MA-FRÉTTIR

Haustönn 2017

Ágætu foreldrar og forráðamenn

Ég vil byrja á því að þakka ykkur foreldrum og börnum ykkar fyrir það að velja MA sem framhaldsskóla. Það eru ýmsar veigamiklar breytingar í skólum og áætlun um þriggja ára framhaldsskóla er komin til framkvæmda. Við í MA ákváðum að taka okkur tíma í undirbúninginn, tengja stúdentsprófið sem best við væntanlegt háskólanám og það sem bíður nemenda okkar. Það er álag á nemendum í nýrri námskrá og kennarar og starfsfólk skólans er meðvitað um það. Það er skólanum mjög mikilvægt að vel takist til og þess vegna viljum við hafa gott samstarf við foreldra um það sem er að gerast í skólanum. Við leggjum áherslu á aukið samstarf kennara við allan undirbúning og þeir útbjuggu til dæmis í haust sameiginlega töflu yfir verkefni og próf nemenda á önninni og því væri fróðlegt að heyra hvernig það skilaði sér heim til ykkar. Ég vil hvetja ykkur til þess að hafa samband við umsjónarkennara ef einhverjar spurningar vakna og nýta ykkur fréttabréfið til skoðanaskipta.


Kveðja

Jón Már Héðinsson

skólameistari

Tíminn líður

Nú er langt liðið á haustönnina og þunginn í náminu því vissulega orðinn töluverður. Margskonar óhefðbundið nám hefur líka átt sér stað liðnar vikur, ekki síst hjá fyrsta bekk. Að þessu sinni voru ekki skálaferðir fyrir 1. bekkinga en þess í stað var svokallaður nýnemadagur strax í upphafi skólaárs að Hömrum. Þar voru skipulagðar ýmsar þrautir sem hver bekkur vann saman og kynntust því nemendur fljótar en ella.


Nám fer fram víðar en inni í kennslustofunni. Nemendur hafa lagt land undir fót og farið í fjölbreyttar námsferðir til Siglufjarðar, í Mývatnssveit og á Sturlungaslóðir í Skagafirði. Nemendur í læsisáföngum í 1. bekk fóru einnig í leikhús á dögunum og sáu Kvenfólk með Hundi í óskilum. Skólafélagið stóð á dögunum fyrir svokallaðri menningarferð til Reykjavíkur en slík helgarferð hefur verið farin undanfarin ár. Hún er alla jafna mjög vel sótt, ekki síst af fyrstu bekkingum.

Samskipti við foreldra

Gott upplýsingaflæði og samstarf milli heimila og skóla stuðlar að vellíðan og velgengni nemenda. Skólaárið hófst með fjölmennri skólasetningu og að henni lokinni var kynningarfundur fyrir foreldra nýnema. Kynningarbæklingur var sendur foreldrum nýnema og var birtur á vef skólans.


Við hvetjum foreldra til að láta okkur vita um það sem betur má fara, svo við getum bætt skólastarfið og stuðlað að betri líðan nemenda. Einnig hvetjum við ykkur til að fylgjast með og taka þátt í starfi FORMA, foreldrafélagi MA, en fundargerðir og önnur gögn um félagið eru á vef skólans.

Frá námsráðgjöfum / stoðþjónustunni

Námsráðgjafar og sálfræðingur sjá um einstaklings- og hópráðgjöf fyrir nemendur. Prófkvíðanámskeið verður haldið í seinni hluta nóvember og verður auglýst þegar nær dregur. Nemendur eru hvattir til að hafa samband við námsráðgjafa sem fyrst ef þeir telja að prófkvíði hamli árangri. Einnig hafa nemendur á 1. ári verið í nýnemafræðslu þar sem er farið í núvitund og námstækni s.s. tímastjórnun og skipulag, lestrar- minnis og glósugerð. Nemendur geta farið í áhugasviðskannanir hjá námsráðgjöfum til dæmis ef vafi leikur á vali á námsbraut.


Einnig verður námskeið í hugrænni atferlismeðferð í umsjá Kristínar Elvu sálfræðings. Markmið þess er að nemendur læri aðferðir til að bæta sjálfsmat sitt og sjálfstraust svo líðan og samskipti batni. Fjöldatakmarkanir eru á námskeiðið og verður það auglýst þegar nær dregur.


Hægt er að kynna sér þjónustu námsráðgjafa á vefslóðinni: http://www.ma.is/is/thjonusta/nemendavernd/namsradgjof eða með því að hafa samband við námsráðgjafa.

