverjum árgangi fyrir sig. Þetta leiddi til þess að verulega dró úr matarsóun í skólanum.

Í lok janúar voru samtalsdagar með kennurum, nemendum og forráðamönnum þar sem farið var yfir námsframvindu og fleira. Enn eitt árið er okkur boðið í fjallið og nú förum við 13. febrúar ef veður og snjóalög lofa. Það er óhætt að fullyrða að það eru forréttindi að hafa þennan aðgang að skíðasvæðinu og erum við þakklát fyrir boðið. Þessir dagar hafa alltaf verið ánægjulegir. Framundan er svo vetrarfrí sem vonandi allir geta notið nú þegar sól hækkar á lofti og birtutíminn lengist.

Með góðri kveðju úr skólanum!

Umhverfisþema

Nemendur í 9. og 10. bekk unnu fjölbreytt og áhugaverð verkefni í tengslum við umhverfisþemað allt frá rapplögum upp í myndbönd. Þau enduðu á að halda kynningar á sal fyrir foreldra þar sem sjá mátti ýmsan fróðleik um umhverfi og auðlindir.

Einn hópurinn gerði myndband um sóun á vatni og má sjá það á þessari slóð: https://www.youtube.com/watch?feature=youtu.be&v=x3nLwCK1s8I&app=desktop

Hér fyrir neðan eru svo myndir af nokkrum verkefnum.

Lestur og aftur lestur

Á skólasafninu má nálgast fjölbreytt lesefni og þar er alltaf eitthvað spennandi í gangi eins og lestrarklúbbar og ýmis lestrarhvetjandi verkefni. Markmið lestrarklúbbanna eru að nemendur lesi ævintýri, sögur og ljóð og geti valið sér fjölbreytt lesefni við hæfi, til gagns og ánægju. Þessi verkefni eru vinsæl meðal nemenda og því oft mikill erill á safninu, það er vel sótt af nemendum og starfsfólki. Nemendur eru áhugasamir og því er mikilvæg að bæði heimilin og skólinn séu vakandi yfir því að kynna þeim bækur því vissulega er margt annað sem tekur upp tíma hjá þeim og okkur fullorðna fólkinu.

Þess má geta að Foreldrafélag Brekkuskóla hefur stutt við skólasafnið með veglegum peningagjöfum til bókakaupa og þannig lagt sitt af mörkum til að nemendur hafi aðgang að nýju og fjölbreyttu lesefni.

Samræmd próf í 9. bekk

Dagana 7. - 9. mars verða lögð fyrir samræmd próf í 9. bekk, fyrst er íslenska svo stærðfræði og að lokum enska. Með samræmdum könnunarprófum er átt við próf sem meta hæfni allra nemenda með sama hætti og við sambærilegar aðstæður. Tilgangur prófanna er að meta hvernig markmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og veita endurgjöf til nemenda, foreldra, kennara, fræðsluyfirvalda.

Samræmdu prófin eru rafræn og því eru þau alfarið tekin á tölvu. Álitið er að rafræn próf meti betur hæfni nemenda en hefðbundin pappírspróf og eins er talið að fyrirlögn og úrvinnsla sé einfaldari. Í framtíðinni er stefnt að því að gera prófin einstaklingsmiðuð, það er próf sem laga sig að getu nemandans. Þegar nær dregur prófum munu foreldrar fá bréf með upplýsingum um prófin og fyrirlögn þeirra.

Pisa í 10. bekk

PISA er umfangsmikil alþjóðleg langtímarannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði og stærðfræði. Sá aldur er valinn þar sem hann markar lok almennrar skólagöngu í flestum löndum. PISA er skammstöfun fyrir enska heiti rannsóknarinnar Programme for International Student Assessment og er hún á vegum OECD. Alls taka yfir 70 þjóðir þátt í rannsókninni, þar af 34 aðildarríki OECD.

Könnunin er lögð fyrir á þriggja ára fresti með mismunandi áherslur hverju sinni. Í mars-apríl 2018 er könnunin lögð fyrir hér á landi í sjöunda sinn og allir skólar landsins með 10. bekk eru beðnir að taka þátt en dagsetning prófunar er ákveðin í samráði við hvern skóla. Aðaláhersla núna er á mat á lesskilningi en einnig er metið læsi á stærðfræði og náttúruvísindi. Eftir könunina svara nemendur spurningalista þar sem spurt er um viðhorf þeirra til náms, um námsvenjur þeirra, athafnir utan skóla ásamt hefðbundnum spurningum um bakgrunn.

Nánar má lesa um verkefnið á vef Menntamálastofnunar

100 daga hátíð hjá 1. bekk

Föstudagurinn 2. febrúar var nákvæmlega hundraðasti dagurinn í skólanum hjá nemendum í 1. bekk. Dagurinn var haldinn hátíðlegur með því að krakkarnir fóru í skrúðgöngu um skólann og gæddu sér á góðgæti sem þeir söfnuðu í skreytta bréfpoka. Unnið var á fjölbreyttan hátt með tugi og auðvitað 100 og að sjálfsögðu var búið að skreyta skólann í tilefni dagsins. Við óskum nemendum í 1. bekk innilega til hamingju með daginn og erum óendanlega ánægð með hópinn.