Hvalrekinn

28. maí 2020

Big picture
Ágætu foreldrar.


Þá er þessu sérstaka skólaári næstum lokið. Ekki óraði mig fyrir í upphafi skólaársins sá viðsnúningur sem við þurftum að taka um miðjan mars síðast liðinn. Skólastarfi voru settar skorður, fjöldi nemenda í hóp takmarkaður, samskipti nemenda og starfsmanna voru takmörkuð. Með ótrúlegum dugnaði starfsfólks, nemenda og foreldra tóks skipulagið og vinnan með ein dæmum.

Það var einstakt að sjá alla mæta í skólann mánudaginn 4. maí, næstum því eins og ekkert hafi í skorist. Við komum til með að muna þennan vetur svo lengi sem við lifum - veturinn sem sett var á samkomubann.


Enn verðum við að taka tillit til aðstæðna og því verðum við að miða komandi skólaslit við það. Nánari útfærsla á skólaslitunum má sjá hér fyrir neðan. Mikilvægt að er virða skipulagið þetta vorið.


Ég óska þess að þið öll hafið það sem best í sumar. Njótið sumarsins, ferðumst innanlands, hlúum að okkar nánustu og mætum hress og kát í ágúst þegar skólinn hefst að nýju.


Kristinn Guðlaugsson, skólastjóri.

Síðustu skóladagar þetta skólaárið

 • Dagskrá bekkja/ árganga má sjá á Mentor.

 • Nemendur í 8. bekk fá fræðslu frá samtökunum 78. 8. SB- þriðjudaginn 2. júní kl. 12:40 - 14:00 og 8. GB - miðvikudaginn 3. júní kl. 10:00 - 11:20.
 • Nemendur í 7., 8. og 9. bekk þurfa að skila inn umsókn um valgreinar fyrir næsta skólaár ekki seinna en 2. júní. Valblað nemenda er inni í Google classroom á Ipadinum.
 • Nemendur eiga að skila Ipödum, hleðslutækjum og snúrum sem hér segir:
  *
  5. – 7. bekkur – 3. júní. Hér er póstur til foreldra.
  * 8. – 10. bekkur – 4. júní. Hér er póstur til foreldra.
 • Föstudagurinn 5. júní er ferðadagur hjá nemendum í elstu deild.
 • Mánudagurinn 8. júní - íþrótta- og grilldagur hjá öllum deildum.

Útskrift nemenda í 10. bekk

Útskrift nemenda í 10. bekk verður mánudaginn 8. júní. Athöfnin fer fram á sal skólans og hefst klukkan 17:00. Þar sem enn eru takmarkanir, mæta nemendur einungis með foreldrum/forráðamönnum.

Myndataka verður af nemendum að lokinni athöfn.

Að lokinni athöfn er nemendum og gestum þeirra boðið að þiggja kaffiveitingar.


Þriðjudaginn 9. júní kl. 10:00 verða einkunnir nemenda í 10. bekk lesnar yfir í Innu og birtar nemendum í umsókn þeirra til framhaldsskólanna.

Skólaslit nemenda í 1. - 9. bekk

Skólaslitin í Hvaleyrarskóla verða þriðjudaginn 9. júní. Þetta árið verðum við að hafa skipulagið þannig að nemendur mæta án forelda. Mæting nemenda á sal er sem hér segir:

Yngri deild:

 • 1. og 2. bekkir kl. 8:30
 • 3. og 4. bekkir kl. 9:30


Miðdeild:

 • 5., 6. og 7. bekkir kl. 10:30


Elsta deild:

 • 8. og 9. bekkir kl. 11:30


Nemendur mæta á sal skólans en fara síðan í sínar heimastofur með umsjónarkennara.

Skipulagsdagur 29. maí

Föstudaginn 29. maí er skipulagsdagur í Hvaleyrarskóla. Þann dag fellur öll kennsla niður. Frístundaheimilið Holtasel er opið fyrir þau börn sem þar eru skráð.


There will be no school for students on Friday the 29th of May as it is an inservice day for teachers and staff. Holtasel is open for children who are registered.

