Fréttabréf Garðaskóla

Febrúar 2016 - 39. árgangur - 3 tölublað

Hér vantar titil - á þetta að vera efnismeiri inngangur?

Ágætu forráðamenn nemenda Garðaskóla.

Í þessu bréfi vill skólastjóri nefna nokkur mikilvæg atriði:

1. samráð er mikilvægt

2. notkun unglinga á samfélagsmiðlum

3. forvarnaráætlun Garðaskóla

Samráð er mikilvægt

Starfsfólk Garðaskóla vill þakka forráðamönnum góð og uppbyggileg samtöl á foreldraviðtalsdegi nú í janúar. Unnið er úr athugasemdum sem fram komu jafnóðum og hlý orð í garð skólans eru mikilvæg hvatning. Skólastjóri og aðstoðarskólastjóri fara þessa dagana inn í alla bekki í skólanum til að heyra hljóðið í nemendum og á sama hátt er unnið úr þeim fundum. Við viljum hrósa nemendum fyrir að leggja fram góðar hugmyndir og sýna frumkvæði til að bæta Garðaskóla. Meðal þess sem nemendur setja á oddinn í vetur er umhverfisstefna skólans, jafnréttismál og mat á kennurum eða kennsluháttum. Nemendaráð skólans vinnur að því með stjórnendum að setja nýjungar á laggirnar og í vor vonumst við til að halda með þeirra hjálp skólaþing um jafnrétti og innleiða nýtt og betra sorpflokkunarkerfi.

Notkun unglinga á samfélagsmiðlum

Snjallsímar eru afar áberandi á göngum Garðaskóla. Nemendur og starfsmenn eru jafnvel farnir að hafa orð á því að nóg sé komið þegar hver nemandi situr og horfir á sinn skjá í stað þess að spjalla við félaga sína. Pógóvöllur á sal skólans er mjög gott mótvægi og er þessi skemmtilegi boltaleikur mjög vinsæll meðal nemenda.

Snapchat er ört vaxandi samfélagsmiðilll meðal ungs fólks. Þar getur notandinn sent stutt myndskeið og myndir til annarra notenda, ásamt texta og teikningum. Hver „snapskilaboð“ eru takmörkuð við ákveðinn tíma (1-10 sekúndur) en einnig er hægt að festa þau í 24 klukkustundir til allra. Umræður í upplýsingatækni í 8. bekk í haust leiddu í ljós að Snapchat og Instagram hafi tekið við af Facebook sem vinsælustu samfélagsmiðlarnir hjá yngri notendum.

Á haustönn var stofnaður nafnlaus aðgangur að Snapchat undir heitinu „sludurigarda“ og síðar „adalslúður“. Þessir reikningar urðu fljótlega vinsælir hjá nemendum Garðaskóla sem slúðurveita um ýmis málefni innan skólans. Fljótlega fór aðgangurinn þó að innihalda leiðinlegar athugasemdir um ákveðna nemendur. Nafnleysi þess sem stjórnaði reikningnum gerði það líka að verkum að sögusagnir fóru á kreik um hver væri að setja efnið inn og viðkomandi aðilar hafa fengið neikvætt viðmót vegna þessa.

Í tengslum við málið hafa náms- og starfsráðgjafar unnið eftir verkferlum Garðaskóla um einelti. Málið er einnig meðal þess sem skólastjórnendur ræða í heimsóknum sínum í bekkina. Stór hluti nemendahópsins tók beinan og óbeinan þátt í þessum miðli. Mikilvægt er að foreldrar séu meðvitaðir um þennan samfélagsmiðil, hvernig einelti á honum getur birst og ræði það við sín börn og þá ábyrgð sem fylgir því að vera virkir notendur á hina ýmsu samfélagmiðla.

Forvarnaráætlun Garðaskóla

Endurskoðun á forvarnaráætlun Garðaskóla er langt komin. Áætlunin byggir á forvarnarstefnu Garðabæjar og í henni er stórt samstarfsnet virkjað: skóli, félagsmiðstöð, heilsugæsla, samstarfsstofnanir í Garðabæ og nágrannasamfélagið allt.