Spurt og svarað

Hver er lágmarksmæting?

Skyldumæting er í skólann og afar mikilvægt að ólögráða nemendur mæti vel, það stuðlar að betri vinnuanda í bekk og góðri ástundun og ýtir undir skuldbindingu í námi. Lágmarksmæting er 90%.

Hvernig á að tilkynna veikindi nemanda?

Þau þarf að skrá á Innu að morgni dags. Ef það er ekki mögulegt, er hægt að senda póst á ma@ma.is eða hringja í síma 455-1555.

Veikindi í lokaprófum?

Skólinn krefst læknisvottorða vegna veikinda í lokaprófum. Jafnframt þarf að tilkynna veikindin að morgni prófdags. Ef það er gert og vottorði skilað er nemandi sjálfkrafa skráður í sjúkrapróf (athuga að hér er eingöngu verið að tala um lokaprófin í desember og maí).

Ef nemandi kemst ekki í próf/verkefni á önninni vegna veikinda?

Auk þess að tilkynna veikindin í Innu/á skrifstofu skólans þarf að láta viðkomandi kennara vita. Ekki eru sjúkrapróf vegna allra símatsprófa.

Hverjir veita leyfi?

Hægt er að biðja um styttri leyfi hjá afgreiðslu skólans en lengri leyfi þarf að sækja um hjá skólameistara eða aðstoðarskólameistara. Fjarvistir vegna leyfa lækka mætinga- prósentuna en ef nemandi mætir að öðru leyti vel og sinnir náminu af kappi er slíkt látið óátalið. Nemandi ber þó alltaf ábyrgð á því að ræða við kennara fyrirfram ef til dæmis próf, hópvinna eða önnur verkefnaskil lenda á leyfisdögum.

Hvar er hægt að nálgast upplýsingar um skólann?

Helsta upplýsingaveitan er heimasíða skólans, ma.is. Þar má finna allar reglur, námsferla og skipulag og áfangalýsingar. Einnig má benda á bækling sem öllum foreldrum nýnema var sendur í tölvupósti í haust. Að auki má að sjálfsögðu alltaf hafa beint samband við skólann, svo sem á netfangið ma@ma.is eða beint á stjórnendur, námsráðgjafa eða umsjónarkennara.

Hvað sé ég á Innu?

Á inna.is má fylgjast með mætingum nemenda, sjá miðannarmat sem birt er fyrstu helgina í nóvember, sjá lokaeinkunnir í áföngum að loknum próftíðum í desember og maí.

Hvaða upplýsingar eru á Moodle?

Aðeins nemendur fá aðgangsorð að moodle þannig að ef að foreldrar/forráðamenn vilja fylgjast með þar þurfa þeir að fá lykilorðið hjá barni sínu. Mismunandi er hversu mikið kerfið er notað í áföngum en til dæmis gegnir það afar miklu hlutverki í menningarlæsi og náttúrulæsi í 1. bekk og eru allar verkefnalýsingar þar inni.

Hvenær byrjar jólafríið?

Jólafrí hefst að loknum prófum, flestir eru búnir í þeim 20. desember.

Hvenær eru lokaprófin?

Prófdagarnir eru frá 13. til 20. desember. Sjúkrapróf eru 4. -5. janúar. Endurtökupróf í völdum áföngum eru 10. eða 11. janúar.

Ný námskrá

Haustið 2016 hófst kennsla samkvæmt nýrri námskrá í 1. bekk. Töluverðar breytingar voru gerðar á fyrirkomulagi námsins þar sem hæst ber styttingu námstíma til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú. Í námskrá skólans frá 2010, sem nemendur í 3. og 4. bekk fylgja, er stúdentsprófið alls 240 einingar og nemendur taka að meðaltali 30 einingar á önn. Í nýju námskránni er einingafjöldinn 200 og nemendur taka þar af leiðandi að meðaltali 33 einingar á önn ætli þeir að ljúka námi á þremur árum. Því er álag á nemendur ívið meira en í eldra kerfi. Við höfum lagt áherslu á að námstími í nýju námskránni sé sveigjanlegur og að nemendur geti valið að ljúka námi ýmist á þremur, þremur og hálfu eða fjórum árum. Aðstæður nemenda eru margvíslegar og því mikilvægt að hægt sé að laga námstímann að ólíkum þörfum. Það er hvers og eins að meta, í samráði við brautarstjóra og/eða náms- og starfsráðgjafa skólans, hvaða leið er vænlegast að fara að settu marki. Foreldrar/forráðamenn nemenda eru beðnir um að snúa sér til brautarstjóra með spurningar og vangaveltur um námstíma.


