Fréttabréf Kópavogsskóla

desember 2018

Er líða fer að jólum...

Skólastarf desembermánaðar mótast óhjákvæmilega af því að jólin nálgast. Margt að því sem er unnið að tengist jólunum en alls ekki allt. Það hefur verið stefna skólans til fjölda ára að jólaundirbúningur yfirtaki ekki allt skólastarfið en ákveðin jólatengd atriði nýtt til að brjóta upp. Skólinn hefur gefið út sérstakt dagatal fyrir desembermánuð og þar er gott yfirlit yfir það sem gert er, og varðar skólann í heild, í mánuðinum og það má sjá á heimasíðu skólans.


Í fréttabréfinu eru upplýsingar um niðurstöður samræmdra prófa í 4. og 7. bekk haustið 2018, upplýsingar um ytra mat Menntamálastofnunar á Kópavogsskóla, upplýsingar um húsnæði skólans og vinnu sem er framundan við það og örlítið um 70 ára afmæli skólans í upphafi nýs árs.


Jólakveðjur til allra og óskir um gleðileg jól.

Niðurstöður samræmdra prófa

Nemendurí 4. og 7. bekk þreyttu samræmd próf í lok september. Prófin eru rafræn að öllu leyti og nemendurnir notuðu spjaldtölvur við að svara þeim. Framkvæmdin gekk mjög vel sem er mjög ánægjulegt en við höfðum nokkrar áhyggjur af þeim þætti vegna þess sem gerðist hjá nemendum 9. bekkjar sl. vor þegar prófakerfi Menntamálastofnunar hrundi. Engir tæknileg vandamál komu upp núna.


Menntamálastofnun birtir allar upplýsingar í rafrænum upplýsingagrunni á heimasíðu stofnunarinnar. Þar er mikið magn upplýsinga og hægt að skoða niðurstöður skóla og árganga mörg ár aftur í tímann. Niðurstöður nemenda Kópavogsskóla voru sem hér segir haustið 2018:


7. bekkur:


  • Raðeinkunn í íslensku er 55,57
  • Raðeinkunn í stærðfræði er 52,674. bekkur:


  • Raðeinkunn í íslensku er 35,38
  • Raðeinkunn í stærðfræði er 47,65


Raðeinkunn er samanburðareinkunn og er stillt þannig af að landsmeðaltal er 50. Ef einkunn nemenda eða skóla er fyrir ofan 50 er niðurstaðan yfir landsmeðaltali en ef einkunnin er undir 50 er niðurstaðan undir landsmeðaltali. Niðurstaða nemenda 7. bekkjar er því mjög góð og þeir hafa tekið sig á frá því þeir voru í 4. bekk. Niðurstaða 4. bekkjar er verri og töluvert verk framundan í þeim árgangi.


Hver eru svo viðbrögð skólans þegar niðurstöðurnar berast? Skólastjórnendur fara yfir þær ásamt umsjónarkennurum og sérkennurum og stuðningsúrræði og sérkennsla eru endurmetin. Í sumum tilvikum hefur viðkomandi nemandi verið með stuðning en í öðrum tilvikum þarf að endurskoða og breyta. Ef niðurstöðurnar eru mjög óvæntar gagnvart ákveðnu barni er foreldri boðað til fundar og ákveðið hvernig stuðningi verður best háttað. Stundum er lestrarfærni slök og þá skiptir verulega máli að bæði heimili og skóli hjálpist að við að auka hana. Mikilvægi lestrarþjálfunar er grundvallaratriði eins og sést á myndinni hér fyrir neðan sem er fengin af vef Laugarnesskóla.

Big picture

Ytra mat Menntamálastofnunar

Starfsmenn Menntamálstofnunar voru í Kópavogsskóla í fjóra daga í lok september. Þeir fóru í kennslustundir og fylgdust með kennslu, ræddu við fulltrúa nemenda, kennara, foreldra, skólaráðs, annarra starfsmanna og skólastjórnendur. Í öllum tilvikum var um úrtak að ræða sem stofnunin sá alveg um. Einnig fengu úttektaraðilarnir aðgang að öllum þeim gögnum sem þeir óskuðu eftir en þar var um að ræða gögn af heimasíðu, námskrár, stundaskrár og starfslýsingar svo eitthvað sé nefnt. Framkvæmd matsins var vandlega undirbúin og fylgir ákveðnum reglum og sama á við um niðurstöðurnar sem eru í formi skýrslu sem er send til skólans og bæjaryfirvalda. Skólinn hefur 6 vikur til að bregðast við skýrslunni og skila umbótaáætlun sem nær til þeirra þátta þar sem tækifæri er til umbóta. Í framhaldi af því er skýrslan gerð opinber og birt á vef stofnunarinnar. Viðamiklar upplýsingar um ytra mat á skólum er að finna á vef Menntamálastofnunar.


Nú er unnið að umbótaáætlun vegna matsins. Helstu niðurstöður þess er að finna í bréfi frá stofnuninni til foreldra og nemenda sem skólastjóri áframsendi í mentorpósti 2. desember sl.

