Nám á nýjum nótum

Þemadagur í unglingadeild Hólabrekkuskóla

Hugmynd verður að veruleika

Kennarar og stjórnendur í Hólabrekkuskóla höfðu áhuga á því að það yrði meiri samkennsla faga, nemendur fengju að nýta hæfileika sína í verkefnin og læra hvert af öðru. Eftir að hafa legið lengi yfir skipulaginu og lært af öðrum sem komu með góðar hugmyndir (t.d. úr Norðlingaskóla) þá var ákveðið að hafa það fyrirkomulag sem er núna. Á miðvikudögum eru allir nemendur unglingadeildarinnar í þemavinnu og skiptum við efninu niður á milli faganna í hverjum mánuði. Hvert þemaverkefni er hluti af fagreinum skólans og er röð verkefna veturinn 2015-2016 þessi: náttúrufræði, erlend tungumál, íslenska, samfélagsfræði, list- og verkgreinar og að lokum stærðfræði. Hvert þema stendur yfir í 4 vikur.

Tilgangurinn

Tilgangurinn er að nemandinn fái að njóta sín, að hann læri hvar hæfileikar hans liggja og að hann fái hjálp til að þróa þá betur. Nemendur sem eiga erfitt með hefðbundið bóknám, eiga þannig meiri möguleika á að klára skólann með hæfni sem nýtist þeim til framtíðar og vonandi sjá þeir skýrara hvert þeir geta stefnt að loknu námi í grunnskóla.

Tilgangurinn er einnig að þjálfa nemendur í lykilhæfninni, en öll atriði lykilhæfninnar eru nýtt í þessi verkefni og því er þetta gott tækifæri til að þjálfa þessa færni.

Við tökum líka kröfur ANG í upplýsingatækni inn í þessi verkefni þar sem nemendur læra m.a. að setja upp heimildir skv. viðurkenndum stöðlum. Nemendur nota upplýsingatæknina í flest verkefni en einnig er verkfærnin æfð þar sem smíðastofan er uppfull af áhugasömum nemendum viku eftir viku. Þeir eru þar að æfa sig að nota vélarnar og 3D prentarinn er í stöðugri vinnu.

Big image

Það sem við höfum lært

Við höfum lært að endurskilgreina hvað góður nemandi er. Nemendur sem eru geta verið óvirkir í hefðbundni bóknámi, blómstra sem stjórnendur og hugmyndasmiðir á þessum dögum. Sérkennslunemendur taka oft mikinn þátt í verkefnum og þá þannig að það kemur okkur á óvart og sýna jafnvel hæfni sem við þekktum ekki. Nemendur sem eru mjög sterkir á bókina eru það ekki alltaf þegar kemur að samvinnu, sköpun eða einfaldlega að láta hugmyndir sínar heyrast. Þetta er eitthvað sem við höfum áhuga á að vinna betur með og við sáum fljótlega framfarir hjá þessum nemendum eftir að hafa talað við þá. Þeir hafa metnað til að gera vel og leggja sig fram um að fá góðar einkunnir. En það tekur á hjá sumum þeirra. Þetta er þó hæfni sem nýtist þeim til framtíðar.

Við höfum líka lært að það er mikilvægt að hafa stofu fyrir örfáa nemendur sem virka ekki vel í svona vinnu af ýmsum ástæðum. Þetta eru innan við 5% nemenda í 8.-10. bekk í hverju þemaverkefni og oft dugar að laga óæskilega hegðun með því að taka nemanda úr umferð í einn dag (jafnvel bara hluta úr degi) eða úr einu verkefni.

Sýningardagur og öflun upplýsinga

Nemendur eru allan tímann að vinna að gerð kynningar. Kynningin er fyrir nemendur skólans, starfsfólk og aðstandendur og er á síðasta degi verkefnisins. Nemendur hafa útbúið kynningar í ýmsu formi og má þar nefna, stuttmyndir, fræðslumyndbönd, veggspjöld, 3D verkefni, glærukynningar, þjóðlegan mat (m.a. njólasúpu), smíðastykki og margt annað. Margir nemendur hafa leitað út fyrir skólann að upplýsingum og fóru nemendur m.a. á fund forsætisráðherra að eigin frumkvæði, tóku viðtal við starfsmann hjá umhverfissviði Reykjavíkuborgar, tóku viðtöl við hárgreiðslukonur (reyndar í öðrum sveitafélögum) um hártísku fyrri ára, tóku viðtal við kennara í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti um hvernig maður lærir tungumál og svo mætti lengi telja. Nemendur hafa farið á söfn og komið þaðan með hugmyndir um hluti sem þeir vilja endurskapa (m.a. af Þjóðminjasafninu). Allt er þetta af frumkvæði nemenda og hafa kennarar ekki tekið neinn þátt í að koma þessum hugmyndum í hausinn á þeim. Við erum mjög stolt af okkar fólki.

Námsmatið

Í hverri viku skrifa nemendur skýrslur um vinnu dagsins, þeir útbúa rannsóknarspurningar, safna saman öllum heimildum (skriflegum, munnlegum og myndum) og skrá á sérstakt form. Þessar skýrslur eru 20% af einkunn, 20% er mat á lykilhæfni s.s. samvinnuhæfni, ábyrgð og öðru slíku, 20% fer eftir hvaða fag er verið að vinna með en t.d. var gengið út frá menningarlæsi þegar nemendur unnu með erlend tungumál. 40% af einkunn er kynningin þeirra. Þá er lagt mat á hvernig tíminn hafi verið nýttur, hvað nemendur hafa lært af verkefninu og hvernig þeir standa sig í að kynna verkefnið sitt.

Í lok hvers þemadags hittast kennarnir og fara yfir daginn. Allir tjá sig um sína hópa, ræða saman um hvað má betur fara og finna lausnir í sameiningu. Þessir fundir eru vel skipulagðir og skila því góðum árangri.

Hvað svo?

Það sem við viljum sjá úr þessari vinnu eru ánægðir nemendur sem hafa fundið sína fjöl í skólanum, sem hafa fengið tækifæri til að vaxa þar sem þeir eru sterkastir og lært helling um hluti og aðferðir sem þeir þekktu ekki áður. Vonandi dregur þessi vinna líka úr því að nemendur okkar séu að flakka á milli brauta og /eða skóla á framhaldsskólastigi þar sem við vonum að þeir viti betur eftir þessa vinnu hvert þeir vilja stefna í námi og starfi. Þar sem þetta virðist koma mjög vel út hjá okkur, þá munum við halda áfram á sömu braut, en auðvitað þróum við þetta stöðugt áfram.