Í nýju námskránni eru námssvið skólans brotin upp í fimm námsbrautir. Frelsi nemenda til að velja sér sérgreinar námsbrauta er meira en áður og strax á vorönn í 1. bekk eiga nemendur að leggja drög að námsferli sínum með vali á áföngum.


Með auknu álagi á önn er enn mikilvægara en áður að nemendur nýti tímann í skólanum vel til vinnu svo að heimanám verði ekki óyfirstíganlegt. Vissulega þurfa nemendur að læra eitthvað heima flesta daga en ef námið er stundað af kappi í kennslustundum eru færri verkefni sem bíða eftir að skóladegi lýkur.


Nýju skólastigi fylgja nýjar áskoranir. Á fyrsta ári takast nemendur á við nýjar greinar, eins og menningarlæsi, náttúrulæsi, frönsku eða þýsku auk þess sem námsgreinar sem þeir þekkja úr grunnskóla, eins og enska og stærðfræði, eru á þyngra stigi en áður. Strax á fyrstu önn er nokkur munur á námsbrautum; stærðfræðin er ólík milli brauta, nemendur á félagsgreinabraut eru í sögu en aðrar brautir eru í líffræði. Á vorönn bætast svo við nýjar greinar eins og lönd og menning og efnafræði.

Námsmatsdagar

Um langt skeið fóru þrjár vikur hvorrar annar í námsmat og uppgjör, lokaprófum var dreift á hálfan mánuð og ein vika nýttist fyrir sjúkrapróf, endurtökupróf, starfsmannafund og undirbúning nýrrar annar. Símat hefur aukist mjög undanfarin ár, próflausum áföngum fjölgað mjög mikið og vægi lokaprófsins hefur farið lækkandi. Fáir áfangar eru með vægi lokaprófs yfir 70%. Álag á nemendur og kennara er því mikið alla önnina við verkefnavinnu og yfirferð. Síðastliðið skólaár var gerð tilraun til að færa nokkra prófa/námsmatsdaga yfir á kennslutímabilið svo þeir nýttust til símats. Þetta tókst almennt vel og því eru tveir slíkir dagar á haustönn, 30. október og 22. nóvember. Þá er ekki hefðbundin kennsla eða mætingaskylda en kennarar geta ætlast til að nemendur komi í sjúkrapróf hafi þeir misst af verkefnum eða prófum. Færri dagar eru teknir undir lokapróf í áföngum, eða 6 alls fyrir utan sjúkrapróf og endurtökupróf.

Stærðfræðin

Stærðfræði er ein af kjarnagreinum allra námsbrauta og viðamikil á raungreina- og náttúrufræðibrautum. Stærðfræðikennsla í MA hefur fyrst og fremst tvö megin markmið, annars vegar að undirbúa nemendur fyrir frekara nám og hins vegar að veita þeim almenna menntun. Þar sem nemendur á félagsgreinabraut (FB) og mála- og menningarbraut (MMB) stefna yfirleitt á nám sem reynir minna á stærðfræðikunnáttu, er áherslan meiri á almennu menntunina en á raungreinabraut (RB) og náttúrufræðibraut (NB). Nemendur RB og NB hafa hins vegar valið sér leið sem felur í sér nám í raungreinum og stærðfræði á meðan þeir eru í MA og eftir stúdentsprófið standa þeim opnar flestar leiðir í námi, hvort sem er í raungreinum, heilbrigðisgreinum eða öðru.


Áherslumunurinn milli brauta í 1. bekk liggur fyrst og fremst í því að á RB og NB er ekki aðeins lögð áhersla á dæmareikning, heldur líka að nemendur kynnist fræðilega hluta stærðfræðinnar, svo sem sönnunum reglna og skilgreiningum hugtaka. Þess vegna er fyrsti áfangi á RB og NB á 2. þrepi, sem þýðir að nemendur eiga að kunna þokkalega vel efni grunnskólans svo að hægt sé að byggja ofan á það. Á FB og MMB er fyrsti áfangi á 1. þrepi, sem þýðir að efni hans skarast verulega við efni grunnskólans.