Húsnæðismál

Skólahúsnæðið er orðið gamalt og um margt barn síns tíma. Mikilvægt er að horfa til framtíðar áður en í óefni er komið. Því er að hefjast vinna við mat á húsnæðinu og hvað nauðsynlegt er að gera strax hvað viðhald varðar og til hvers þarf að horfa með tilliti til skólaþróunar og breyttra kennsluhátta. Á fund skólaráðs í nóvember komu fulltrúar frá Kópavogsbæ og þar var til umræðu eftirfarandi greinargerð frá skólastjóra vegna húsnæðismála:


,,Kópavogskóli var byggður í áföngum og elsti hluti hússins var tekinn í notkun í janúar 1949. Yngsti hlutinn var tekinn í notkun 1996 þegar ný grunnskólalög með ákvæði um einsetningu grunnskóla tóku gildi. Kennslustofur eru misstórar, þær elstu eru um 45 m2 og þær yngstu á bilinu 60-76 m2. Í töflunni hér fyrir neðan eru sýndar stærðir stofanna, nemendafjöldi i stofu og fermetrafjöldi á nemanda. Þær stofur sem eru merktar með rauðu ná ekki viðmiðum sem sett eru um stærðir kennslustofa í ,,Reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða nr. 657/2009.“

Big picture

Þarna kemur fram að 10 af 19 umsjónarkennslustofum ná ekki viðmiðum um stærð kennslurýmis.

Í Kópavogsskóla er einnig sameiginlegt námsver fyrir nemendur í 5.-10. bekk úr grunnskólum Kópavogs. Þar eru 14 nemendur í þremur herbergjum sem eru samtals um 68 m2.

Þrjú rými sem nýtt eru fyrir sérkennslu eru rétt um 12 m2 hvert og þar af er eitt sem var geymsla en var breytt í sérkennslustofu fyrir 2 árum. Vegna vöntunar á kennsluhúsnæði var stofa hjúkrunarfræðings tekin undir sérkennslu í upphafi skólaárs 2018-2019. Rými hjúkrunarfræðings er nú um 7 m2 og vinnuaðstaða sálfræðings/talmeinafræðings er einnig um 7 m2. Þá er ótalið aðalrými frístundar sem er um 70 m2 en í vetur eru um 100 börn í frístund.

Í 4. gr. áðurnefndrar reglugerðar segir:

,,Við hönnun nýs skólahúsnæðis skal taka mið af áætluðum hámarksfjölda nemenda í skólanum. Við skipulag einstakra vinnurýma skal m.a. taka mið af fjölbreyttum kennslu­háttum og sveigjanleika í kennslufyrirkomulagi svo sem hvað varðar samkennslu árganga. Sérstaklega skal þess gætt að nægilegt rými sé fyrir hvern nemanda svo hann geti sinnt námi sínu. Þannig skal vinnurými að jafnaði vera a.m.k. 60 fermetrar fyrir 22 - 28 nemendur, 52 fermetrar fyrir 18 - 21 nemanda, 44 fermetrar fyrir 13 - 17 nemendur, 36 fermetrar fyrir 12 nemendur og aldrei minni en 16 fermetrar."

Það er afar mikilvægt að hafa í huga að kennslurými hefur veruleg áhrif á möguleika kennara til að viðhafa fjölbeyttar kennsluaðferðir. Smæð stofanna hamlar eðlilegri þróun og við því verður að bregðast. Möguleikar kennara til að láta nemendur vinna í hópum eru mjög takmarkaðir enda lítið um autt gólfpláss þegar búið er að setja borð og stóla inn í stofurnar.

Húsnæði skólans hefur verið mikið endurgert undanfarin ár og telst viðunandi. Það er þó ljóst að stór hluti kennslurýma eru lítil og það hlutfall á eftir að hækka á næstu árum ef áframhald verður á fjölgun nemenda í skólanum. Fjölgun undanfarinna ára hefur dreifst á árganga og því ekki verið þörf fyrir aukinn stofufjölda en verulegar líkur á að það breytist innan fárra ára.

Nemendur skólans eru nú um 360 en voru um 300 fyrir nokkrum árum. Töluverð endurnýjun hefur orðið í skólahverfinu og fjölgun nemenda hefur orðið af þeim sökum en ekki vegna nýbygginga.

Nú er vinna við ,,Mótun menntastefnu til 2030“ í fullum gangi og það liggur fyrir að skólastarf á eftir að breytast mikið næstu árin. Veruleg máli skiptir að huga að húsnæðismálum Kópavogskóla í tíma og setja af stað vinnu við breytingar og þróun þess áður en í óefni er komið."


Viðbrögðin hafa verið jákvæð og markmiðið að mynda vinnuhóp strax í upphafi árs sem í eiga sæti fulltrúar frá öllum aðilum skólasamfélagsins. Hópnum er ætlað að vinna málið áfram með markvissum hætti.

Kópavogsskóli 70 ára

Kennsla hófst í fyrsta áfanga Kópavogsskóla miðvikudaginn 12. janúar 1949. Nemendur voru 100 talsins og skiptust í 6 bekkjardeildir. Stofurnar voru hins vegar aðeins þrjár tilbúnar fyrir kennslu svo eldri nemendur voru í skólanum fyrir hádegi en þeir yngri eftir hádegi. Á næstu fjórum árum rúmlega þrefaldaðist nemendafjöldinn og stofufjöldinn tvöfaldaðist. Kópavogsskóli er elsti skóli Kópavogs og hét í upphafi Barnaskóli Kópavogs, síðar Barna- og unglingaskóli Kópavogs, því næst Kópavogsskólinn og fékk svo núverandi heiti, Kópavogsskóli.


Skólinn mun því halda upp á 70 ára afmælið í upphafi næsta árs og undirbúningshópur vinnur að því að skipuleggja afmælishátíðina. Hún verður kynnt í upphafi nýs árs.