Stóra upplestrarkeppnin - fulltrúi Hvaleyrarskóla sigraði

Úrslit Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Víðistaðakrikju þriðjudaginn 26. maí. Fulltrúar Hvaleyrarskóla voru þau Ellen María Arnarsdóttir og Theodór Ernir Geirsson. Ellen María gerði sér lítið fyrir og bar sigur úr bítum í keppninni og óskum við henni innilega til hamingju með sigurinn. Bæði Ellen María og Theodór Ernir stóðu sig með mikilli prýði. Hér til hliðar má sjá þau með Hafdísi kennara sem séð hefur um þjáfun þeirra undanfarið.

Nánar um keppnina má sjá á heimasíðu Hafnarfjarðar.


Keppnin hefst í skólum landsins á degi íslenskrar tungu 16. nóvember ár hvert.

Stóra upplestrarkeppnin á upphaf sitt í Hafnarfirði veturinn 1996-1997 sem tilraunaverkefni um upplestur en hefur síðan breiðst út um allt land. Keppnin snýst ekki um að komast fyrstur í mark heldur um þjálfun og vanda sig í upplestri. Vandvirkni, virðing og ánægja eru einkunnarorð keppninnar.

Verið - dagskrá fyrir fyrstu vikuna í júní

Skóladagatal 2020-2021

Skóladagatal Hvaleyrarskóla fyirr komandi skólaár 2020-2021 var samþykkt í skólráði um miðjan mars. Í framhaldinu fór það til staðfestingar Fræðsluráðs.

Hér má sjá skóladagatalið.

Skólasetning næsta skólaárs verður þriðjudaginn 25. ágúst. Tímasetningar verða auglýstar þegar nær dregur.

Sumarfrístund í Holtaseli 2020

Fimmtudaginn 11.júní hefjast Sumarfrístundnámskeiðin í Holtaseli. Skráning fer fram á „mínum síðum“ á www.hafnarfjordur.is. Þeir sem hafa skráð barn á sumarfrístundina geta bætt sér í hóp á facebook sem heitir „Sumarfrístund í Holtaseli 2020“

https://www.facebook.com/groups/3192161660846984/

Hér má nálgast bækling fyrir starfið.


Skráning er eftir vikum og þarf að fara fram fyrir miðnætti á fimmtudögum eigi barn að byrja á mánudeginum á eftir.

Vorskólinn

Verðandi nemendur í 1. bekk komu í heimsókn í skólann mánudaginn 25. maí og þriðjudaginn 26. maí. Nemendurnar voru í vinnu inn á bókasafni ásamt því að skoða sig um í skólanum.

Það mátti skynja bæði spennu og eftirvæntingu hjá þessum verðandi nemendum okkur og komum við til að taka vel á móti þeim í haust.


Foreldrar verða svo boðaðir á Skólafærninámskeið í lok ágúst.

Nemendur í 7. bekk kryfja fisk

Í síðustu viku voru nemendur í 7. bekk í því verkefni að kryfja fiska. Eins og sjá má af myndunum hér fyrir neðan má sjá að nemendur stóðu sig vel og höfðu mikinn áhuga á verkefninu.

Sumarlestur Bókasafns Hafnarfjarðar og Menntamálastofnunar

Bókasafn Hafnarfjarðar býður, líkt og áður, uppá Sumarlestur. Fyrri ár hafa lestrarhefti, skráningar- og umsagnarblöð legið frammi á bókasafninu, en nú ætlar safnið að breyta fyrirkomulaginu til hins betra og sækja fram til skóla og sumarnámskeiða frístundamiðstöðva til viðbótar við að bjóða upp á efnið hjá sér. Ástæðurnar eru eftirfarandi: - Ekki hafa öll börn þann munað að geta rölt í miðbæinn hvenær sem er og náð sér í efni.
Sumarlesturinn 2020 Menntamálastofnunar er í formi lestrarlandakorts og tilgangurinn þessu sinni er að kynna fyrir nemendum mismunandi tegundir bóka og auðvitað að hvetja þau til lestrar. Með þessu vonumst við til að auka áhuga á lestri þar sem fjölbreytt lesefni er kynnt og leitin að lesefni sem höfðar til hvers og eins auðvelduð.

Nánar um Ævintýralestrarlandakortið er að finna hér. Þar má finna nánari upplýsingar á íslensku, pólsku og ensku.