Stoðtímar í stærðfræði

Mörg undanfarin ár hafa nemendur á fjórða ári á stærðfræði- og eðlisfræðikjörsviði boðið upp á stoðtíma í stærðfræði einu sinni í viku. Tímarnir eru í raun heimanámsaðstoð, eru vel sóttir og þar myndast góður lærdómsandi.


Núna á haustönn eru stoðtímar á miðvikudögum klukkan 16.15 í stofu H5.

Skólalífið

Félagslíf nemenda

Helsti samkomustaður nemenda innan skólans er Kvosin, þar hittast þeir í frímínútum og þar eru kvöldvökur og aðrir viðburðir innan skólans haldnir. Þegar hefur einn söngsalur verið haldinn og sungið af kröftum í eina kennslustund. Kennsla hefur auk þess verið felld niður nokkrum sinnum vegna ýmissa viðburða.


  • Fjórðu bekkingar skipulögðu nýnemahátíð eftir hádegi 8. september.
  • Í tilefni að Degi íslenskrar náttúru og Evrópska tungumáladeginum var haldinn salur fyrir allan skólann en þá kom í heimsókn Dario Schwörer, ásamt hluta af fjölskyldu sinni, en þau búa um borð í skútu og hafa siglt um heimsins höf undanfarin ár í leiðangri sem kallast Top-To-Top.
  • Málfundafélagið stóð fyrir framboðsfundi með fulltrúum flestra stjórnmálaflokka og var sá fundur á skólatíma. Í kjölfarið voru svo haldnar svokallaðar skuggakosningar en þar geta allir nemendur framhaldsskólanna kosið og er það hugsað sem æfing og hvatning til að nýta kosningarétt.


Stjórn skólafélagsins Hugins hefur yfirumsjón með félagslífinu en fjölmörg undirfélög þess, misfjölmenn, sjá einnig um að halda uppi öflugu félagslífi. Til að létta lund nemenda heldur stjórnin annað slagið svokallaða gleðidaga en þá er tekið á móti nemendum þegar þeir koma í skólann um morguninn með hressingu og gleði.

Árshátíð

Stærsti viðburður félagslífsins er árshátíð skólafélagsins, ævinlega haldin föstudag sem næst fullveldisdegi Íslands. Að þessu sinni er hún þó ekki 1. desember þótt hann falli á föstudag heldur 24. nóvember. Nemendur eru samviskusamir í námi sínu og þótti 1. desember vera fullnálægt próftíð sem að er nú í fyrsta sinn í desember.


Undirbúningur árshátíarinnar er allur í höndum nemenda og kappkosta þeir við að gera hátíðina eftirminnilega hverju sinni, meðal annars með því að skreyta höllina eftir ákveðnu þema. Nánast hver einasti nemandi leggur hönd á plóg við undirbúning eða frágang. Undir borðum er þétt dagskrá atriða, tónlist, leiklist, myndbönd, kórsöngur og fyrirferðarmest hefur undanfarið verið danssýning dansfélagsins Príma. Ein af hefðunum í tengslum við árshátíðina er að dansa gömlu dansana og eru æfingatímar í íþróttum vikuna á undan. Yfirleitt er mikil stemning á efri hæðinni í höllinni og fjölmenni að dansa gömlu dansana.

Félög

Fjölmörg félög eru starfandi innan skólans, bæði fjölmenn og fámenn og er um að gera að hvetja börn ykkar til að taka þátt í félagslífinu. Allir viðburðir sem haldnir eru í skólanum og eru á vegum skólafélagsins eru áfengis- og vímuefnalausir og hafa nemendur lagt metnað sinn í að halda því þannig. Þátttaka í félagslífi skólans getur leitt til betri líðanar nemenda í skólanum og haft jákvæð áhrif á félagslegan þroska.


Fjölmennar kvöldvökur hafa þegar verið haldnar, farin hefur verið menningarferð til Reykjavíkur auk smærri viðburða. Lið Gettu betur hefur hafið æfingar og þessa dagana er verið að ganga frá skipan Morfísliðs skólans. Þá er tónlistarkeppnin Viðarstaukur afstaðin og bestu atriðin verða flutt á árshátíðinni og undirbúningur danssýningar Príma er í fullum gangi.


Skólafélagið og Málfundafélagið stóðu fyrir fundi með frambjóðendum fyrir alþingiskosningarnar. Fundurinn var vel sóttur og vel undirbúinn af hálfu nemenda.


