Fréttabréf Brekkuskóla

Haust 2017

Ágætu foreldrar og forráðamenn

Við í Brekkusóla viljum byrja á að þakka fyrir það sem af er vetri, skólinn hefur farið vel af stað. Það er eðli skólastarfs að vera krefjandi og í sífelldri þróun. Foreldrar og forráðamenn verða m.a. varir við þessar breytingar í gegnum Mentor sem veitir upplýsingar um ástundun og námsframvindu nemenda. Nú lítur dagsins ljós fyrsta fréttabréf þessa vetrar og er ætlunin að gefa út færri fréttabréf en áður en nota aðra miðla eins og heimasíðu og fésbókarsíðu skólans í auknum mæli. Í haust tókum við í notkun nýja heimasíðu og vonum að með henni verði allar upplýsingar aðgengilegri. Síðan á að vera notendavænni fyrir þá sem nota símann og þurfa að nálgast upplýsingar með honum. Tekið skal fram að efnið á síðunni er í stöðugri þróun og þeirri vinnu lýkur aldrei. Nemendur við skólann okkar eru um 511 þetta haustið og er það nokkur fjölgun frá síðustu árum. Við erum þakklát fyrir það hve margir velja Brekkuskóla og erum hreykin af nemendum okkar.

Með góðri kveðju úr skólanum!

Árshátíð Brekkuskóla

Árshátíð Brekkuskóla er alltaf stór viðburður á hverju hausti. Nemendur og starfsfólk leggja mikið á sig til að vel megi takast til. Ráðinn er leikstjóri sem aðstoðar árganga á síðustu æfingum fyrir stóra daginn. Ekki má gleyma að nefna aðkomu foreldra sem leggja hönd á plóg til að kökuhlaðborðið verði sem glæsilegast en það er fjáröflun fyrir útskriftarferð 10. bekkjar. Ævintýraveröld hefur verið í höndum nemenda í 6. bekk og er það fjáröflun fyrir ferð að Reykjum að ári. Undirbúningur fyrir árshátíðina er skemmtilegur og krefjandi tími og það eru forréttindi að fá að fylgjast með hve börnin eru hæfileikarík og skapandi.

Læsisstefna Brekkuskóla - Læsi er lykillinn

Haustið 2014 fór af stað vinna við mótun læsisstefnu fyrir skóla á Eyjafjarðarsvæðinu. Að þeirri vinnu komu leik- og grunnskólar á svæðinu, fræðslusvið Akureyrarbæjar og Miðstöð skólaþróunar við HA. Skipulag vinnunnar tók mið af hugmyndum um lærdómssamfélag (e. learning community) þar sem lögð var áhersla á að allir sem hlut eiga að máli kæmu að vinnunni, það er leik- og grunnskólakennarar, nemendur og foreldrar, stjórnendur, fræðslusvið og Miðstöð skólaþróunar. Stefnunni er ætlað að vera leiðbeinandi um læsiskennslu í leik- og grunnskólum. Ákveðið var að birta afrakstur þessarar vinnu á síðunni Læsi er lykillinn þar er að finna fjölbreytt efni sem kennarar geta nýtt til að meta stöðu nemenda og skipuleggja kennslu, leiðbeiningar fyrir foreldra ásamt ýmsu öðru efni.

Samhliða þessari vinnu var starfandi læsisteymi í Brekkuskóla sem vann ásamt kennurum skólans stefnu sem Brekkuskóli setur sér. Sett voru niður markmið og leiðir sem skólinn fer í læsi. Lesa má læsisstefnu Brekkuskóla hér.

Megintilgangur læsisstefnunnar er að efla læsi í víðum skilningi og stuðla að skapandi og gagnrýninni hugsun barna.

Stóra og litla upplestrarkeppnin

Það styttist í dag íslenskrar tungu sem haldinn er hátíðlegur 16. nóvember. Hann markar upphaf að Stóru og litlu upplestrarkeppninni sem 4. og 7. bekkur taka þátt í. Þrátt fyrir að nafnið bendi til þess að um keppni sé að ræða þá er þetta fyrst og fremst þjálfun fyrir alla nemendur og tækifæri fyrir hvern og einn til að bæta sig í lestri.

Við ætlum að halda dag íslenskrar tungu hátíðlegan hér í skólanum með því að allir taki sér bók í hönd klukkan 9 um morguninn og lesi sér til ánægju og yndisauka óháð því hvort nemendur séu í sundi, íþróttum eða öðrum námsgreinum. Allt starfsfólk ætlar að taka sér hlé frá öðrum störfum og njóta þess að lesa.