Heimaskólinn verður áfram opinn og er í stöðugri þróun

Fræðslugátt Menntamálastofnunar

Á Fræðslugátt er allt námsefni Menntamálastofnunar sem til er á rafrænu formi. Í ljósi aðstæðna er þar einnig námsefni sem tímabundið hefur verið sett á rafrænt form og þannig gert aðgengilegra fyrir nemendur, kennara og foreldra.


Við hvetjum ykkur til þess að heimsækja Fræðslugáttina og skoða framboðið. Þar er til að mynda mikið af lestrarefni sem nýta má í lestrarátakinu Tími til að lesa. Þessa dagana hafa einmitt flestir góðan tíma til að lesa og þörfin fyrir hugarleikfimi hefur sjaldan verið meiri en nú.


Fræðslugátt er skipt niður í námsefni fyrir yngsta stig, miðstig og unglingastig. Einnig er þar hægt að nálgast annað efni. Undir annað efni er námsefni héðan og þaðan sem við höfum fengið ábendingar um að geti nýst skólasamfélaginu vel á þessum tímum.

Við hvetjum einnig áhugasama að skrá sig á póstlista til að fá fréttir af nýju námsefni og öðru sem tengist útgáfu námsefnis.

Undirspil við íslensk dægurlög

Guðrún Árný tónmenntakennari hjá okkur eru búin að taka upp mikið af undirspili við íslensk dægurlög. Undanfarna daga hefur hún sett dægurlögin inn á youtube. Það er fátt sem gleður hjartað meira en fallegur söngur. Já, já við getum öll sungið við þennan fagra undirleik Guðrúnar Árnýjar. Hvetjum ykkur til að taka lagið og textarnir koma líka á skjáinn.


https://www.youtube.com/playlist?list=PL1JGavIrs8DZL6WAkpzNLE9VhpPyqEeIQ

Hvað getum við gert til að líða vel?

Á þessum fordæmalausu tímum sem við lifum er gott að vera í núinu, muna eftir öllu því góða sem er í kringum okkur og þakka fyrir það, því það er svo margt sem við getum verið þakklát fyrir.


Núvitund er góð leið til að ná ró og yfirvegun og hægt að stunda hvar sem er. Núvitund er að beina athyglinni að augnablikninu, því sem er hér og nú. Rannsóknir sýna að þeir sem stunda núvitund auka vellíðan sína, bæta heilsu, það dregur úr kvíða, streitu og depurð. Til að nálgast æfingar og öpp með núvitund þá er m.a. hægt að fara inn á þessar æfingar sem er hægt að hlaða inn á snjalltæki og hlusta hvar og hvenær sem er.

Á youtube eru hugleiðsluæfingar fyrir börn. En við fullorðna fólkið verðum líka og hugsa um okkur og hér má finna hugleiðsluæfingar fyrir fullorðna. Það er mikilvægt að við hugum að okkar heilsu því við verðum að vera stuðningur fyrir aðra t.d. börnin okkar því þau skynja vel ef við erum ekki í andlegu jafnvægi.


Þegar við eða nemendur erum í leik eða starfi getur verið gott að setja á tónlist eftir t.d. Friðrik Karlsson. Þessi tónlist er afslappandi og getur fengið okkur til að gleyma stund og stað og hugsa um eitthvað fallegt.


Á vefsíður Hugarfrelsis er hægt að kaupa hugleiðslusögur fyrir börn - ekki svo dýrar en alveg frábærar til að hlusta á fyrir svefninn eða bara hvenær sem er.

Covid-19 veiran

Handþvottur er okkar besta vörn gegn smiti corona veirunnar en það á líka við almennt um aðra smitsjúkdóma líka svo sem inflúensuna, magakveisur, og augnsýkingum svo eitthvað sé nefnt. Endilega skoðið góðar leiðbeiningar hér varðandi handþvott.

Vefur Landlæknis um Corona veiruna.

Munum að:

 • Gæta vel að hreinlæti, þvo hendur reglulega með sápu og nota handspritt.
 • Forðast snertingu við augu, nef, munn.
 • Huga vel að yfirborðsflötum t.d. hurðarhúnum, handriðum, lyftuhnöppum, snertiskjám, greiðsluposum og ljósarofum.
 • Sleppa handaböndum og faðmlögum og heilsa fremur með brosi.

KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA

Hvalrekinn


Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim

Kl. 7:45 - 14:00 fösFréttabréf Hvaleyrarskóla. Sent á foreldra nemenda skólans og skólasamfélagið.