

Flataskólafréttir
Skólaárið 2023 - 2024 5.október 2023
Sýn Flataskóla
í Flataskóla er ýtt undir seiglu, sjálfstæði, skapandi hugsun, sjálfstjórn og samkennd nemenda og starfsfólks. Námið í skólanum er áhugavert, gerðar eru skýrar væntingar til nemenda og öllum gert kleift að vaxa.
Kæra skólasamfélag
Okkur vantar sárlega þrjá fulltrúa foreldra til að sitja í skólaráði. Skólaráð starfar samkvæmt 8.gr grunnskólalaga og er afar mikilvægur þáttur í lýðræðislegu skólastarfi. Vinnan á bakvið þetta felst í því að mæta á 6 skólaráðsfundi yfir árið. Á fundunum er farið yfir ýmis atriði sem tengjast skólastarfinu t.d. samþykkir skólaráð starfsáætlun skólans. Það er því með sanni hægt að segja að þarna sé kjörinn vettvangur til að hafa áhrif. Raddir foreldra skipta okkur máli. Þeir sem hafa tök á því að taka þátt geta sent mér póst á heidveigf@flataskóli.is.
Annars fer skólaárið vel af stað og tíminn flýgur svo sannarlega áfram. Skólabragurinn er góður og nemendur standa sig með stakri prýði. Bæði fullorðnir og börn hafa tekið því með stakri ró að enn er verið að vinna í húsnæðinu þrátt fyrir að stundum sé svolítill hávaði og óþrifnaður sem fylgir svona löguðu. Við erum loksins komin aftur með matsal og erum afskaplega þakklát fyrir það. Það sem enn er ekki tilbúið eru heimilisfræðistofan, smíðastofan, hátíðarsalurinn og hluti af rými Krakkakots auk þess sem mikil vinna fer nú fram á ytra byrði hússins. Óvíst er hvenær þessu lýkur öllu saman en þetta mjakast nú allt saman áfram.
Nýliðnir haustfundir árganga gengu vel og við alltaf ánægjulegt þegar foreldrar gefa sér tíma til að koma í skólann. Í lok mánaðar þann 26.október verða nemenda og foreldrasamtöl og í kjölfarið er svo löng helgi hjá nemendum en föstudaginn 27.október er starfsdagur í öllum skólum Garðabæjar.
Forvarnarvika er á dagsskrá 5. - 11.október. Þema vikunnar að þessu sinni eru samskipti og ýmislegt spennandi og gott á dagsskrá hjá okkur þessa daga.
Bestu kveðjur,
Hanna
Foreldrafélagið - bekkjarfulltrúar
Aðalfundur foreldrafélagsins var haldinn á dögunum og á hann mættu 8 foreldrar. Ég verð að viðurkenna að því fylgdu ákveðin vonbrigði. Kannski eru svona fundir einfaldlega orðnir barn síns tíma og netfundir myndu henta betur. Það er þó alveg ljóst að foreldrafélagið er engan veginn barn síns tímaog þörfin hefur kannski aldrei verið meiri. Starfið er mikilvægur þáttur í því að gæta hagsmuna nemenda og ég vonast til að það verði góð starfsemi í foreldrafélaginu í vetur. Undanfarin ár hefur fyrirkomulagið verið þannig að einn bekkjarfulltrúi úr hverjum árgangi hefur verið í stjórn foreldrafélagsins og annar hefur verið varamaður. Hér fyrir má sjá lista yfir bekkjarfulltrúa skólaársins. Ekki er enn búið að fullmynda stjórn og enn eru laus pláss fyrir þá sem vilja taka þátt. Ég hvet ykkur einnig til að skoða kynjahlutfallið á listanum. Það er ansi mikil skekkja í því.
Rafskútur
Það er ástæða til að nefna aftur áhyggjur okkar af umferð rafmagnshlaupahjóla á skólalóðinni. Við biðjum ykkur að ræða við börnin ykkar um það að umferð þessara hjóla er bönnuð á skólalóðinni á skólatíma. Töluvert er um það að nemendur komi hratt að á morgnanna oft hjálmlausir. Litlu mátti muna að alvarlegt slys yrði hér einn morguninn. Því miður hefur líka orðið einn árekstur þar sem nemandi á rafskútu keyrði á gangandi nemanda. Það var sem betur fer ekki alvarlegt en hefði getað farið mun verr. Nú er að dimma á morgnanna og það eykur enn á hættuna.
Sömuleiðis biðjum við ykkur um að ræða mikilvægi þess að nemendur læsi hjólunum en töluvert hefur verið um það að forvitnir yngri nemendur séu að fikta í hjólum og færa til.
Ungt fólk - rannsókn
Dagana 9. – 13. október verður könnunin Ungt fólk á vegum rannsóknar og greiningar lögð fyrir nemendur í 5. - 7. bekk. Fyrirlögnin verður rafræn og tekur um 40.mín í útfyllingu. Óski foreldrar eftir því að þeirra barn taki ekki þátt í rannsókninni eru þeir beðnir um að láta vita í tölvupósti. Hér fyrir neðan eru nánari upplýsingar um könnunina.
Flataskóli Garðabæ
Menntun - Árangur - Ánægja
513 3500