Leikfélag MA hefur á undanförnum árum sett upp sýningar sem hafa notið mikilla vinsælda og má þar nefma Rauðu mylluna, Konung ljónanna og Anný, en nú er hafinn undirbúningur að sýningu á leikverki eftir LoveStar, sögu Andra Snæs Magnasonar, og að þessu sinni verður sýnt í Hofi.


Þótt félagslífið innan skólans og í ferðum á vegum skólafélagsins sé áfengislaust með öllu er hið óopinbera félagslíf, sem fer fram utan veggja skólans, það ekki. Stjórn foreldrafélagsins hefur haft forgöngu um það undanfarin ár að taka partíhald efri bekkinga með fyrstu bekkingum til umfjöllunar og meðal annars gert samning við stjórn skólafélagsins. Bent hefur verið á að sú hefð að hver bekkur í 4. bekk eigni sér bekk á fyrsta ári geti stuðlað að þessu.

Keppt í námsgreinum

Á hverju ári eru haldnar keppnir fyrir nemendur í framhaldsskólum í ýmsum námsgreinum, eðlis- og efnafræði, stærðfræði, ensku, frönsku og þýsku svo dæmi séu tekin. Þegar hefur verið haldin forkeppni í stærðfræði og tóku um 30 nemendur í MA þátt í henni. Brynja Marín Bjarnadóttir 1.X, Friðrik Snær Björnsson 1.X, Friðrik Valur Elíasson 3.VX og Sindri Unnsteinsson 4.X voru meðal efstu nemenda í keppninni en ekki er enn ljóst í hvaða sætum þau voru. Sindri hefur vermt efstu sætin undanfarin ár. Tvö lið tóku þátt í undankeppni í Boxinu, framkvæmdakeppni framhaldsskólanna en það er vettvangur fyrir framhaldsskólanema til að spreyta sig á ólíkum verkefnum, reyna á samvinnu og kynnast tækni – og iðnaði á skemmtilegan hátt. Ekki er vitað um árangur þeirra þegar þetta er skrifað.

Miðannarmat

Um miðja haustönn er skráð í Innu svokallað miðannarmat. Helsta markmið þess er ekki að gefa endanlega einkunn, heldur að gefa nemendum vísbendingu um stöðu sína í náminu. Því er ætlað að vera hvatning til þeirra sem standa sig vel en aðvörun til þeirra sem þurfa að bæta sig. Reynslan er sú að töluverður hluti þeirra sem fá O taka sig á og ná að ljúka áfanganum, en skilaboðin eru engu að síður nokkuð alvarleg. Náms- og starfsráðgjafar eru fúsir til að ræða við nemendur og foreldra þeirra um leiðir til að bæta námsárangur.


Samkvæmt úttekt sjálfsmatsnefndar á samanburði miðannarmats og haustannarprófa virðist miðannarmatið gefa nokkuð góða vísbendingu um það hversu líklegt er að nemandinn ljúki áfanganum í fyrstu tilraun. Dreifing einkunna var hins vegar töluvert mikil, og ólík eftir miðannarmatseinkunn. Hægt er að skoða úttektina í skýrslu sjálfsmatsnefndar á vef skólans.


Matið vísar til eftirtalinna þátta: Verkefnaskila, þátttöku í tímum, undirbúnings, árangurs. Það getur verið ólíkt eftir greinum hvaða þættir vega mest.


  • A – afbragðs gott: Nemandinn sinnir námi sínu af alúð, skilar verkefnum á réttum tíma og hefur fram til þessa náð mjög góðum árangri.
  • G – gott: Nemandinn stendur vel en gæti bætt sig.
  • S – sæmilegt: Ástundun og/eða árangur gæti verið betri.
  • O – ófullnægjandi: Nemandinn þarf að taka sig verulega á. Hann hefur ekki stundað námið nægilega vel og/eða hefur ekki náð lágmarksárangri.

Próftaflan

Próftaflan er á ma.is og á Innu.


Í próftíð eru hús skólans opin til klukkan 22 alla daga og því geta nemendur nýtt skólastofurnar til lærdóms.


________________________________________________________________________________________

Höfundar efnis: Aðstoðarskólameistari, brautarstjórar, náms- og starfsráðgjafar og Sverrir Páll

Ábyrgðarmaður: Sigurlaug A. Gunnarsdóttir

Uppsetning og myndir: Sverrir Páll