Flataskólafréttir

Skólaárið 2021-2022 - 4. október 2021

Kæra skólasamfélag!

Nú eru fallnar úr gildi þær sérstöku sóttvarnarreglur sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sammæltust um í byrjun skólaársins. Það þýðir að skólastarf getur að fullu verið með eðlilegu sniði, engar hólfanir eru í gildi og morgunsamverur og fjölvalstímar geta farið að hefjast að nýju. Eftir sem áður er þó lögð mikil áhersla á persónubundnar sóttvarnir og gríðarlega mikilvægt að allir sinni þeim samviskusamlega og séu jafnframt vakandi fyrir líkamlegum einkennum. Sem fyrr biðjum við foreldra um að halda börnum sínum heima ef vart verður við einkenni og panta tíma í skimun.

Í október er að venju viðtalsdagur þar sem nemendur og foreldrar mæta til viðtals við umsjónarkennara. Á síðasta ári þurftum við að hafa viðtölin með rafrænum hætti vegna sóttvarnarsjónarmiða og gafst það að mörgu leyti mjög vel. Hugmyndin er því að nú hafi foreldrar val um hvort viðtölin verði rafræn eða á staðnum en skráning í viðtölin verður auglýst þegar nær dregur.

Við vekjum athygli á að nú er starfsáætlun skólans fyrir veturinn komin á heimasíðuna en þar er að finna mikið af upplýsingum um skólastarfið sem gott er fyrir áhugasama foreldra að kynna sér.


Bestu kveðjur úr skólanum!

Stjórnendur

Helstu viðburðir framundan:

  • 13.-19. okt - Forvarnarvika
  • 21. okt - Samtalsdagur - Krakkakot opið fyrir skráða nemendur
  • 22. okt - Skipulagsdagur. Lokað í grunnskóla / leikskóla og Krakkakoti
Skólamatur - skráning

Við minnum á að breytingar á mataráskrift þarf að tilkynna fyrir 25. dag hvers mánaðar ef þeirra er óskað. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan má nálgast skráningarsíðu og áskriftarskilmála.

4.-5. ára deild - Námsveggir

Starf 4-5 ára deildar Flataskóla er í miklum blóma. Starfið er metnaðarfullt og leiða tveir leikskólakennarar daglegt starf deildarinnar. Til að auka gagnsæi í skipulagi er notast við myndrænt dagskipulag sem farið er yfir með börnunum í upphafi dags og er sýnilegt svo auðvelt sé að sjá hvað dagurinn ber í skauti sér. Myndræna dagskipulagið er hluti af námsveggjum þar sem markmið í náminu hverju sinni eru sýnileg og skýr

Stjórn Foreldrafélagsins og fulltrúar í skólaráði

Á aðalfundi Foreldrafélags Flataskóla þann 29. september var kjörin ný stjórn fyrir Foreldrafélagið. Stjórnin er þannig skipuð (aðalmaður / varamaður):


· 4-5 ára deild Vilborg Anna Garðarsdóttir / Karólína Stefánsdóttir

· 1. bekkur Hrefna Marín Sigurðardóttir / Lárus Magnússon

· 2. bekkur Fríður Guðmundsdóttir / Hólmfríður Bjarnadóttir

· 3. bekkur Guðrún Yrsa Richter / Hrefna Marín Sigurðardóttir

· 4. bekkur Unnur Tómasdóttir / Erla Pétursdóttir

· 5. bekkur Edda Björk Pétursdóttir / Berglind Ósk Einarsdóttir

· 6. bekkur Laufey Einarsdóttir - gjaldkeri / Lárus Magnússon

· 7. bekkur Ylfa Guðný Sigurðardóttir - formaður / Þórunn Ása Þórisdóttir


Fulltrúar foreldra í skólaráði 2021-2023 eru Hrefna Marín Sigurðardóttir og Guðrún Yrsa Richter. Þá er Vilborg Garðarsdóttir fulltrúi foreldra í leikskóladeild.

Enn vantar bekkjafulltrúa í nokkrum árgöngum - áhugasamir vinsamlegast gefi sig fram við umsjónarkennara eða skrifstofu skólans

Breytingar á námsmati

Í vetur tekur námsmat í Flataskóla breytingum frá því sem verið hefur undanfarin ár. Nú mun formleg framsetning á námsmati felast í mati á hæfniviðmiðum á svokölluðum hæfnikortum í mentor sem gilda annars vegar fyrir 1.-4. bekk en hins vegar fyrir 5.-7. bekk. Er þetta í samræmi við áherslur aðalnámskrár grunnskóla um hæfnimiðað nám. Hér er um töluverða breytingu að ræða en auk þessa erum við að feta áfram veginn í átt að námsmenningu sem við kennum við leiðsagnarnám. Þar er hugmyndin að nemendur fái ætíð markvissa leiðsögn um hvernig þeir geta náð þeim markmiðum sem stefnt er að og til hliðsjónar séu höfð skýr viðmið um árangur.

Við vekjum athygli á að upplýsingar um námsmat í skólanum er að finna í Starfsáætlun skólans sem og á heimasíðunni. Þá munum við senda út frekara kynningarefni til foreldra fyrir samtalsdaginn síðar í mánuðinum.

Félagsmiðstöð - opnanir fyrir 7. bekk

Í október stendur til að hefja vikulegar opnanir félagsmiðstöðvar fyrir nemendur í 7. bekk, væntanlega síðdegis á miðvikudögum. Félagsmiðstöðin Garðalundur í Garðaskóla annast umsjón þessara opnana. Foreldrar og nemendur í 7. bekk fá nánari upplýsingar um þetta þegar tímasetningar eru komnar á hreint.

Mentor - handbók fyrir aðstandendur

Allir forráðamenn ættu að hafa aðgang að mentor en þar er að finna ýmsar upplýsingar varðandi ástundun og nám nemenda. Rétt er að benda á að nálgast má handbók fyrir aðstandendur í mentorkerfinu á heimasíðu mentor.is undir "aðstoð" eða með því að smella hér..
Big picture

Opnunartími skrifstofu

Skrifstofa skólans er opin kl. 7:45-15:00 alla daga vikunnar nema á föstudögum til kl. 14:30

Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is


Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.

Um leyfisbeiðnir o.fl. - sjá hér.