Fréttabréf Hvassaleitisskóla
Desember 2022

Í fréttum er þetta helst
- Aðventuhátíð Hvassó 2022
- Jólasöngstund á sal
Teiknisamkeppni 4. bekkinga
Matisse og Mondrian
Barn verður forseti
Jólaföndur foreldrafélagsins
Líf og fjör í 2. bekk
Jólin koma...
Aðventuhátíð Hvassó 2022
Hér fyrir neðan er tengill á myndband frá hátíðinni sem heppnaðist einstaklega vel.
Jólasöngstund á sal
Teiknisamkeppni 4. bekkinga
Eins og undanfarin ár tekur 4. bekkur þátt í teiknisamkeppni Mjólkursamsölunnar með leiðsögn frá Ella myndlistarkennara. Myndefni nemenda er frjálst en má þó gjarnan tengjast mjólk og íslensku sveitinni eða hollustu og heilbrigði en umfram allt eiga nemendur að gefa ímyndunaraflinu og sköpunargáfunni lausan tauminn. Hér eru þrjú sýnishorn af verkum nemenda þetta árið.
Matisse og Mondrian
1.bekkur vinnur m.a. verk í anda franska málarans Henri Matisse í myndmennt og hér eru tvær myndir frá því í vetur. Meðal þess sem 6. bekkur hefur verið að fást við á þessu skólaári eru abstrakt myndir í anda hollenska listamannsins Piet Mondrian og meðfylgjandi eru þrjú sýnishorn frá þeirri vinnu.
Barn verður forseti
Einn dáðasti tengdasonur Hvassaleitisskóla, landsliðsmarkvörðurinn og rithöfundurinn Björgvin Páll Gústavsson, kom í heimsókn. Hann las fyrir nemendur upp úr nýju bókinni sinni, Barn verður forseti, en konan hans, Karen Einarsdóttir, er námsráðgjafi hjá okkur í skólanum. Bókin er heiðarleg og ljúfsár saga um von, metnað, kærleika og mikilvægi þess að gefast aldrei upp þótt allt virðist glatað. Það eru alltaf ný tækifæri í næsta leik.

Jólaföndur foreldrafélagsins
Jólaföndur foreldrafélagsins var haldið á fullveldisdeginum, 1. desember, eftir tveggja ára hlé. Föndrið var vel sótt og var sérstaklega gaman að sjá krakkana koma með fjölskyldunum sínum, þar sem allir voru í jólaskapi. Foreldrafélagið var með föndur sem var selt á kostnaðarverði og 6. bekkur seldi vöfflur og kakó í fjáröflunarskyni. Föndrið tókst afar vel og verður pottþétt árlegur viðburður.
Líf og fjör í 2. bekk
2. bekkur hefur haft mikið fyrir stafni síðustu vikur, þar sem Aðventuhátíðin stóð auðvitað hæst og við skemmtum okkur konunglega. En við höfum gert ýmislegt annað, fórum m.a. í umhverfisleiðangur og tíndum upp rusl í nærumhverfinu okkar. Þá fórum við í mjög skemmtilega vasaljósagöngu í hverfinu og fengum heitt kakó og piparkökur. Við vorum líka svo heppin að fá inn til okkar stóra taflborðið sem skólinn á og það hefur sannarlega vakið mikla lukku. Í samfélagsfræði unnum við skemmtilegt verkefni um hreinlæti og gerðum öll (plat)ferðatöskur og límdum í þær alls konar hluti sem við teljum mikilvæga til að halda okkur hreinum á ferðalögum. Í stærðfræði æfðum við okkur í að mæla með reglustiku og það má eiginlega segja að við séum orðin algerir snillingar í að mæla. En nú erum við bara á fullu í alls konar jólajóla og markmiðið er að hafa það sem mest kósý og notalegt þessa síðustu daga fyrir jólafrí.

Jólin koma...
Desember er annasamur mánuður fyrir nemendur og starfsmenn Hvassaleitisskóla. Við byrjuðum á jólahöfuðfatadegi 1. desember. Aðventuhátíðin gekk ljómandi vel og margir voru duglegir við jólabókalesturinn.
3. bekkur fór í skemmtilega bíóferð í Bíó Paradís. 2. bekkur fór í kakó- og vasaljósaferðir um nágrennið í skammdeginu og 4. bekkur fór í badmintonferð í TBR húsið í Laugardal. 1. bekkur fór í heimsókn í Furugerði og 4. bekkur fylgir í kjölfarið eftir helgi. Framundan er líka Hallgrímskirkjuferð hjá 5. bekk, auk þess sem 7. bekkur sýnir jólaleikritið mánudaginn 19. desember og svo endar dagskráin fyrir jól með helgileik 4.bekkjar og jólaballi daginn eftir.
Jólahöfuðfatadagur Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd gengu sumir starfsmenn lengra en aðrir í frumleika á jólahöfuðfatadeginum. | Jólabókalestur Nemendur voru duglegir við jólabókalesturinn. Tæplega helmingur nemenda hefur lesið fimm jólabækur eða meira og fengið viðurnefni jólasveina, jólasnóta eða jólasystra á jólabókamerkið sitt. | Heimsókn í Furugerði Íbúar í Furugerði skemmtu sér konunglega þegar 1. bekkur kom í heimsókn og las fyrir þá og skreytti með þeim piparkökur. |
Jólahöfuðfatadagur
Jólabókalestur
Jólakúlur
